Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Myndir segja meira en þúsund orð

Snillingurinn hann Hlynur Hafsteinsson frændi minn tók ljósmyndir í útgáfugleðinni okkar í gær og viljum við deila nokkrum með ykkur. Ef þið viljið sjá fleiri myndir eftir Hlyn endilega smellið hér.

null

Útstilling í glugga fyrir útgáfugleðina í bókabúðina Iðu

 null

Í viðtali hjá Ellý í Sviðsljósinu

null

Að árita fyrir eina af mínum bestu vinkonum með hjálp Ölmu.

null

Aðeins of busy til þess að horfa í linsuna en.... sætar samt og mjög hamingjusamar með yndislegt kvöldið! Wink


Að sjá fræin verða að uppskeru

Í dag förum við í Borgarholtsskóla í upplestur og á morgun. Þá förum einnig í:

  • Áritun í Hagkaup í Smáralind kl. 13:00-14:00
  • Upplestur í Duus-húsinu í Keflavík 15:15
  • Söfnun hjá Mac til styrktar Alþjóðlega alnæmisdeginum seinni partinn.

Annars eru nýjustu fréttir að hljóðbókin er komin út. Hún tafðist örlítið því miður en er nú mætt sem er fyrir öllu.

Ég á að vera læra. Nenni því ekki. Er enn í sæluvímu yfir gærdeginum en þá héldum við Alma útgáfugleði vegna Postulín í Iðu á Lækjargötu. Þrátt fyrir mikið stress fyrr um daginn tókst teitið ótrúlega vel, fengum fullt af frábærum gestum, snilldar píanóleikara og auðvitað sungu Alma, Klara og Steinunn í Nylon nokkur velvalin lög fyrir fólkið.

Þetta var svo óraunveruleg stund.

Fyrir tveimur árum sátum við Alma inn í herbergi hjá mér og ákváðum að skrifa bók en vissum ekkert hvernig, með hverjum og hvenær - við ætluðum bara. Fyrir ári síðan settum við markið á þetta haust en vissum varla ennþá hvernig í ósköpunum við færum að því. Um mitt sumar kom Salka forlag til sögunnar og fóru þá hjólin að snúast fyrir alvöru - dyrnar að þessu hvernig? opnuðust.

Ef við Alma vorum ekki saman vorum við talandi í síman hvor við aðra eða sendandi tölvupósta, ef við vorum ekki að skrifa töluðum við um hvað við ætluðum að skrifa og ef við vorum ekki að tala um það vorum við hugsandi um efnið.

Fólk talaði oft um að það næði engu sambandi við mig og að ég væri svo utan við mig - bókin var einfaldlega lífið og fátt annað komst fyrir í huganum. Á köflum virtist vinnan óendanleg og óyfirstígandi en alltaf vorum við staðfastar, bókin átti að koma út. Hugurinn var fastur í haustinu 2007.

Draumar verða að veruleika, væntingar að árangri og fræ að uppskeru. Það sáum við báðar í gærkvöldi.

Við þökkum Sölku, fjölskyldum okkar, vinum og öðrum góðum gestum kærlega fyrir komuna og hvatningu í gærkvöldi.


Erilsamur dagur

Hæ, hæ

Biðjumst afsökunar á að hafa ekki sett inn dagskránna en í morgun var Alma að lesa fyrir unglingahóp á Borgarbókasafni, í hádeginu vorum við á Hrafnistu að lesa og selja bækur og framundan er:

  • Áritun í Hagkaup Holtagörðum kl. 16-17
  • Upplestur á bókasafni Selfoss kl. 18:15
  • Upplestur og spjall í NLFÍ 20:00

Vonandi sjáum við sem flesta.

Kv. A&F


Frábær kvöldstund

IMG_2797

Í félagsmiðstöðinni við Háteigsskóla 

Í kvöld heimsóttum við félagsmiðstöðina við Háteigsskóla og lásum upp úr Postulín. Um var að ræða stelpukvöld og var Marta María einnig að lesa upp úr bókinni Ef þú bara vissir. Að loknum upplestrum bjóðum við Alma oft upp á fyrirspurnir og er afar misjafnt hversu góð umræða kemst af stað. Í kvöld átti sér stað frábær, löng og innihaldsrík umræða sem spratt upp frá spurningum stelpnanna og vangaveltum. Nú hef ég haldið tugi fyrirlestra og fengið ótal spurningar en ég held að opinleiki og frumkvæði áheyranda í kvöld hafi slegið öll met.

Það þarf hugrekki til að þora að spyrja og því mega þessar flottu Háteigsstúlkur vera mjög stoltar af sér. Mér finnst svo gott þegar fólk þorir að spyrja því þá veit ég að það fer ekki heim með höfuðið fullt af spurningum og þarf ekki að búa sjálft til svörin. Einlægni og forvitni er mikilvæg forvörn gegn fyrirfram ákveðnum hugmyndum og fordómum að öllu tagi.

Annars þökkum við fyrir skemmtilegar kveðjur vegna Ísland í dag - þið eruð æðisleg. Einhver lítill fugl hvíslaði að mér að innan tíðar muni birtast hér reynslusaga Ölmu um það þegar hún vaknaði fötluð einn góðan veðurdag. Þið sem misstuð af þættinum getið horft hér.

Góða nótt!

Kv. Freyja


Minnum á...

Ísland í dag, í kvöld Wink

Myndaalbúm úr lífi Freyju í 24 stundum í dag

2 - nokkra mánaða 

Smellið hér.


Áritun á morgun - Kringlunni

 

Á morgun verðum við Freyja að árita bókina okkar Postulín á milli kl.16-18 í Eymundsson Norðurkringlu. Vonumst til að sjá framan í sem flesta.. 


Ísland í dag - á mánudag

Mælum sterklega með að þið horfið á Ísland í dag á mánudagskvöldið 26.nóv. - það mun vera þess virði.

Segjum ekki meira.

Kv. Alma og Freyja


Með ólíkindum

Það er hreint ótrúlegt hvað við erum komin stutt á veg í búsetumálum fatlaðs fólks. Valið er þröngt, úrræðin fá og þjónustan skert og oft skelfilega léleg. Það er ekki beint starfsfólkinu að kenna (þó það sé reyndar oft stofnanameðvirkt) en fáir sækjast í störfin vegna lélegra launa. Þeir sem starfa inn á ,,heimilum" (finnst þau ófá mjög stofnanaleg) glíma við manneklu upp á hvern einasta dag, alltof mikið álag og samviskubit yfir því að geta ekki veitt íbúum mannsæmandi aðstoð og þjónustu.

Það versta við þetta allt saman er að fjárveitingavaldið fattar ekki að það er fjárhagslega hagkvæmt fyrir þjóðina að eyða peningum í lífsgæði fólks með fötlun því þá líður okkur vel og þurfum síður á sálrænum úrræðum að halda, vinnum vinnuna okkar, tilheyrum mannauði atvinnulífsins, greiðum okkar skatta og búum á okkar heimilum svo ekki þarf að búa til endalausar stofnanir (sérstaklega fyrir okkur, sem erum í raun ekkert sérstakar i en neinn annar í þessum heimi) sem aldrei er almennilega hægt að manna.

Strákurinn í neðangreindri frétt vill búa einn. Það fyndna er að Svæðisskrifstofan, jú, jú, hún býður upp á sjálfstæða búsetu en reiknar ekki með að fólk sem kýs það, þurfi neina aðstoð. Ég þarf aðstoð við allar athafnir daglegs lífs en samt stefni ég á að búa ein.

Sjálfstæði er ekki það að gera allt upp á eigin spýtur, sjálfstæði er að gera það sem þú vilt þegar þú vilt það, burt séð frá því hversu mikla aðstoð þú þarft við framkvæmdina.


mbl.is Vill sjá soninn búa einan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Postulín komin í verslanir

null 

Það voru ekki amalegar fréttir sem við fengum í morgun þegar okkur var tilkynnt að bókin Postulín væri tilbúin úr prentun og myndi verða dreifð í flestar verslanir í dag og á morgun. Við erum komnar með okkar fyrstu eintök í hendur og í raun orðlausar að draumurinn okkar, sem var svo fjarlægur fyrir tveimur árum, sé orðinn að veruleika. Við verðum að viðurkenna að við erum mjög stoltar konur í dag.

Það er vægast sagt skrítin tilfinning að vera nú berskjaldaður fyrir öllum þeim sem vilja lesa. Þessi vinátta okkar Ölmu hefur verið mér, og mun alltaf vera, einstaklega mikilvæg því með hana við hlið mér tókst mér að opna fyrir gátt sem hefur alltaf verið stífluð og svara spurningum sem engin hefur þorað að biðja mig að svara. Það eru samt sem áður þær spurningar sem hafa hjálpað mér að hreinsa út óþarfa vanlíðan sem ég hef haldið inn í mér fram til dagsins í dag. Ég er hæst ánægð með mína ákvörðun og vonum við Alma báðar að sú sjálfskoðun sem við fórum báðar í gegnum, við skrifin, dusti rykið af gömlum tabúum, opni víðari sýn á margbreytileika mannlífsins og hjálpi fólki að horfast í augu við sjálfan sig og lífið.

Við vonum að þið njótið góðs af Postulíninu okkar, við höfum skemmt okkur konunglega og velst um af hlátri þrátt fyrir átakanleg augnablik við og við.

Framundan er kynningarstarfsemi, upplestrar og áritanir og verðum við eins öflugar og við mögulega getum við að auglýsa það hér á blogginu.

Eigið yndislega helgi,

Fyrir hönd okkar beggja,

- Freyja


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband