Hvernig notum við verkfærin?

Þar sem ég ákvað að taka upp skólabók í dag/kvöld aldrei slíku vant, varð 800 bls. sálfræðiskruddan fyrir valinu - enda ekki seinna vænna. Ég hef lengi haft mikinn áhuga á sálfræði, líklega þar sem ég hef áhuga á manneskjunni í öllu sínu veldi, samfélaginu og viðhorfum sem endurspeglast þar í hvort öðru. Sálfræðin útskýrir mannlega hegðun á nákvæman hátt og hjálpar okkur að skyggnast inn í hvenær, af hverju og hvernig fólk hagar sér eins og það gerir.

Í sálfræðinni eru hugtök sem lýsir öllu atferli, jafnvel því sjálfsagða, einhverju sem við framkvæmum bara og pælum ekkert í. Það hefur sína kosti því það minnir okkur á að sumt sem við gerum særir aðra, hefur áhrif á þá og kennir okkur að breyta samkvæmt því. Eftir því sem ég verð eldri og (vonandi) þroskaðri hefur gildi sálfræðinnar breyst fyrir mér. Um leið og ég lýt á hana sem nauðsynlegt verkfæri finnst mér hún stórhættulegt fyrirbæri sem einungis útvaldir kunna að fara með. Verkfærið byggir upp og brýtur niður.

Ég hef í dag verið að lesa um unglingsárin sem eru líklega einn sá flóknasti hluti æviskeiðsins fyrir alla. Þau voru hálf sorgleg hjá sjálfri mér á sínum tíma þar sem ég gat á engan hátt fundið brotabrot af sjálfri mér fyrir brengluðum hugsunum og skilaboðum umhverfisins sem voru að æra mig. Ég reyndi ýmislegt og samkvæmt því sem ég nú les hef ég verið með einn þann ,,afbrigðilegasta" og margslungnasta persónuleika sem fyrirfinnst á jarðríki. Ég gat séð mig í nánast öllum skilgreiningum um hið óeðlilega, hvernig sem á það er litið. Ég er búin að flissa mikið yfir þessu.

Ég veit ekki hvort það er skrítin pæling en ætli allar þessar skilgreiningar séu af hinu góða? Ætli öll sú aragrúa af sálfræðingum sem eru starfandi kunni að nota skilgreiningar án þess að ofmeta þær eða raunverulega misnota þær?

Af minni vinnu með börnum finn ég hve greiningaþörfin er sterk um leið og upp koma e-r ,,vandamál." Yfirleitt er það af hinu góða, að sjálfsögðu, þar sem þau flest þurfa á hjálp að halda en stundum er eins og það gleymist að horfa á tímabundið ástand barnsins hverju sinni. Við eigum öll okkar hæðir og lægðir í lífinu, þrátt fyrir að við séum kannski bara fimm ára.

Nú er ég í þroskaþjálfafræðinámi (vá, langt orð) og mun í framtíðinni vinna með mjög fjölbreyttum hópi fólks sem hefur ólíka hæfileika, þarfir, skoðanir, væntingar, vonir, drauma og þrár. Nánast hvergi í bókinni er talað um fötlun og ef það er gert er alltaf vísað til þess að það sé abnormal. Hví í ósköpunum á ég sem tilvonandi þroskaþjálfi að vita allt um hvað er eðlilegt? Auðvitað er mikilvægt að hafa viðmiðun og geta áttað sig á hvenær barn/fullorðin þarf frekari aðstoð, en af hverju er það birt sem eitthvað óeðlilegt?

Sem betur fer eru flestir kennarar okkar duglegir að minna okkur á að fræðin er ekki heilög en ég finn samt hve mikil heilaþvottastöð bókin getur verið þegar ég er ein að lesa með sjálfri mér. Mér finnast allir eðlilegir á sinn ólíka hátt. Mig langar ekki að tapa þeirri sýn í meðvirknikasti. Ég held það sé mjög mikilvægt að kenna ekki einungis kenningarnar heldur líka hvernig við notum þær og hvenær.

Smiður verður að kunna að nota verkfærin sín og skilja teikningar sem hannaðar eru af byggingarfræðingum eða arkitektum. Það er ekki nóg að hann viti að hamar heitir hamar og hver hafi búið hann til. Við hljótum öll, alveg sama í hvaða fagstétt við erum, að verða að kunna að nota verkfærin, hvort sem þau eru hlutlæg eða huglæg. Eins mikla virðingu og ég ber fyrir sálfræðinni og finnst gaman að læra hana vekur hún hjá mér blendnar tilfinningar. Upp að hvaða marki eigum við að læra um muninn á hinu eðlilega og óeðlilega?


Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Sælar báðar tvær, ég sá þáttinn og hafði gaman af, það er ekki hægt annað en að dáðst að þessu æðruleysi sem þú sýnir Freyja...þó að ég sé nú uppalinni í Garðabænum þá bý ég fyrir Austan í dag á Seyðisfirði og þar höfum við einmitt reynt að hafa það þannig í skólakerfinu að allir eru eins sama hvort þeir eru lamaðir eða fatlaðir..en ég held að þú hafir brætt hjörtu margra í þættinum.....takk fyrir mig.

Alma......þú komst mér svo í opna skjöldu að það hálfa væri nóg.....þó að við séum í sama bransa og höfum líklega bara hist einu sinni......þá þekki ég þig ekkert neitt en var samt búinn að búa mér til einhverja allt aðra mynda af þér(skamm Einar Bragi)......en þú sýndir og sannaðir að þú ert ekki venjuleg ljóska ......ef að svo má segja he he....Heldur hrein og bein klár ung kona með bein í nefinu..Takk fyrir mig...

Kveðja

Einar Bragi

Einar Bragi Bragason., 1.11.2007 kl. 00:11

2 identicon

En frábært viðtalið í Kastljósinu, þið stóðuð ykkur svakalega vel :) Mikið er ég stolt af að þekkja þig Freyja, þú hefur svo sannarlega gert mig að betri manneskju. Ég urra alltaf inní mér þegar ég sé ófatlað fólk leggja í fötluðu stæðin og ég stend mig að því að taka smá krók og sjá hvort þeir eru með "fatlaða" miðann í framrúðunni. Ég þarf að fá mér svona límmiða með tonnataksviðbjóðslími til að líma á rúðurnar :) hihi

Annars er ég hjartanlega sammála þér í sambandi við bækurnar í náminu, það er furðulegt að fólkið sem á að hjálpa fötluðum sé matað á því að fatlaðir séu abnormal og óeðlilegir. Ég trúi því að þú eigir eftir að breyta heimi þroskaþjálfunar á Íslandi, og ég held að þú hafir nú þegar haft mikil áhrif á kennarana og samnemendur þína, mjög góð byrjun á þínum ferli :)

Til hamingju með nafnið á bókinni, mér finnst það mjög viðeigandi og fallegt. Svo hlakka ég ýkt mikið til að lesa herlegheitin :) Gangi ykkur rosalega vel. KNÚÚS... Rannveig

Rannveig Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 20:21

3 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Þetta er mjög þörf og góð hugleiðing. Einmitt það sama hefur læðst að mér í sálfræðinámi mínu. Frábært að þú hafir ákveðið að feta þessa leið. Þú verður flottur þroskaþjálfi . Svo mæli ég nú með fötlunarfræðinni svona sem næsta þrepi.

Kristbjörg Þórisdóttir, 1.11.2007 kl. 20:51

4 identicon

RAnnveig, mikið er gott þegar ég heyri að fólk er meðvitað um fötluðu stæðin. Annars skaltu líka athuga þetta: ég er ófötluð en er með svona miða í bílnum hjá mér v/dóttur minnar. Hún er rúmlega 2ja ára og er nýfarin að ganga ein svona nokkuð hindrunarlaust. En samt þarf ég iðulega að bera hana út úr bílnum, setja hana kannski í kerru eða bera hana áfram hvert sem við erum að fara.

Oft sé ég fólk horfa skringilega á okkur þegar ég legg í þessi stæði, tek út 2 börn og annað kannski fer í kerru. Þetta lítur út eins og ég sé með 2 heilbrigð börn en svo er ekki. Það hefur komið fyrir að ráðist hefur verið á mig v/þessa.

En ég er samt ánægð að fólk er meðvitað um þetta, því eins og þú segir þá er of mikið um að fólk sem hefur ekki rétt á þessum stæðum leggi í þau.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 21:40

5 identicon

Hæ elsku Freyja.

Innilega til hamingju með útgáfu bókarinnar og nafnið á henni. Það er svakalega vel valið og segir svo margt. Þið stóðuð ykkur vel í Kastljósinu og það skín svo greinilega í gegn vinátta ykkar og einlægni í því sem þið gerið.

Hlakka mikið til að lesa.

Mjög góð sálfræðipæling. Ég hef líka svona mikinn áhuga á sálfræði af svipuðum ástæðum og þú nefnir. Sálfræðin hefur bæði þau áhrif á mig að hún heillar mig og hræðir í senn. Þetta eru allt kenningar er eru ekki fullsannaðar. Sem er kannski kostur í síbreytilegu samfélagi. ;)

Kær baráttukveðja 

Olga Björt (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 22:49

6 identicon

Flottur pistill hjá þér mín kæra að vanda.

Var einnig að horfa á viðtalið við þig í kastljósinu, ég er hætt að halda í við þig i þessum efnum, eins gott að þú hendir þessu alltaf inn á síðuna annars væri ég alltaf úti á þekju þegar ég mæti í vinnuna og það tilkynna mér allir hátíðlega að þú hafir verið í viðtali einhverstaðar. -ég meina, maður má ekki bregða sér af bæ .

Þú veist Freyja mín að ég er svoo stolt af þér og það að við yrðum svona miklar vinkonur hérna í denn (allt Aðalbjörgu okkar að þakka) hefur svo sannarlega kennt mér margt og gert mig að betri manneskju fyrir vikið..

I love ya, heyri í þér um helgina frá Akureyri city..

Heiða (IP-tala skráð) 2.11.2007 kl. 01:03

7 identicon

Kæra Magga, ég myndi aldrei ráðast á þig ef ég myndi sjá þig leggja í fatlaða stæðið :) Myndi samt kíkja í framrúðuna og athuga hvort þú værir með miða :) Þetta er greinilega stundum erfitt eins og þú ert að lýsa og gott að heyra þetta því auðvitað þarf maður ekki að vera í hjólastól til að vera með fötlun. Besta dæmið sem ég lenti í þegar ég var á ferð með Freyju var þegar það var stór sendiferðabíll fyrir framan annað fatlaða stæðið og MÓTORHJÓL í hinu fatlaða stæðinu. Þetta var sendill sem fannst bara allt í lagi að leggja þarna því hann var svo stutt. Helvítis bull og vitleysa segi ég, það var nóg af stæðum þarna aðeins lengra frá.

En gangi þér vel með litlu stelpuna þína og ég vona að þú verðir ekki fyrir frekari óþægindum vegna þessa.

Rannveig Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 2.11.2007 kl. 20:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband