Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Hvernig notum við verkfærin?

Þar sem ég ákvað að taka upp skólabók í dag/kvöld aldrei slíku vant, varð 800 bls. sálfræðiskruddan fyrir valinu - enda ekki seinna vænna. Ég hef lengi haft mikinn áhuga á sálfræði, líklega þar sem ég hef áhuga á manneskjunni í öllu sínu veldi, samfélaginu og viðhorfum sem endurspeglast þar í hvort öðru. Sálfræðin útskýrir mannlega hegðun á nákvæman hátt og hjálpar okkur að skyggnast inn í hvenær, af hverju og hvernig fólk hagar sér eins og það gerir.

Í sálfræðinni eru hugtök sem lýsir öllu atferli, jafnvel því sjálfsagða, einhverju sem við framkvæmum bara og pælum ekkert í. Það hefur sína kosti því það minnir okkur á að sumt sem við gerum særir aðra, hefur áhrif á þá og kennir okkur að breyta samkvæmt því. Eftir því sem ég verð eldri og (vonandi) þroskaðri hefur gildi sálfræðinnar breyst fyrir mér. Um leið og ég lýt á hana sem nauðsynlegt verkfæri finnst mér hún stórhættulegt fyrirbæri sem einungis útvaldir kunna að fara með. Verkfærið byggir upp og brýtur niður.

Ég hef í dag verið að lesa um unglingsárin sem eru líklega einn sá flóknasti hluti æviskeiðsins fyrir alla. Þau voru hálf sorgleg hjá sjálfri mér á sínum tíma þar sem ég gat á engan hátt fundið brotabrot af sjálfri mér fyrir brengluðum hugsunum og skilaboðum umhverfisins sem voru að æra mig. Ég reyndi ýmislegt og samkvæmt því sem ég nú les hef ég verið með einn þann ,,afbrigðilegasta" og margslungnasta persónuleika sem fyrirfinnst á jarðríki. Ég gat séð mig í nánast öllum skilgreiningum um hið óeðlilega, hvernig sem á það er litið. Ég er búin að flissa mikið yfir þessu.

Ég veit ekki hvort það er skrítin pæling en ætli allar þessar skilgreiningar séu af hinu góða? Ætli öll sú aragrúa af sálfræðingum sem eru starfandi kunni að nota skilgreiningar án þess að ofmeta þær eða raunverulega misnota þær?

Af minni vinnu með börnum finn ég hve greiningaþörfin er sterk um leið og upp koma e-r ,,vandamál." Yfirleitt er það af hinu góða, að sjálfsögðu, þar sem þau flest þurfa á hjálp að halda en stundum er eins og það gleymist að horfa á tímabundið ástand barnsins hverju sinni. Við eigum öll okkar hæðir og lægðir í lífinu, þrátt fyrir að við séum kannski bara fimm ára.

Nú er ég í þroskaþjálfafræðinámi (vá, langt orð) og mun í framtíðinni vinna með mjög fjölbreyttum hópi fólks sem hefur ólíka hæfileika, þarfir, skoðanir, væntingar, vonir, drauma og þrár. Nánast hvergi í bókinni er talað um fötlun og ef það er gert er alltaf vísað til þess að það sé abnormal. Hví í ósköpunum á ég sem tilvonandi þroskaþjálfi að vita allt um hvað er eðlilegt? Auðvitað er mikilvægt að hafa viðmiðun og geta áttað sig á hvenær barn/fullorðin þarf frekari aðstoð, en af hverju er það birt sem eitthvað óeðlilegt?

Sem betur fer eru flestir kennarar okkar duglegir að minna okkur á að fræðin er ekki heilög en ég finn samt hve mikil heilaþvottastöð bókin getur verið þegar ég er ein að lesa með sjálfri mér. Mér finnast allir eðlilegir á sinn ólíka hátt. Mig langar ekki að tapa þeirri sýn í meðvirknikasti. Ég held það sé mjög mikilvægt að kenna ekki einungis kenningarnar heldur líka hvernig við notum þær og hvenær.

Smiður verður að kunna að nota verkfærin sín og skilja teikningar sem hannaðar eru af byggingarfræðingum eða arkitektum. Það er ekki nóg að hann viti að hamar heitir hamar og hver hafi búið hann til. Við hljótum öll, alveg sama í hvaða fagstétt við erum, að verða að kunna að nota verkfærin, hvort sem þau eru hlutlæg eða huglæg. Eins mikla virðingu og ég ber fyrir sálfræðinni og finnst gaman að læra hana vekur hún hjá mér blendnar tilfinningar. Upp að hvaða marki eigum við að læra um muninn á hinu eðlilega og óeðlilega?


Kastljós

Fyrir þá sem misstu af okkur í Kastljósinu í gær, já, eða langar til að horfa aftur, er bein slóð á viðtalið hér. Wink Starfsmenn þáttarins tóku virkilega vel á móti okkur og andrúmsloftið var afslappað og notalegt. Það skiptir öllu máli.

Takk fyrir jákvæðu commentin, bæði hér og á förnum vegi - þið eruð frábær. Margir eru að forvitnast um hvenær bókin komi út en það er ekki kominn fastur dagur ennþá, við látum ykkur vita um leið.

Eigið góðan dag,

- Freyja


Freyja og Alma í Kastljósinu í kvöld!

 

Í kvöld munum við Freyja fara í spjall til Ragnhildar Steinunnar í Kastljósinu. Vonum að þið verðið við skjáinn..

 Bestu kveðjur,


Alma


Postulín

Þá er bókin komin með nafn loksins eftir miklar vangaveltur, Postulín. Stökk bein mín gerðu það að verkum að á fyrstu árum ævi minnar mátti ekkert á móti blása án þess að ég brotnaði. Til að útskýra ástandið fyrir foreldrum mínum í upphafi var beinunum líkt við örþunnt postulín. Það leið ekki á löngu þar til fjölskyldan, meira í gríni en alvöru, kallaði mig stundum postulínsdúkku. Að þeirri ástæðu og ýmsum öðrum endurspeglar titillinn lífshlaup mitt og varpar ljósi á upplifun mína og viðhorf gagnvart fötlun minni og lífinu í heild. Nú er búið að hanna blöðung sem þið getið nálgast hér.

Í dag fórum við á fyrstu upplestur okkar og var hann hjá Rótarý í Garðabæ. Það var eins og við mátti búast tekið vel á móti okkur, við áttum góða stund og stigum okkar fyrstu skref í upplestri utan veggja heimilisins. Joyful Við þökkum fyrir okkur.

Nú erum við í óðaönn að bóka upplestra og má senda inn eftirspurn á almaogfreyja@forrettindi.is - við erum opnar fyrir öllu.

Við þökkum fyrir góðar viðtökur á færslunni hér fyrir neðan, það er svo gaman að heyra og sjá hvað þið hafið að segja. Hvatning ykkar er ómetanleg!

Kv. Freyja


Hver er normal?

Við Freyja fórum áðan á málþing Femínistafélags Íslands sem bar nafnið ,,Kynlaus og litblind." Freyja hélt erindi á einni málstofunni undir yfirskriftinni ,,Hver er normal?" Freyja tók fyrir upplifun sína af því að finnast hún vera ,,afbrigðileg" á unglingsárum þegar kynþroskaskeiðið hófst og hvernig skilaboðin úr umhverfi okkar, sem er fullt af staðalmyndum voru að kæfa hana á tímabili. Freyja las kafla úr bókinni þar sem hún lýsir upplifun sinni á þessum viðkvæmu árum.

Formaður félags kvenna af erlendum uppruna, Tatjana Latinovic, hélt líka erindi og það var mjög athyglisvert að heyra hana segja frá stöðu innflytjenda. Ég vissi til dæmis ekki að innflytjendur geta ekki byrjað á því að sækja íslensku námskeið þegar þeir koma til landsins, heldur verða þeir að byrja að vinna til að fá landvistarleyfi og í kjölfarið komast þeir í stéttarfélag sem styrkir þá til að fara á íslensku námskeið. Þetta finnst mér mjög mikilvægt að fólk viti, til að við skiljum að þegar við förum út í matvöruverslun eða bakarí og afgreiðslufólkið talar ekki íslensku, hefur það ef til vill ekki fengið tækifæri til að læra málið enn! Þessu verðum við að sýna skilning og hætta að fordæma innflytjendur. Þeir hafa langflestir mikinn metnað til að læra málið okkar og munu gera það fyrr en síðar.

Einnig fannst mér mjög sorglegt að heyra að í rannsókn sem gerð var á meðal innflytjenda höfðu allar tælenskar konur í rannsókninni, nema ein, orðið fyrir beinum fordómum, þ.e. sparkað í þær, kallað á eftir þeim ,,hvað kostaðir þú eiginlega?" eða þær eltar á förnum vegi. Það er óhuggulegt að þetta sé að eiga sér stað í okkar samfélagi í dag. Þegar er talað er um svona atburði er yfirleitt strax byrjað að tala um innflytjandann sem er fórnarlamb í svona tilviki en við þurfum að beina sjónum okkar að gerendunum sem eru uppfullir af fordómum og þurfa ekki síður á hjálp að halda. Fræðsla í skólum um innflytjendur gæti hjálpað til í þessum efnum til að ungt fólk þrói ekki með sér ranghugmyndir. Eitthvað verður að gera til að þessu linni og til að minnka óttann hjá þeim sem eru fordómafullir, því að  mínu mati eru formdómar ekkert annað en hræðsla og fáfræði. Það er ekki alltaf þeim fordómafulla að kenna, hann veit ef til vill ekki betur, en sem fullorðið fólk berum við ábyrgð á því að afla okkur þekkingar.

Um daginn fór ég í tælenska matvörubúð niðri í miðbæ Reykjavíkur. Ég er mikill aðdáandi tælenskrar matargerðar og ákvað loksins að gera tilraun til að elda sjálf Phad Thai núðlurétt sem ég hef svo oft pantað mér á veitingahúsum erlendis. Í búðinni var tælensk stúlka að afgreiða sem talaði góða íslensku, hún var ekki lengi að benda mér á allt sem ég þurfti og gefa mér góð ráð varðandi eldamennskuna. Á meðan ég hélt áfram að skoða mig um í búðinni komu tvær aðrar tælenskar konur inn með þrjú lítil börn. Þær heilsuðu afgreiðslu stúlkunni sem þær þekktu greinilega vel, en mér til mikillar undrunar töluðu þær allar saman á íslensku! Ég furðaði mig á þessu um stund, en áttaði mig svo á því að fyrir þeim var ekkert eðlilega. Kannski voru þær ekki einu sinni frá sama landinu eftir alltsaman! Fyrir þeim var þetta bara ,,normal."

Freyja kom eiginlega með setninguna sem sat hvað sterkast í mér eftir þetta málþing. ,,Mitt líf er mitt norm." Þetta segir eiginlega allt sem segja þarf, því hver og einn er ,,normal" fyrir sjálfum sér. Ef við lærum að bera virðingu fyrir margbreytileika fólks og áttum okkur á að það vera ,,normal" er marbreytilegt, munu fordómar minnka.

Með kærri kveðju,

Alma


Tímabært að ,,við" og ,,þið" falli úr gildi


Inn á vef Reykjavíkurborgar var frétt um námstefnu Menntasviðs og Landssamtakanna Þroskahjálpar sem haldin var á Þjóðminjasafninu í gær um skólagöngu fatlaðra. Freyja var þar með erindi og slóðin á fréttina er:

http://reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-757/521_read-8568/

Bestu kveðjur,

Alma


Að sýna virðingu í verki

 

 

 

 

 

 

 

 

Á ráðstefnunni Mennt er máttur í dag.

Ég held það sé alveg tímabært að skella inn færslu, biðst afsökunar á blogg-þurrðinni. Í dag kom út bæklingur eftir mig um samstarf stuðningsfulltrúa og nemenda í skólum. Námsgagnastofnun gefur út bæklinginn, Minningarsjóður Margrétar Björgólfs styrkti mig við skrifin og Sigrún Eldjárn myndskreytti. Dóra S. Bjarnason prófessor í Kennaraháskóla Íslands og Hrafnhildur Ragnarsdóttir sérkennari í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ leiðbeindu mér og studdu við skrifin. Ég er öllu samstarfsásfólki mínu í þessu verkefni mjög þakklát, það er alltaf gaman að sjá uppskeruna af því sem maður sáir.

Eftir ráðstefnuna Mennt er máttur sem var í Þjóðminjasafninu um skólamál barna með sérþarfir afhenti ég formanni menntasviðs Reykjavíkur bæklinginn og að sjálfsögðu öllum þeim sem vildu fá og skoða. Ef þið hafið áhuga á sjá brot úr honum og vita meira var viðtal við mig í fréttunum í kvöld.

Ráðstefnan sjálf var góð og margir áhugaverðir fyrirlestrar voru fluttir. Það fer ekkert á milli mála að öll viljum við sjá bætta stöðu nemenda með sérþarfir en að sjálfsögðu hafa ekki allir sömu skoðanir. Ég er persónulega mikill aðdáandi skóla án aðgreiningar og trúi því að öll börn, burt séð frá stöðu sinni, geti gengið í sinn hverfisskóla ef þau fá góða aðstoð og eru umvafin starfsfólki sem veit hvað einstaklingsmiðun er. Með fullri virðingu fyrir sérskólum tel ég þeirra starf vel geta farið fram í heimaskólum barna. Skólinn endurspeglar að mörgu leiti samfélagið og ef aðgreining á sér stað í skólum er ekki hægt að búast við einu samfélagi fyrir alla. Erindið sem ég flutti á ráðstefnunni í dag má nálgast hér.

Annars er allt á fjórða hundraðinu hjá okkur í bókinni, verið er að leggja lokahönd á kápu, myndir og texta og erum við að sjálfsögðu ótrúlega spenntar yfir því að hún sé að fara prentun. Alma er á fullu með Nylon þessa dagana enda safnplata að koma út um jólin hjá þeim. Allt í gangi í einu hjá okkur báðum en það er bara gaman, við fílum ekki lognmollu. Cool

Við lofum að vera duglegri að blogga en síðustu vikuna.

Kv. Freyja


Eru fötluð börn, undrabörn?

Mynd fengin á vísi.is 

Ég fór á ljósmyndasýningu í Þjóðminjasafninu ásamt aðstoðarkonu minni Þóru, tveimur frænkum og áhugasömum fimm mánaða frænda í gær. Sýning ber því miður heitið Undrabörn og er eftir Mary Ellen Mark. Sýningin samanstendur af ljósmyndum af fötluðum grunnskólanemendum í sérskólum landsins og er ekkert athugavert við það í sjálfu sér.

Við röltum hring um salinn og skoðuðum hverja myndina á fætur annarri, sumar vöktu bros á vör en aðrar óþægilega tilfinningu um að ljósmyndarinn hefði farið út á hálan ís og runnið nokkrum sinnum á rassinn.

Af einhverjum skrítnum ástæðum voru mikið af myndum af börnum og ungmennum í sturtu. Líkami þeirra var misberskjaldaður og á sumum þeirra voru unglingsstelpur myndaðar á vegu sem ég hefði mótmælt harkalega í þeirra sporum. Ég velti því fyrir mér hvernig fötlun þær eru með og hvort þær geti gefið leyfi fyrir birtingu myndanna sjálfar.

Ætli umræddir nemendur hafi verið spurðir eða einungis foreldrar þeirra og starfsfólk skólanna? Ætli nemendur hafi fengið að sjá myndirnar og skera úr um hvað færi á vegg Þjóðminjasafnsins og hvað ekki? Ef þau hafa fengið val, ætli það hafi verið skert eða þvingað? Var skerðing nemenda í sumum tilvikum misnotuð í þessu ferli?

Þessar spurningar flugu í gegnum hugann hvað eftir annað þennan klukkutíma sem ég var þarna!

Eins mikið og ég elska svarthvítar myndir fannst mér þær óviðeigandi í þessari sýningu og setja drunga yfir líf fatlaðra barna og ungmenna. Ég tengi alltaf saman ungt fólk og litadýrð og mér fannst vanta ljómann. Á flestum myndum voru börnin þiggjendur og hjálparþurfi og kennarar/þroskaþjálfar/stuðningsfulltrúar voru nánast undantekningarlaust á svipinn eins og einhver hafi dáið. Mér fannst það líka óviðeigandi, varla er vinnan þeirra svona alvarleg og harmleiksþrungin.

Þessi orð mín mega ekki misskiljast. Að mörgu leiti er frábært að börn/ungmenni með fötlun prýði veggi Þjóðminjasafnsins - þau eru sýnileg. Það var flott að sjá hvernig Mary Ellen Mark náði augnablikum gleði og vanlíðunar og sýndi þannig að allir hafa tilfinningar, hvernig sem þeir eru. Myndirnar voru vel teknar að mörgu leiti og sumar mjög skemmtilegar. Fyrir utan að börn/ungmenni með fötlun eru jafn falleg og önnur börn/ungmenni. Ég efast ekki um að margir foreldrar séu nú stoltir og Mary þakklátir fyrir að opna nokkra glugga inn í líf barna þeirra. En það er bara ekki nóg að opna glugga, það þarf að opna dyr. Dyr sem sýna heildstæðari mynd af þeirri staðreynd að þótt við séum svolítið öðruvísi, lifum við sérstöku-eðlilegu lífi og höfum karakter og persónuleika.

Öllum ber að koma fram við okkur af virðingu og hana skortir upp að vissu marki í þessa sýningu því það gleymist að sýna heildina, reisnina og sjálfstæðið sem í okkur býr sama hve mikil og alvarleg fötlun okkar er. Á þessum myndum fannst mér skerðingin yfirgnæfa manneskjuna og það er ekki það sem við viljum árið 2007, að minnsta kosti ekki ég.

Titill ljósmyndasýningarinnar er furðulegur. Undrabörn. Ég hélt að við fæddumst bara börn. Jú, jú, lífsverkefni okkar sem lifum með fötlun eru kannski þeim mun meira krefjandi en hjá honum Jóni Jóns úti í bæ en okkur ber að leysa þau, það er ekkert annað í boði. Það er okkar líf. Annað sem mér fannst skrítið, það voru unglingar á þessum myndum. Þegar ég var unglingur leit ég ekki á mig sem barn.

En burt séð frá því, hefur mér aldrei fundist ég neitt undur veraldar.

- Freyja


Heilabrot

Hér er allt á milljón og hafa helstu heilabrot verið yfir því hvernig kápa bókarinnar skuli líta út. Við förum á fund í dag við Alma og komumst vonandi að niðurstöðu, ásamt grafíska hönnuðinum og Sölkukonum. Það liggur töluvert á þessu fyrir bókatíðindi sem fara í prentun bráðlega.

Ég fór sl. mánudagskvöld og hélt fyrirlestra á Sjálfsstyrkinganámskeiði Ölmu og Eddu. Þetta var frábært kvöld þar sem við spjölluðum mikið saman, stelpurnar á námskeiðinu spurðu mikið út í líf mitt, upplifun, skoðanir og fleira sem ég tel mjög jákvætt og sýna mikið hugrekki af þeirra hálfu. Að þessu sinni fjallaði ég um hvenær ég uppgötvaði fötlun mína, hvernig viðhorf mitt til hennar snérist í hringi frá því að vera mjög reið, yfir í að líta á hana sem mikla gjöf. Ég heyrði á stelpunum að þær eru virkilega ánægðar með námskeiðið svo að ég efast um að Alma og Edda verði verkefnalausar í þessum bransanum hér eftir. Við reynum að setja inn myndir frá kvöldinu fljótlega.

Annars biðjum við að heilsa ykkur í bili og höldum ykkur uppfærðum.

Bestu kveðjur,

Freyja


,,Talar um fötlun sonar síns"


Við megum til með að benda á grein sem er inn á visir.is þar sem Colin Farrel talar um fötlun sonar síns.
Linkurinn er:

http://visir.is/article/20071017/LIFID01/110170131

Greinin endar á orðunum:

,,Ég hef aldrei hugsað um son minn sem einstakling með fötlun. Þetta snýst um sérstakar þarfir, hvað jafngildir fötlun og hvað ekki,"

Bestu kveðjur,

Alma


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband