Hver er normal?

Við Freyja fórum áðan á málþing Femínistafélags Íslands sem bar nafnið ,,Kynlaus og litblind." Freyja hélt erindi á einni málstofunni undir yfirskriftinni ,,Hver er normal?" Freyja tók fyrir upplifun sína af því að finnast hún vera ,,afbrigðileg" á unglingsárum þegar kynþroskaskeiðið hófst og hvernig skilaboðin úr umhverfi okkar, sem er fullt af staðalmyndum voru að kæfa hana á tímabili. Freyja las kafla úr bókinni þar sem hún lýsir upplifun sinni á þessum viðkvæmu árum.

Formaður félags kvenna af erlendum uppruna, Tatjana Latinovic, hélt líka erindi og það var mjög athyglisvert að heyra hana segja frá stöðu innflytjenda. Ég vissi til dæmis ekki að innflytjendur geta ekki byrjað á því að sækja íslensku námskeið þegar þeir koma til landsins, heldur verða þeir að byrja að vinna til að fá landvistarleyfi og í kjölfarið komast þeir í stéttarfélag sem styrkir þá til að fara á íslensku námskeið. Þetta finnst mér mjög mikilvægt að fólk viti, til að við skiljum að þegar við förum út í matvöruverslun eða bakarí og afgreiðslufólkið talar ekki íslensku, hefur það ef til vill ekki fengið tækifæri til að læra málið enn! Þessu verðum við að sýna skilning og hætta að fordæma innflytjendur. Þeir hafa langflestir mikinn metnað til að læra málið okkar og munu gera það fyrr en síðar.

Einnig fannst mér mjög sorglegt að heyra að í rannsókn sem gerð var á meðal innflytjenda höfðu allar tælenskar konur í rannsókninni, nema ein, orðið fyrir beinum fordómum, þ.e. sparkað í þær, kallað á eftir þeim ,,hvað kostaðir þú eiginlega?" eða þær eltar á förnum vegi. Það er óhuggulegt að þetta sé að eiga sér stað í okkar samfélagi í dag. Þegar er talað er um svona atburði er yfirleitt strax byrjað að tala um innflytjandann sem er fórnarlamb í svona tilviki en við þurfum að beina sjónum okkar að gerendunum sem eru uppfullir af fordómum og þurfa ekki síður á hjálp að halda. Fræðsla í skólum um innflytjendur gæti hjálpað til í þessum efnum til að ungt fólk þrói ekki með sér ranghugmyndir. Eitthvað verður að gera til að þessu linni og til að minnka óttann hjá þeim sem eru fordómafullir, því að  mínu mati eru formdómar ekkert annað en hræðsla og fáfræði. Það er ekki alltaf þeim fordómafulla að kenna, hann veit ef til vill ekki betur, en sem fullorðið fólk berum við ábyrgð á því að afla okkur þekkingar.

Um daginn fór ég í tælenska matvörubúð niðri í miðbæ Reykjavíkur. Ég er mikill aðdáandi tælenskrar matargerðar og ákvað loksins að gera tilraun til að elda sjálf Phad Thai núðlurétt sem ég hef svo oft pantað mér á veitingahúsum erlendis. Í búðinni var tælensk stúlka að afgreiða sem talaði góða íslensku, hún var ekki lengi að benda mér á allt sem ég þurfti og gefa mér góð ráð varðandi eldamennskuna. Á meðan ég hélt áfram að skoða mig um í búðinni komu tvær aðrar tælenskar konur inn með þrjú lítil börn. Þær heilsuðu afgreiðslu stúlkunni sem þær þekktu greinilega vel, en mér til mikillar undrunar töluðu þær allar saman á íslensku! Ég furðaði mig á þessu um stund, en áttaði mig svo á því að fyrir þeim var ekkert eðlilega. Kannski voru þær ekki einu sinni frá sama landinu eftir alltsaman! Fyrir þeim var þetta bara ,,normal."

Freyja kom eiginlega með setninguna sem sat hvað sterkast í mér eftir þetta málþing. ,,Mitt líf er mitt norm." Þetta segir eiginlega allt sem segja þarf, því hver og einn er ,,normal" fyrir sjálfum sér. Ef við lærum að bera virðingu fyrir margbreytileika fólks og áttum okkur á að það vera ,,normal" er marbreytilegt, munu fordómar minnka.

Með kærri kveðju,

Alma


Athugasemdir

1 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Þetta er mjög góður pistill. Ef allir hefðu þetta viðhorf og væru opnir fyrir margbreytileika myndu mörg vandamál í samfélagi okkar hverfa af sjálfu sér.

Kristbjörg Þórisdóttir, 27.10.2007 kl. 21:44

2 identicon

Komið þið sælar dömur.

Ég er buin að sitja og lesa og lesa. Ég var að uppgvöta þessa síðu og mér finnst þið tvær algjörlega frábærar. Gaman að sjá hvernig þið vinnið saman og ég dáist að henni Freyju. Hún er eðalhetja.

Langar bara að kvitta fyrir mig og segja að mig hlakkar til að sjá bókina. Ég mun kaupa hana og lesa.

Bestu kveðjur  

Guðrún B. (IP-tala skráð) 27.10.2007 kl. 22:44

3 Smámynd: Sigríður Jónsdóttir

Góður pistill.

Ég er að vinna með fólk sem er með ADHD. Það er oft orðið niðurbeygt því að heimurinn er að reyna að steypa í form að er búið til af mönnum. Hver erum við að ákveða formið? 'I blogginu mínu hér að neðan fjalla ég um fyrirlestur sem ég fór á nýlega en þar var maður sem hafði náð að komast út úr einhverfu heimnum. Hann var spurður í lok viðtalsins hvað er að vera normal? Hann svaraði:

  Það að vera Normal er að viðurkenna hversu einstakur þú ert. Það er óeðlilegt að vera eins og aðrir".

Hér sjáið þið linkinn að blogginu: http://sirrycoach.blog.is/blog/sirrycoach/entry/245637/

Frábær samvinna sem er þarna á ferð hjá ykkur og gangi ykkur allt í haginn bæði með bókina, samvinnuna og vináttuna.

Guð blessi ykkur

Kv Sigríður 

Sigríður Jónsdóttir, 28.10.2007 kl. 00:26

4 identicon

Heyr heyr, þið eruð æði og eruð að gera frábæra hluti. Gaman að sjá og heyra í þér Freyja þó það hafi bara verið í gegnum sjónvarp og útvarp, endilega reynum að hittast fljótlega. Ég er ekki ennþá búin að fá dagsetningarnar og bíð bara misþolinmóð, þetta hefur allt sína kosti og galla ;) Bestu kveðjur til pabba, mömmu og bræðranna :)

Rannveig Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 28.10.2007 kl. 01:10

5 Smámynd: Alma Guðmundsdóttir og Freyja Haraldsdóttir

Kærar þakkir fyrir þessar hvetjandi athugasemdir, það er okkur Freyju mikils virði!! Takk fyrir áhugaverðan pistil Sigríður!

Með bestu kveðju,

Alma

Alma Guðmundsdóttir og Freyja Haraldsdóttir, 28.10.2007 kl. 11:39

6 Smámynd: Halla Rut

Mjög góður pistill hjá þér. 

Sumir eru hafa svo litla sjálfsmynd að eina leiðin til að líða betur með sjálfan sig er að níðast á öðrum og reyna að setja sjálfan sig ofar einhverjum sem á erfitt með að verja sig. Ég finn til með slíku fólki. 

Hún Freyja hlýtur að vera duglegasta manneskja á Íslandi. Hún er líka heppin að eiga svona góða vinkonu sem þú ert Alma.  Annars vil ég ekki segja að fólk sé heppið ef það á góðan vin því maður velur vini sína svo það er gæði ykkar beggja sem leiðir ykkur saman.

Halla Rut , 28.10.2007 kl. 13:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband