Hjartans þakkir

Ég er nú engin sérlega mikil væluskjóða en verð að viðurkenna að ég verð meir á að skoða allar þessar fallegu kveðjur, lesa skemmtileg mail og sms sem ég hef fengið undanfarinn sólarhring vegna viðurkenningarinnar Kona ársins 2007 hjá Nýju Lífi. Mig langar að deila með ykkur erindinu sem ég hélt í gær í tilefni dagsins;

Ég vil byrja á að þakka innilega fyrir mig, það er mikill heiður að taka á móti viðurkenningu sem þessari. Það er alltaf ánægjulegt að fá góða hvatningu sem veitir mér innblástur til að halda áfram á þeim vegi sem ég er á og orku til að yfirstíga þær samfélagslegu hindranir sem mér eru settar, nánast daglega. Dagur sem þessi minnir mig á að ferðalagið að markmiðum mínum um breytta ímynd og samfélag án aðgreiningar er hverrar mínútu virði.

Það eru einnig skilaboðin sem felast í viðurkenningunni sem eru mér mikilvæg. Fyrir nokkrum árum var ég mjög ósátt við mitt hlutskipti, sjálfan mig, líkama minn og efaðist stundum um þá staðreynd að ég væri kona. Skilaboðin frá umhverfinu rugluðu mig í rýminu og ýttu undir fordóma í eigin garð.  Ég hef alltaf staðið föst á þeirri skoðun að lífið leiði fólk á rétta braut á ólíklegustu stundum, jafnvel án þess að það taki eftir því. Þannig var það í mínu tilviki því ég horfi allt öðrum augum á sjálfan mig og aðra í minni stöðu í dag. Þau skilaboð sem felast í að vera kona ársins minna mig á að horfa réttum augum á sjálfan mig og er frekari staðfesting á að efasemdir mínar um mig sem konu eru óþarfar. Ég býst við að þau sömu skilaboð skili sér út í þjóðfélagið og eigi þátt í að breyta ímynd fatlaðra kvenna - takk fyrir það.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra hér í kvöld en vil þakka enn og aftur fyrir mig, hvatningin er ómetanleg.

Kveðjur ykkar og hvatning eru einnig ómetanlegar. Takk fyrir mig!!!

- Freyja

nl0712

E.S. Það má sjá viðtal við mig í nýjasta tímariti Nýs Lífs


Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Þú áttir þetta sannarlega skilið

Hólmdís Hjartardóttir, 14.12.2007 kl. 01:57

2 Smámynd: Áslaug Ósk Hinriksdóttir

Hjartanlega til hamingju

Áslaug Ósk Hinriksdóttir, 14.12.2007 kl. 09:02

3 Smámynd: Dísa Dóra

Hér á bæ er komið á innkaupalistann að kaupa Nýtt líf

Dísa Dóra, 14.12.2007 kl. 10:51

4 identicon

Kæra Freyja

 Þetta áttu sannarlega skilið!!

Flott ræða hjá þér - segir allt sem segja þarf

Gleðileg jól til þín og allra þinna

Habbó

Hrafnhildur-Habbó (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 12:47

5 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sæl Freyja

Þú er kona sem við hinar getum litið til með miklu stolti og sem frábæra hvatningu. Það er stórkostlegt hvernig þú hefur brotið múrana hvern af öðrum. Til slíkra hluta þarf; jákvætt hugarfar, óbilandi kjark, gríðarleg þrautseigja, bjargfasta trú og ríkulega réttlætiskennd. Þessa eiginleika hefur þú til að bera og nýtir þá vel. Þú ert ein af þessum fyrirmyndum sem vert er að horfa til og læra af. Guð blessi þig og varðveiti. Hólmfríður Bjarnadóttir www.fridabjarna.blog.is

Hólmfríður Bjarnadóttir, 14.12.2007 kl. 23:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband