Hugleyðing

Ég var búin að setja það mér sem markmið að blogga ekkert, að minnsta kosti sem allra minnst um þessa kreppu. Nú er mér þó ofboðið. Nánast öll umræða fólks á milli snýst um hana; á kaffihúsum, í afmælisboðum, í útvarpinu, blöðunum og sjónvarpinu. Líklega einnig á kaffistofum vinnustaða.

Flest umræða er neikvæð enda kannski ekkert skrítið, við smitumst af öðrum. Margir eiga um sárt að binda vegna fátæktar sem hefur versnað og var slæm fyrir, vinnu- og launataps, brjálaðra lánagreiðslna, skerðingar á lífsnauðsynlegri þjónustu til að geta lifað eðlilegu lífi o.fl.. Ástandið snertir alla í þjóðfélaginu, mismikið og alvarlega, en öll finnum við fyrir breytingum.

Ég er búin að reyna að sniðganga þessa umræðu eins og ég kemst upp með. Ég les ekki blöðin, ég horfi ekki á fréttir og legg mig alla fram við að eyða umræðunni um leið og hún fæðist. Nú hugsa flestir að viðhorf mitt sé á þennan hátt vegna þess að ég sleppi svo vel undan kreppunni.

Ég á góða vinkonu sem þarf að hafa sig alla við að halda lífinu gangandi fyrir sig og börnin sín vegna fjárhagserfiðleika, oft búin að þurfa að kyngja stoltinu og breyta aðstæðum til að allt gangi upp. Hún kvartar manna minnst undan kreppunni af öllum sem ég þekki.

Forsenda þess að ég lifi því lífi sem ég geri, geti stundað nám og vinnu, átt félagslíf og áhugamál, farið á fætur á morgnanna og að sofa á kvöldin, klætt mig, farið í sturtu og á salernið, sett mér markmið og náð þeim er sú aðstoð sem ég fæ frá þeim fimm konum (afsakið, stelpum) sem vinna hjá mér. Sú þjónusta kostar fjármagn og býr innra með mér mikill kvíði um skerðingu á henni, eða þjónustu við annað fatlað fólk. Auðvitað látum við það ekki viðgangast - það hefur enginn rétt til að skerða slíkan grundvallarrétt til sómasamlegs lífs.

Í kringum mig er fólk sem á erfitt uppdráttar með fyrirtækin sín, heldur í vonina um að það sleppi.

Grunnskóli yngsta bróðir míns gaf það upp í fréttunum fyrir stuttu að það ætti að skerða kennsluna og skólastarfið.

Auðvitað snertir þetta ástand mig eins og alla aðra, og af miklu fleiri ástæðum en ég tel upp hér.

Í gærmorgun vaknaði ég við þessa setningu frá konu sem var heima ,,Það er ekki orðið búandi á þessu landi hérna, allt að hækka upp úr öllu valdi, bensínið hækkaði um 8 krónur í morgun." Mér langaði til að snúa hausnum í hina áttina og halda áfram að sofa. Kvöldið áður braut ég regluna mína um afneitun fjölmiðla og horfði á fréttirnar, fyrstu fimm fréttirnar fjölluðu um kreppuna. Mér var endanlega misboðið.

Höfum við ekkert annað að tala um? Höldum við virkilega að þetta sé það versta sem geti komið fyrir okkur? Ætli atvinnulausu fólki líði eitthvað betur að vera minnt á aðstöðu sína hvert sem það fer? Ætli fólk sem býr við fátækt eigi auðveldara með að vonast eftir betra lífi þegar það flettir blöðunum og horfir á fréttirnar? Erum við búin að gleyma því að á síðustu tveimur mánuðum hafa látist tvö lítil börn á þessu landi? Ætli fjölskyldur þeirra hafi pláss til að syrgja fjárhag þjóðarinnar, þegar þær eru að syrgja börnin sín, það dýrmætasta og mikilvægasta sem þær áttu? Líklega ekki. Það er hægt að missa meira en peninga.

Ég er svo ótrúlega heppin að vinna með fólki sem hefur breytt áhyggjum í athafnasemi og enn meiri metnað til að láta verkin tala. Fólki sem trúir því að kreppan sé tækifæri til skapa pláss fyrir breytingar til hins betra.

Við höfum að mínu mati fulla ástæðu til að vera sár og hrædd. Við höfum líka ástæðu til að vera reið út í fólk sem við héldum að við gætum treyst fyrir samfélaginu og okkur sjálf fyrir að hafa treyst þeim, amk. samþykkt, með þögninni, gjörðir þeirra. En fyrst og fremst höfum við fulla ástæðu til að horfast í augu við staðreyndir, láta þær ekki stjórna lífi okkar algjörlega og leiða hugan að því sem við getum breytt. Með allri þessari neikvæðni erum við í raun að gera lítið úr okkur sjálfum nema við notum hana til góðs. Ég er ekki að segja að við eigum að láta bjóða okkur hvað  sem er, auðvitað  látum við í okkur heyra og höfum þannig áhrif. Ég er heldur ekki að rengja fjölmiðla fyrir að upplýsa okkur um stöðu mála, þeir sem fagmenn á þessu sviði mættu hins vegar setja sér skýrari mörk og meðhöndla fréttaflutninginn í takt við líðan fólks.

