Sú sem starði og sú sem spurði

Ég fór í Hagkaup í gær með aðstoðarkonu minni, sem er nú ekki frásögufærandi fyrir fimmaura, nema að við upplifðum mjög sérstakt mómemt. Aðstoðarkona mín var að fá sér salat/pastabakka og ég beið á meðan. Á meðan ég beið kom kona á miðjum aldri sem er að vinna í búðinni upp að mér og starði á mig í smá stund.

Kona: Hvað segirðu gott?

Ég (vandræðaleg): Ég segi bara fínt.

Konan starði, og starði og starði lengur.

Kona: Hvað ert þú gömul?

Ég (að reyna að fá ekki hláturskast): Ég er 22 ára.

Kona: Já, já, 22 ára.

Og hún starði á fæturna á mér, svo búkinn, svo andlitið til skiptis.

Ég vissi ekki hvert ég ætti að horfa - reyndi að horfa á eitthvað allt annað en þessa blessuðu konu.

Aðstoðarkona mín hætti við að fá sér pastabakkann. Ég hef aldrei verið jafn fegin að komast út úr Hagkaup.

...

Fyrr um morguninn hafði ég farið í heimsókn á leikskóla sem ég hef ekki komið á áður. Börnin sem voru í anddyrinu þegar ég kom urðu ein augu þar til að ein stúlkan braut ísinn og spurði: Af hverju ertu svona?

Ég: Vegna þess að beinin í líkama mínum eru ekki jafn sterk og ykkar og þess vegna hafa fæturnir ekki styrk til að standa. Í staðin nota ég svona flottan hjólastól.

Stúlkan (og hin börnin): Jááá, okay!

Málið var dautt!

Hvor ætli hafi farið heim með réttar hugmyndir í höfðinu - sú sem starði, eða sú sem spurði?


Athugasemdir

1 Smámynd: Embla Ágústsdóttir

Börn, hafa svo margt fram yfir okkur! Þau fá án efa heilbrigðari mynd af litrófi samfélagsins 

Embla Ágústsdóttir, 29.11.2008 kl. 20:57

2 Smámynd: Kittý Sveins

Já.. alltaf gaman að fylgjast með blogginu þínu Freyja.. Ég gat ekki annað en hlegið þegar ég las þetta.. Bæði hvað konan var vandræðaleg og hvað barnið var innilegt og ákveðið.

Með kveðju

Kittý

Kittý Sveins, 29.11.2008 kl. 22:50

3 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

''Sá sem spyr er heimskur í stutta stund, en sá sem ekki spyr er heimskur alla ævi.''

Við getum lært svo margt af blessuðum börnunum.

Jóna Á. Gísladóttir, 30.11.2008 kl. 01:18

4 Smámynd: Dísa Dóra

Börnin eru alltaf svo yndislega hreinskiptin og full af forvitni (og óhrædd við að spurja) - við fullorðna fólkið mættum alveg hafa meira af þessum eiginleikum.

Dísa Dóra, 30.11.2008 kl. 11:16

5 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Þetta er einstök frásögn. Þakka þér fyrir að deila þessu með okkur.

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 30.11.2008 kl. 15:35

6 Smámynd: Jens Guð

  Umhugsunarverð færsla og góður punktur hjá Jónu Á.

Jens Guð, 1.12.2008 kl. 02:17

7 identicon

,,, það sem er svo skrítið er að fullorðnir skulu enn vandræðast yfir fötlun, börnin láta sér fátt um finnast og ganga hreint til verks, enda hreinlegast.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 22:10

8 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Börnin eru yndislega einlæg og ekkert mál er maður hefur svarað þeim.

Fullorðið fólk verður stundum svolítið dónalegt í sínu (veit ekki hvað á að gera eða segja ástandi) það hefur ekki einu sinni vit til að snúa sér bara í burtu.

Fyrir margt löngu var ég með litlum vini mínum í Hagkaup þessi drengur er með turett, hann var að skoða í hillunum og ég að setja í kerruna, kemur að kona sem segir, Guð hjálpi mér hver á þetta barn, hann sagði við konuna;
" fyrirgefið frú ég er með turett og þess vegna eru svona grettur á andlitinu á mér og ég get ekkert að því gert", konan vissi ekki einu sinni hvað það var og taldi að hann væri bara að leika sér að þessu, hann horfði bara á hana þar til hún gekk í burtu stórhneyksluð yfir uppeldinu á drengnum. Hann kom svo til mín, en ég hafði bara látið hann um þetta, en sagði er hann kom þú varst bara flottur og hann hallaði sér upp að mér. Við vorum vinir.

Freyja mín ég hef fylgst með þér en aldrei kvittað fyrr en nú.
Þakka þér fyrir að vera svona fyrirmynd fyrir aðra.
Ljós inn í þitt líf, kveðjur til ykkar beggja
Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 8.12.2008 kl. 08:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband