Að trúa á lífið

Ég hef oft verið spurð að því hvort ég sé trúuð, sem ég er alveg, en ég trúi fyrst og fremst á lífið sjálft. Það hefur alltaf verið þannig fyrir mig að þegar ég sekk ofan í eigin vonleysi, fæ hræðslutilfinningu yfir komandi framtíð eða efast um sjálfan mig er alltaf eitthvað sem á sér stað og slær mér aftur til meðvitundar, minnir mig á að trúa á það góða í lífinu.

Í bókaútgáfu-ferðalaginu hef ég tekið mínar dívur og ein þeirra var núna síðustu daga. ,,Er ég að ganga of langt?" ,,Mun þetta hafa nokkuð að segja?" en svo þegar óþægindatilfinningin er alveg að gera út af við mig kemur jákvætt augnablik og góður dagur eins og í gær.

Í gær var ég með upplestur fyrir 10. bekkinga úr nokkrum skólum í Aðalbókasafni, Gerðubergi og Borgarleikhúsinu sem var mjög ánægjulegt. Nemendur hlustuðu af athygli og virðingu sem ég hef svosem oft upplifað í fyrirlestrum hjá ungu fólki eins og þeim. Fullorðna fólkið verður alltaf jafn undrandi yfir því - við vanmetum augljóslega ungt fólk sem hefur enn margt barnslegt í sér en er um leið svo miklu þroskaðra en okkur grunar.

Að þeim upplestrum loknum fór ég á Grand Hótel með upplestur þar sem Þroskahjálp var að veita hinn árlega Múrbrjót sem er hvatning fyrir að ryðja braut fólks með þroskahömlun. Kennaraháskólinn(Skólinn minn by the way Wink ) hlaut Múrbrjótinn að þessu sinni fyrir nýhafið Diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun. Ekki eru til margar fyrirmyndir af slíku í heiminum og er þetta því mikið fagnaðarefni og brautryðjandastarf. Ég er ótrúlega stolt af skólanum fyrir að taka svo stórt skref í átt að einu samfélagi fyrir alla.

Þegar framhaldsskólagöngu líkur eru möguleikar þeirra sem teljast þroskahamlaðir ekki margir, hvorki á atvinnumarkaðnum né á menntaveginum. Þó Diplóma-námið sé tilraunaverkefni eins og er, trúi ég ekki öðru en að það festist í sessi, eflist og verði viðurkennt sem viðurkenndari gráða í framtíðinni. Ég vona að aðrir háskólar taki sér þetta til fyrirmyndar, því þetta eykur tækifæri og bjartari framtíð fyrir nemendur með þroskahömlun. Námið brýtur múra fyrir nemendurna út í atvinnulífið, frekari menntun og samfélagið sem þarf á þeim að halda eins öllum öðrum borgurum í landinu.

Beint eftir þennan glæsilega atburð fór ég á athöfn Hvatningaverðlauna Öryrkjabandalags Íslands en þar var ég tilnefnd í flokki einstaklinga. Eins og vanalega var ég alveg græn og vissi ekki mitt rjúkandi ráð þegar ég var útnefnd sem handhafi verðlaunanna í þeim flokki í beinni útsendingu í fréttunum af Ólafi Ragnari Grímssyni.

Eins og áður verð ég orðlaus við svona viðurkenningu. Þetta er að sjálfsögðu mikill heiður, hvatning og innblástur til að hætta að efast um eigin verkefni og halda áfram á sama göngustígnum (hinum endalausa, svo líklega er ekki hægt að ganga of langt) í átt að einu samfélagi fyrir alla. Á þessari stundu var eins og togað væri í hnakkadrambið á mér og sagt; trúðu á lífið.

Takk fyrir mig.

Kv. Freyja

E.S. Viðtal við okkur Ölmu í Sviðsljósinu hjá Ellý má sjá hér og einnig var útvarpsviðtal í morgun á Rás 1 við verðlaunahafa vegna Hvatningarverðlaunanna og má hlusta hér.

OV8X9932

Ég með verðlaunagripinn. Hann sést kannski ekki mjög vel en glæru og appelsínugulu hringirnir tákna samfélagið, þ.e.a.s. pússlin (fólkið) sem skapa pússluspilið (samfélagið). Fólk með fötlun er oft pússlið sem ekki passar vegna stöðu sinnar en stálkubburinn erum við verðlaunahafarnir sem tengjum pússlin sem ,,ekki passa" við þau ,,hefðbundnu" og sköpum þannig eitt samfélag fyrir alla.

 


Athugasemdir

1 identicon

Sæl og Blessuð.

 Til innilegar hamingjuóskir með verðlaunin þú átt þau svo sannarlega skilið. Ég er búinn með um 1/3 af bókinni og gæti ekki verið ánægðri með hana.

Hlakka til að hitta þig

kveðja Karl Guðmundsson

Kalli (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 18:39

2 identicon

hæ frænka

Innilegar hamingjuóskir með bara allt. Þú ert svo ótrúlega góð fyrirmynd Freyja og ég get ekki lýst því hvað ég sé stolt af því að þú sért frænka mín og ég hef alltaf verið það.. var einmitt að rifja upp um daginn eina sögu.. ég man ekki hvað ég var gömul en ég þetta var á þeim tíma sem þú áttir heima útí nýja sjálandi
Þannig var mál með vexti að ég var í eitthverju móðursýkiskasti (einu af þeim) og gat ekki sofnað.. Fór inní herbergi til mömmu og pabba og rak pabba inní mitt rúmm (honum fannst það samt alltaf svo gaman að sofa í mínu rúmmi) og fór og lagst uppí pabba pláss í hjónarúmminu.. og sagði við mömmu að ég vildi að þú kæmir heim og að ég saknaði þín svo mikið að ég bara vildi ekki sofna útaf þá myndi mig kannski dreyma um þig og þá myndi ég sakna þín ennþá meira.. hehe fyndið svona.. ég man svo vel eftir þessu :)
Þú hefur alltaf verið fyrirmyndin mín og það er svo gaman að sjá hvað þú hefur gert og ert að gera gott

en já ég var einmitt að kaupa bókina í dag.. ætla samt ekki að byrja að lesa hana fyrr en eftir prófin svo að ég klúðri þeim nú ekki
Svo er bara stutt í að ég mæti á svæðið.. ég er svo spennt en samt líka svo kvíðin.. Þetta verður æðislegt bara.. fæ að knúsast með Eiríki á hverjum degi.. múhaha

EN jæja ætlaði bara að hoppa í smá innlit.. Sjáumst um jólin.. Koss og knús til alle famelien 

Gunna litla frænka (IP-tala skráð) 4.12.2007 kl. 20:39

3 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Til hamingju með verðlaunin.

Rúna Guðfinnsdóttir, 4.12.2007 kl. 21:29

4 identicon

Elsku Freyja mín,

En og aftur innilega til hamingju með þessi stórglæsilegu verðlaun, þú ert fyrirmynd okkar allra í landinu.

Kv. Heiða

Heiða Björk (IP-tala skráð) 5.12.2007 kl. 01:01

5 identicon

Til hamingju Freyja mín! Spurning hvort að þú þurfir ekki að fara að stækka herbergið til þess að koma öllum þessum verðlaunum fyrir ;) Hafðu það gott, Huld.

Huld Hafsteinsdóttir (IP-tala skráð) 5.12.2007 kl. 15:25

6 identicon

Innilega til hamingju með verðlaunin, átt þau fyllilega skilið!;)

Jóhanna Ingadóttir (IP-tala skráð) 7.12.2007 kl. 08:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband