Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
Gleðilegt nýtt ár!!!!
31.12.2007 | 14:05
Kæru vinir, bloggvinir, lesendur og aðrir snillingar
Við óskum ykkur gleðilegs nýs árs, þökkum blogg-fylgdina á árinu, hvatninguna og allar fallegu kveðjurnar sem hafa þrýst okkur áfram og hjálpað okkur að hafa trú á allri vinnunni okkar.
Með hjartans kveðjum,
Alma og Freyja
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Með ósk...
22.12.2007 | 19:51
... til ykkar um gleðileg jól og farsæld á komandi ári. Takk fyrir að hvetja okkur áfram, samgleðjast og taka þátt í að við náðum settu markmiði - að gefa út bókina Postulín.
Munum um hvað jólin snúast....
Kærleikskveðja,
Freyja og Alma
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Að springa úr þakklæti
21.12.2007 | 02:08
Akkúrat í þessum skrifuðu orðum ætti ég að vera sofandi en þar sem ég skellti mér á kaffihús nú síðla kvölds og fékk mér kaffi latte, á ég mér líklega ekki viðreisnarvon í svefni næsta klukkutímann, jafnvel tvo. Nú er ég loksins búin í prófum og ég og Alma komnar í "frí" frá bókastússi í bili, þ.e.a.s. frá upplestrum og áritunum. Hugurinn er þó auðvitað alltaf við ,,afkvæmið" okkar, ósjálfrátt.
Það er ótrúlegt að hugsa til þess að jólin séu að mæta. Þó svo að við Alma séum búnar að upplifa jólin alls staðar hef ég ekki alveg áttað mig á því og var í gær eins og tjúlluð manneskja um allar (tvær) verslunarmiðstöðvar höfuðborgarsvæðisins að leita uppi jólagjafir. Ég fann hvernig ég stressaðist öll upp í þessum látum en reyndi að hafa hemil á mér enda nýkomin úr jólahugvekju hjá Sr. Bjarna Karlssyni, en hann var með hana á sama stað og ég var að lesa upp úr Postulín í gær. Að vanda fangaði hann athygli viðstaddra og talaði um svo margt sem er nauðsynlegt að hugsa um í þessum ljóshraða samfélagsins. Hann minnti á að boðskapur kristinnar trúar um jólin væri að hver og einn mætti vera eins og hann er, sáttur í eigin líkami. Ég get ekki útskýrt þetta eins og hann svo ég skil ykkur bara eftir með þá staðreynd.
Hann talaði töluvert út frá bókinni okkar Ölmu (sem var ánægjulegt), að við værum öll fötluð og öll með heilsu. Að við dyttum ofan í þá gryfju að halda að veruleikinn væri ,,Ég og Hinir" sem er auðvitað mesti misskilningur. Að við værum öll ófullkomin (þess vegna erum við líklega öll svona sérstök), að við ættum að hlusta meira hvort á annað því öll höfum við frá svo merkilegu að segja - því við erum svo merkileg. Út frá þeim punkti fór hann að fjalla um umræðuna um kristinfræði í skólum. Þar kom önnur staðreynd, það er algjör óþarfi að fleygja henni út, hins vegar er bráðnauðsynlegt að auka þekkingu á öðrum trúarbrögðum meðal allra barna, kenna þeim að virða ólíkar áttir manneskjunnar. Önnur trúarbrögð hafa ekki minna vægi en kristni, einfaldlega annarskonar boðskap og aðrar áherslur - mér fannst gott að heyra prest segja þetta, þó það hljómi kannski furðulega.
Ég gæti haldið endalaust áfram en hugsa að ég sleppi því. Ég fór út með höfuðið troðfullt af hugsunum og hjartað af tilfinningum sem ég finn of sjaldan fyrir. Ég held að þessi stund hafi haldið mér frá hápunkti á jóla-raunveruleikafirringunni, sem betur fer. Jólin koma hvort sem að ég verð búin senda pakka erlendis eða ekki, eða fara með jólakort í póst.
En af hverju er ég að springa úr þakklæti?
Ég fékk fyrstu jólagjöfina mína í kvöld, líklega eina af þeim bestu. Tónleika til styrktar fyrirlestrum mínum og til heiðurs mínu starfi. Gospelkór Jón Vídalíns hélt semsagt þessa tónleika í FG, glæsilegur hópur af ungu upprennandi söngsnillingum sem komu með jólin til mín. Ekki má gleyma tónlistarfólkinu, Garðasókn og FG sem tók mikinn þátt í tónleikunum. Fólk spyr mig reglulega hvernig ég get staðið í baráttunni upp á hvern einasta dag, yfirstigið hindranir og tekist að afreka það sem ég hef gert. Ég skil ekki af hverju það sér það ekki, það er akkúrat með hjálp kvölda eins og í kvöld. Þar sem að ég finn að það er tekið eftir því jákvæða í lífinu og því sem vel er gert. Þar sem að ég fæ hvatningu og innblástur. Takk fyrir það.
Viðurkenningar síðustu vikna, kvöldið í kvöld, kveðjurnar frá Pétri og Páli, ykkur og hvatning minna nánustu fyllir mig þeim eldmóði sem ég þarf á að halda - sem allir þurfa á að halda til að ná markmiðum sínum. Það eru hins vegar ekki allir svo lánsamir að fá hvatningu og hrós, sumir reyna og reyna en enginn sér það, minnist á afrakstur þeirra og sigra. Sumir gefast því upp, hætta. Orkan hverfur og fólk stendur á tómu batteríi.
En ég er ein af þessum lánsömu, þess vegna er ég að springa úr þakklæti.
Með hjartans kveðju,
Freyja
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Tónleikar til styrktar fyrirlestrunum
18.12.2007 | 00:04
Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja!
Gospelkór FG og Garðasóknar eru semsé með tónleika til styrktar fræðslunni minni Það eru forréttindi að lifa með fötlun. Ég hlakka ótrúlega til að fara og er auðvitað yfir mig þakklát fyrir fallega hugsun á bakvið tónleikana. Þetta á án alls efa eftir að gefa mér tækifæri til að þróa fræðsluna enn frekar.
Kærleikskveðja,
Freyja
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Dagurinn í gær, súkkulaði og kossaflens :o)
16.12.2007 | 16:22
Þar sem ég er búin að óverdósa á sálfræðilestri í bili ákvað ég að henda hér inn nokkrum línum. Dagurinn í gær gekk vel, við byrjuðum á því að vera með upplestur hjá Friðarsamtökum kvenna og fórum svo í áritun í Eymundsson í Kringlunni. Í millitíðinni stoppuðum við reyndar í búðinni Súkkulaði og rósir til að afhenta Eddu Heiðrúnu Backman bókina Postulín fyrir hjálpina og hvatninguna. Búðin sem hún hefur nýstofnað er æðisleg, ótrúlega heillandi, engu er ofaukið og þær vörur sem í boði eru virðast vera mjög vandaðar. Við fengum náttúrlega ekki að fara út nema með súkkulaði sem var auðvitað of gott á bragðið, en ekki hvað? Hún gaf mér einnig kerti sem ég tými ekki enn að kveikja á, það er svo fallegt. Mæli með að þið skellið ykkur til hennar, skemmtileg stemning.
Yfir í allt annað. Það var alveg stappað í Kringlunni í gær og ef staldrað var við sá maður litróf mannlífsins í sinni viðtækustu mynd þarna - sem er mjög gott. Mér blöskraði hins vegar hrikalega, þegar ég var að koma inn stóðu, tvær konur fyrir utan að reykja með þriggja ára skottu dansandi í kringum sig andandi að sér þeirri mengun sem því fylgdi. Svona serka sekúndubroti síðar kom út maður með ungbarn í bílstól í annarri og uþb. að kveikja sér í sígarettu með hinni. Hvað er að gerast hérna? Auðvitað er þetta frjálst land og reyki þeir sem vilja, en er nú ekki óþarfi að reykja ofan í hálsmálið á ungum börnum sem hafa hvorki val né tækifæri til að komast undan þessum óþverra? Mér varð illt í hjartanu á að sjá þetta.
Svo er annað. Mikið af fólki sem ég þekki mismikið er að koma upp að mér og óska mér til hamingju með árangurinn. Mér þykir mjög vænt um það og finnst frábært að fólk skuli hrósa öðrum, reyni að gera það sjálf. Á hinn bóginn finnst mér mjög sérstakt hvað ákveðnar týpur hafa mikla snertiþörf. Ég var í Hagkaup í gær og þá kom kona aðvífandi og sagði eitthvað mjög fallegt, kyssti mig, strauk mér um andlitið og hárið og svona "mússímússí-aði" framan í mig. Ég þekkti þessa konu ekki neitt!!! Ekki misskilja mig, líklega mjög góð hugsun á bakvið þetta en ég er ekki níu mánaða. Svo efast ég líka um að þegar Dorrit var valin kona ársins í fyrra, að einhver hafi kysst hana og klappað eins og litlu barni. Never gonna happen!!
Þetta er ekkert í fyrsta skiptið sem eitthvað svona á sér stað og ég fæ hlaupasting úr hlátri eftir hvert skipti - en ég er náttúrlega fullorðin manneskja! ... og svo langar mig ekkert að kyssa hvern sem er.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Nú fer hver að verða síðastur... (Áritun)
14.12.2007 | 19:58
.. Því það er að öllum líkindum lokaáritun hjá okkur Ölmu fyrir jólin. Við verðum í Pennanum Kringlunni kl. 16:00 á morgun í rúma klukkustund. Við höfum fengið töluverðar fyrirspurnir hvað þetta varðar svo við hvetjum ykkur til að kíkja á okkur á morgun. Vonandi sjáum við ykkur sem flest!
Við fengum frábæra umfjöllun á laugardaginn sl. á Rás 2 um Postulín og fyrir þá sem hafa áhuga, er hægt að hlusta hér. Þátturinn er töluvert langur og gagnrýnin á Postulín var í seinni hlutanum.
Sjáumst á morgun!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hjartans þakkir
14.12.2007 | 01:50
Ég er nú engin sérlega mikil væluskjóða en verð að viðurkenna að ég verð meir á að skoða allar þessar fallegu kveðjur, lesa skemmtileg mail og sms sem ég hef fengið undanfarinn sólarhring vegna viðurkenningarinnar Kona ársins 2007 hjá Nýju Lífi. Mig langar að deila með ykkur erindinu sem ég hélt í gær í tilefni dagsins;
Ég vil byrja á að þakka innilega fyrir mig, það er mikill heiður að taka á móti viðurkenningu sem þessari. Það er alltaf ánægjulegt að fá góða hvatningu sem veitir mér innblástur til að halda áfram á þeim vegi sem ég er á og orku til að yfirstíga þær samfélagslegu hindranir sem mér eru settar, nánast daglega. Dagur sem þessi minnir mig á að ferðalagið að markmiðum mínum um breytta ímynd og samfélag án aðgreiningar er hverrar mínútu virði.
Það eru einnig skilaboðin sem felast í viðurkenningunni sem eru mér mikilvæg. Fyrir nokkrum árum var ég mjög ósátt við mitt hlutskipti, sjálfan mig, líkama minn og efaðist stundum um þá staðreynd að ég væri kona. Skilaboðin frá umhverfinu rugluðu mig í rýminu og ýttu undir fordóma í eigin garð. Ég hef alltaf staðið föst á þeirri skoðun að lífið leiði fólk á rétta braut á ólíklegustu stundum, jafnvel án þess að það taki eftir því. Þannig var það í mínu tilviki því ég horfi allt öðrum augum á sjálfan mig og aðra í minni stöðu í dag. Þau skilaboð sem felast í að vera kona ársins minna mig á að horfa réttum augum á sjálfan mig og er frekari staðfesting á að efasemdir mínar um mig sem konu eru óþarfar. Ég býst við að þau sömu skilaboð skili sér út í þjóðfélagið og eigi þátt í að breyta ímynd fatlaðra kvenna - takk fyrir það.
Ég ætla ekki að hafa þetta lengra hér í kvöld en vil þakka enn og aftur fyrir mig, hvatningin er ómetanleg.
Kveðjur ykkar og hvatning eru einnig ómetanlegar. Takk fyrir mig!!!
- Freyja
E.S. Það má sjá viðtal við mig í nýjasta tímariti Nýs Lífs
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
KONA ÁRSINS!!!
12.12.2007 | 20:49
Hérna er fréttatilkynning sem var að birtast inn á mbl.is
Tímaritið Nýtt líf hefur valið Freyju Haraldsdóttur konu ársins 2007 og var henni afhent viðurkenningin í hófi sem nú stendur yfir. Tímaritið heldur jafnframt upp á 30 ára afmæli sitt.
Nýtt líf segir í rökstuðningi fyrir valinu á konu ársins, að Freyja sé kona með ríka réttlætiskennd, sem hafi helgað líf sitt því að breyta viðhorfum til fólks með fötlun og stuðla að því að samfélagið geri ráð fyrir öllum. Fyrst og fremst sé hún þakklát fyrir lífið og ákveðin í að njóta þess til hins ýtrasta.
Afmælisblað Nýs lífs kemur út á morgun.
Ég vil náttúrulega fyrst og fremst byrja á því að segja til hamingju elsku Freyja með titilinn! Þvílíkt afrek!! :-D Ég er að sjálfsögðu óendanlega stolt af þér og finnst enginn að vera eins vel að þessu komin eins og þú! :)
30 afmæli Nýs Lífs ásamt tilnefningu Konu ársins var haldin á Hótel Borg fyrr í kvöld. Helga Braga var veislustjóri, Kjartan Valdimarsson spilaðu á píanó, við Nylon stöllur sungum. Freyja fór svo að sjálfsögðu í ótal myndatökur og viðtöl en margir hafa eflaust séð hana í Íslandi í dag. :)
Við Freyja höfum annars verið mikið á ferðinni síðustu daga. Skruppum til Akureyrar þar sem við vorum meðal annars með upplestur á Amtbókasafninu. Á leiðinni heim stoppuðum við svo í Kjósinni þar sem við lásum upp fyrir kvenfélagskonur, sötruðum jólaglögg og borðuðum dýrindis jólamat!
Á morgun munum við svo vera með upplestur í Hlíðarskóla og síðar um daginn í Félagsmálaráðuneytinu.
Við þökkum góðar viðtökur á bókinni okkar Postulín, allar undirtektirnar hérna á blogginu og vonum að þið haldið áfram að fylgjast með!
Enn og aftur ...TIL HAMINGJU FREYJA!!!! :)
Með kærri kveðju,
Alma
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
Framundan
6.12.2007 | 22:39
Eins og okkar er von og vísa er margt framundan en á morgun munum við selja og árita bækur fyrir starfsfólk Sjónarhóls og Æfingarstöðvarinnar. Seinnipartinn er svo förinni heitið á Selfoss þar sem við munum árita í Pennanum.
Á laugardaginn ætlum við að selja Postulín á jólamarkaði í Kjós frá 13:00-15:00 og förum svo beint þaðan í upplestur hjá Landsbankanum. Á sunnudaginn förum við einnig í Landsbankann og svo er það bara Akureyri city.
Þar munum við dvelja fram á þriðjudag, vera með upplestur á bókasafninu á mánudagskvöldið og árita fyrr um daginn í Bókval, nánar tiltekið kl. 16:00. Á þriðjudaginn verðum við með upplestur fyrir starfsmenn Bæjarskrifstofunnar þar og bruna svo suður aftur í upplestur í Kjós.
Eins og liggur í augum uppi passa ég ekki inn í innanlands flugvélar sökum mikillar fyrirverðar og munum við því keyra norður. Ég bið ykkur því að leggjast á bæn og biðja veðurguðina að haga sér eins og herramenn *hóst* .... við vitum það, það er desember.
Takk annars fyrir fallegar kveðjur.
Alma og Freyja
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Að trúa á lífið
4.12.2007 | 11:21
Ég hef oft verið spurð að því hvort ég sé trúuð, sem ég er alveg, en ég trúi fyrst og fremst á lífið sjálft. Það hefur alltaf verið þannig fyrir mig að þegar ég sekk ofan í eigin vonleysi, fæ hræðslutilfinningu yfir komandi framtíð eða efast um sjálfan mig er alltaf eitthvað sem á sér stað og slær mér aftur til meðvitundar, minnir mig á að trúa á það góða í lífinu.
Í bókaútgáfu-ferðalaginu hef ég tekið mínar dívur og ein þeirra var núna síðustu daga. ,,Er ég að ganga of langt?" ,,Mun þetta hafa nokkuð að segja?" en svo þegar óþægindatilfinningin er alveg að gera út af við mig kemur jákvætt augnablik og góður dagur eins og í gær.
Í gær var ég með upplestur fyrir 10. bekkinga úr nokkrum skólum í Aðalbókasafni, Gerðubergi og Borgarleikhúsinu sem var mjög ánægjulegt. Nemendur hlustuðu af athygli og virðingu sem ég hef svosem oft upplifað í fyrirlestrum hjá ungu fólki eins og þeim. Fullorðna fólkið verður alltaf jafn undrandi yfir því - við vanmetum augljóslega ungt fólk sem hefur enn margt barnslegt í sér en er um leið svo miklu þroskaðra en okkur grunar.
Að þeim upplestrum loknum fór ég á Grand Hótel með upplestur þar sem Þroskahjálp var að veita hinn árlega Múrbrjót sem er hvatning fyrir að ryðja braut fólks með þroskahömlun. Kennaraháskólinn(Skólinn minn by the way ) hlaut Múrbrjótinn að þessu sinni fyrir nýhafið Diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun. Ekki eru til margar fyrirmyndir af slíku í heiminum og er þetta því mikið fagnaðarefni og brautryðjandastarf. Ég er ótrúlega stolt af skólanum fyrir að taka svo stórt skref í átt að einu samfélagi fyrir alla.
Þegar framhaldsskólagöngu líkur eru möguleikar þeirra sem teljast þroskahamlaðir ekki margir, hvorki á atvinnumarkaðnum né á menntaveginum. Þó Diplóma-námið sé tilraunaverkefni eins og er, trúi ég ekki öðru en að það festist í sessi, eflist og verði viðurkennt sem viðurkenndari gráða í framtíðinni. Ég vona að aðrir háskólar taki sér þetta til fyrirmyndar, því þetta eykur tækifæri og bjartari framtíð fyrir nemendur með þroskahömlun. Námið brýtur múra fyrir nemendurna út í atvinnulífið, frekari menntun og samfélagið sem þarf á þeim að halda eins öllum öðrum borgurum í landinu.
Beint eftir þennan glæsilega atburð fór ég á athöfn Hvatningaverðlauna Öryrkjabandalags Íslands en þar var ég tilnefnd í flokki einstaklinga. Eins og vanalega var ég alveg græn og vissi ekki mitt rjúkandi ráð þegar ég var útnefnd sem handhafi verðlaunanna í þeim flokki í beinni útsendingu í fréttunum af Ólafi Ragnari Grímssyni.
Eins og áður verð ég orðlaus við svona viðurkenningu. Þetta er að sjálfsögðu mikill heiður, hvatning og innblástur til að hætta að efast um eigin verkefni og halda áfram á sama göngustígnum (hinum endalausa, svo líklega er ekki hægt að ganga of langt) í átt að einu samfélagi fyrir alla. Á þessari stundu var eins og togað væri í hnakkadrambið á mér og sagt; trúðu á lífið.
Takk fyrir mig.
Kv. Freyja
E.S. Viðtal við okkur Ölmu í Sviðsljósinu hjá Ellý má sjá hér og einnig var útvarpsviðtal í morgun á Rás 1 við verðlaunahafa vegna Hvatningarverðlaunanna og má hlusta hér.
Ég með verðlaunagripinn. Hann sést kannski ekki mjög vel en glæru og appelsínugulu hringirnir tákna samfélagið, þ.e.a.s. pússlin (fólkið) sem skapa pússluspilið (samfélagið). Fólk með fötlun er oft pússlið sem ekki passar vegna stöðu sinnar en stálkubburinn erum við verðlaunahafarnir sem tengjum pússlin sem ,,ekki passa" við þau ,,hefðbundnu" og sköpum þannig eitt samfélag fyrir alla.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)