Kreppan fer ekkert því neikvæðari sem við verðum, þvert á móti. Við höfum fulla burði til að vernda fólkið í samfélaginu, halda okkar striki og skapa nýjungar sem stuðla að breytingum til hins betra. Það tekst þó bara með jákvæðum og opnum hugsunarhætti - og enginn stjórnar honum nema við sjálf.

Change has a considerable psychological impact on the human mind. To the fearful it is threatening because it means that things may get worse. To the hopeful it is encouraging because things may get better. To the confident it is inspiring because the challenge exists to make things better. - King Whitney Jr.

 

- Freyja


Athugasemdir

1 Smámynd: Sólveig Klara Káradóttir

Mikill sannleikur í þessum orðum þínum Freyja eins og svo oft áður. Sem betur fer eru líka sýndar jákvæðar fréttir í sjónvarpinu og varpað ljósi á þau fyrirtæki sem eru að standa sig vel í landinu.  Fólk er mikið að tileinka sér ný gildi í lílfinu og er það vel.  Sköpunargáfan er sjaldan meiri en nú og margir að upphugsa nýjar leiðir til að nota hæfileika sína og þekkingu. Stundum þarf að hrista duglega upp í hlutunum til að opna rými fyrir það nýja. Verum bjartsýn og nýtum mannauðinn og öll tækifærin sem landið okkar býður uppá.

Takk fyrir að vera til og vera ætíð "þú sjálf" 

Kær aðventukveðja, Klara

Sólveig Klara Káradóttir, 13.12.2008 kl. 22:40

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sæl Freyja

Ég hef ekki bloggað við þig áður, en mig langar að taka undir það sem þú ert að segja hér að ofan. Ég hef reyndar ekki tekið sama pól í hæðina og þú, ég drekk í mig allt sem sagt er, hlusta á fréttir, skoða blogg og fylgist  með á netinu. Neikvæðnin er gríðarleg og svartsýnin sömuleiðis. Það sem mér finnst verst er sú tilhneiging að dæma fólk út og suður eftir lögmálum götunnar eða frumskógarins.  

Mér finnst að við séum að lifa nýtt upphaf og þá verður að henda mörgu gömlu sem er orðið ónothæft. Þá er ég að tala um viðskiptahætti, hugsunarhátt, viðhorf og þar farm eftir götunum. Ég trúi því að nú séu góðir tímar framundan og þá er ég að tala um aðeins lengra fram í tímann, en næstu mánuðir verði miklir umrótatímar með nýjum ákvörðunum sem verður að taka.

Í heildina er þetta er þetta tímamót og þau geta verið erfið á meðan á þeim stendur. Ég fékk heilablæðinu fyrir 11 árum og þurfti í framhaldinu að gera breytingar á lífi mínu. Veikindin voru erfið og ákvarðanir í kjölfar þeirra. En líf mitt breyttist svo mikið til hins betra.

Ég held öllu sem máli skiptir, viti, máli, , get gengið, keyrt bíl og margs konar snilli sem almættið færði mér. Það eina sem fór var orka til að vinna erfiðisvinnu, var bar búin með þann kvóta.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 14.12.2008 kl. 00:29

3 Smámynd: Idda Odds

Þetta er allt spurning um hvað merkingu við leggjum í orðið neikvæðni. Ef þú telur gagnrýna hugsun neikvæðni þá hvet ég alla þegna þessa lands til að vera neikvæða. Það er vinur sem til vams segir. Viðhlæendur verða það seint.

Idda

Idda Odds, 14.12.2008 kl. 01:15

4 identicon

Hæ sæta..

  gott blogg hjá þér skvísa..

Knús

Eva- bekkjarfélagi (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 12:51

5 identicon

Takk fyrir þetta :)

Neikvæðni og gagnrýni er ekki það sama.

Að mínu mati er gagnrýni það sem liggur í orðinu, að rýna í allt milli himins og jarðar til gagns. Neikvæðni að allt annar handleggur, eitthvað sem við festum okkur oft í (mannlegt) en gagnast ekki neitt. 

Það er í raun það sem ég er að reyna að segja, að nota allan tilfinningaskalan til að rýna til gagns og þannig breyta hlutum til hins betra. 

Mér fannst þetta með heilablóðfallið ótrúlega góð samlýking og hef gengið í gegnum nokkur sambærileg tímabil í lífinu. Erfitt á meðan er, en lífið miklu betra í kjölfarið.

Njótið aðventunnar!

Freyja Haraldsdóttir (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 12:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband