Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Upplestrar

Frostaskjól 

Í Frostaskjóli ásamt Þóru, Mörtu og fríðum flokki stúlkna á stelpukvöldi.

Í síðustu viku vorum við með upplestra hjá Einstökum Börnum og í félagsmiðstöðinni Frostaskjóli. Það var ótrúlega vel tekið á móti okkur á báðum stöðum og gekk virkilega vel. Við lásum nokkra kafla upp úr bókinni, svöruðum fyrirspurnum og spjölluðum saman. Við þökkum kærlega fyrir okkur.

Framundan er Bókasafnið í Mosfellsbæ sem er annað kvöld og ýmsir fleiri áfangastaðir á næstu vikum. Við leyfum ykkur að fylgjast með. Hægt er að bóka upplestra á almaogfreyja@forrettindi.is.

Hljóðbókin var kynnt í 24 stundum í dag og var Alma og Óskar unnusti hennar akkúrat að klára vinnsluna á henni í dag svo nú er hún farin í framleiðslu, kemur á sama dag og bókin sjálf.

Takk fyrir fallegar kveðjur hér á blogginu (og reyndar í gegnum tölvupóst og á förnum vegi). Alltaf ánægjulegt!! Wink

Bestu kveðjur,

Alma og Freyja


Að hugsa um hvernig aðrir hugsa

Eftir að hafa eytt deginum í Smáralind með góðu fólki að selja falleg jólakort fyrir félagið Einstök börn (e-ð sem dagurinn átti ekki beint að fara í) ákvað ég að halda áfram að gefa skít í upphaflegt plan helgarinnar og las blöðin sem ég geri mjög sjaldan í annríkinu þessa dagana. Góð tilfinning og róandi.

Ég rak augun í tvö mjög góð viðtöl, annað við Bubba Morthens tónlistarmann og hitt við Halfdan Freihow bókaútgefanda, rithöfund og föður einhverfs drengs. Ég las þau bæði upp til agna. Það furðulega, eftir á að hyggja, er að þrátt fyrir tvo gjörólíka menn á gjörólíkum vettvangi var "hismið" í viðtölunum það sama.

Bubbi ræðir um lífið, minnst um tónlist að þessu sinni - meira um fiskveiðar, ástina, sjálfan sig, náttúruna og Guð. Orð hans eru heiðarleg og talar hann opinskátt um brothættan sterkan persónuleika sinn, trúna, fordóma, eigin stöðu, konuna sína og aðra hluti sem eru kannski ekki upp á borðinu á hverjum degi. Áhugaverðast fannst mér að lesa um þá fordóma sem hann segist vera að sigrast á gagnvart allt og öllum og mikilvægi þess að geta það. Hann talar um þessa flokka sem við setjum fólk í um leið og við vitum eitthvað um það. Við dæmum og skilgreinum manneskju út frá því að vita að hún er lesblind, rithöfundur, óvirkur alki eða fyrrum bankastjóri. Á augabragði erum við búin ,,ákveða" í huganum hver áhugamál hennar eru, hvernig makinn líti út og hver karaktereinkennin séu án þess að hafa nokkurn grundvöll fyrir því. Bubbi tekur dæmi um Þorgrím Þráinsson, að hann hafi fordóma fyrir bókinni hans nýju og skilji ekki tilganginn með henni. Hann segist þó hafa hitt hann og að hann sé elskulegur maður - samt hafi hann fordóma. Hvað ætlar hann að gera í málinu? Jú, lesa bókina. Ég hef því miður sömu fordóma, kannski að ég lesi hana líka.

Halfdan var að tala um bókina sína, Kæri Gabríel, sem hann skrifar til síns einhverfa drengs. Hann segist hafa skrifað hana til að skilja hvernig sonur hans hugsar, hvernig hann hegðar sér, sín eigin viðbrögð gagnvart því og svo fram eftir götunum. Hann bendir á að við höldum alltaf að við séum svo fordómalaus og búum í svo opinskáu samfélagi en að það sé mesti misskilningur. Um leið og við fögnum fjölbreytileika glápum við á einhverft barn sem fær æðiskast út í búð, fussum og sveium yfir lélegum uppeldisaðferðum foreldra. Halfdan talar einnig um að þegar Gabríel hafi verið greindur hafi hans fyrstu viðbrögð verið að lesa allar hugsanlegar upplýsingar um einhverfu. Svo hafi hann loks hætt því, því hann telur engan vita neitt í raun og veru. Enginn með einhverfu er eins.

Ég gæti skrifað endalaust um þessi tvö viðtöl en ætla að sleppa því og hvetja ykkur frekar til að lesa um Bubba í lesbók Moggans og Halfdan í Fréttablaðinu.

,,Engin veit neitt í raun og veru," setning Halfdans finnst mér segja svo margt. Við eyðum alltof mikilli orku í að skella fólki í skúffur eftir útliti, skapgerð og hegðun. Orku sem við gætum virkilega eytt í að skilja hvernig fólk hugsar og hvernig því líði. Þá fyrst myndi einhverfa barnið standa sterkt eftir ,,æðiskast" út í búð, í stað þess að foreldrar þess verði álitnir ,,svartur blettur" á samfélaginu.

Þegar ég var að skrifa bæklinginn um samskipti stuðningsfulltrúa og nemenda; Að sýna virðingu í verki vantaði mig að vera blind, heyrnarlaus, með þroskahömlun, geðröskun og athyglisbrest og ofvirkni um stund. Sú ósk uppfylltist ekki á meðan á skrifum stóð sem gerði mér erfitt uppdráttar. Bæklingurinn er að sjálfsögðu málaður af minni reynslu og upplifun þó svo ég sé ekki bara að skrifa um hreyfihamlaða nemendur. Ég veit vel að ég get aldrei sett mig fyllilega í spor annarra en mín eigin.

Það tók tvær vikur að skrifa bæklinginn. Það tók eitt og hálft ár að hugsa um hvernig aðrir hugsa til þess að geta byrjað að skrifa.


Íslenskt eðal-stress í hamárki

Hér er allt á fimmta hundraðinu. Alma er á æfingum með Nylon á milli þess hún les Postulínið okkar inn á hljóðbók sem kemur út á sama tíma og bókin sjálf, enda ekkert annað í stöðunni en að hún sé aðgengileg fyrir alla strax.

Ég hringsnýst í náminu sem ég hef sinnt af hálfum hug hingað til en er að sjá fram á að það er ekki nóg svo nú er bara harkan sex - lesa, glósa, lesa, glósa, lesa, glósa, lesa, glósa á öllum mögulegum tímum sólarhringsins. Tvö ritgerðarskil framundan og 70% próf í desember í sálfræði.

Annars er barnið okkar Ölmu loksins flutt að heiman (farið í prentun) og mun koma í sölu í vikunni 19-23. nóvember svo nú er ekki eftir neinu að bíða við að plana kynningar, upplestra og önnur skemmtilegheit. Hægt er að hafa samband við okkur á almaogfreyja@forrettindi.is ef áhugi er fyrir upplestri á vinnustað, samtökum, klúbbum og við ýmis tilefni. Við erum nú í óðaönn að bóka.

Í kvöld verðum við með upplestur hjá Einstökum börnum, hagsmunafélagi barna með sjaldgæfa og alvarlega sjúkdóma. Um er að ræða fund félagsmanna og hlakkar okkur mikið til. Annað kvöld er svo upplestur í félagsmiðstöð á stelpukvöldi en þar munum við vera ásamt Mörtu Maríu og Þóru sem lesa upp úr unglingabók sinni Ef þú bara vissir. MAC verður einnig á sínum stað svo ég geri ráð fyrir mjög notalegu kvöldi.

Mitt helsta markmið er að muna eftir myndavél þar sem ég hef ekki staðið mig vel í þeim efnum undanfarið - batnandi mönnum er þó best að lifa .... þ.e.a.s. ef þeim fer batnandi sem kemur í ljós næstu kvöld. Wink

Nú er ég farin að skrifa ritgerð um unglinga með fötlun sem á að skilast fyrir miðnætti. Sideways Þó fyrr hefði verið.

Eigið góðan dag!

Kv. Freyja

busy-lady

Við í hnotskurn!!!!!!!


Frétt á visir.is

Freyja, Alma, Marta María og Þóra

 

Hérna er linkur inn á frétt sem var á visir.is og í Fréttablaðinu í dag

 

 

 


Sannleikurinn

Ég fór út að borða með fjölskyldunni í kvöld, ekki að það sé frásögufærandi. Þegar við sitjum í makindum okkar að bíða eftir matnum kemur lítil stúlka og horfir mikið á mig, brosir feimnislega og fer svo aftur. Þetta endurtekur sig nokkrum sinnum og fannst mér það mjög krúttlegt. Mömmu hennar fannst þetta ekki eins sætt og var sífellt að segja henni að koma og kemur sér undan að svara spurningum stúlkunnar en segir svo á endanum; ,,Já, já, hún er bara að hvíla sig."

Uuu, jú, jú, ég var mjög afslöppuð en ekki sofandi né í neinni hvíld. Ég hef oft upplifað svona athugasemdir frá foreldrum áhugasamra barna og sumir ganga svo langt í eigin þægindahring að þeir segja ,,Hún er bara að lulla í vagninum sínum."

Ég veit vel að börn eru einstaklega opin og stundum pínu vandræðalegt sumt sem þau segja en ég er ekki alltaf sofandi né annað fólk með fötlun. Það er ekkert hættulegt að útskýra fyrir börnum sannleikann, að fólk sé ólíkt.

Þessi móðir í kvöld hefði auðveldlega geta sagt dóttur sinni að ég væri fötluð sem þýddi að ég gæti ekki gengið og því sæti ég í hjólastól í staðin.

Það er ekki eins og það sé nokkur harmleikur- væri verra ef ég væri sísofandi. Sleeping

Kv. Freyja


Gufunesbær í kvöld!


Mig langar að byrja á því að þakka ykkur kærlega fyrir hlý orð í okkar garð og fyrir að gefa ykkur tíma til að skrifa athugasemdir við færslurnar. Það er svo gaman að sjá hvað þið hafið að segja!

Í kvöld verðum við Freyja í félagsmiðstöðinni Gufunesbæ í skemmtilegri stelpustemningu þar sem við ætlum að lesa upp út bókinni okkar Postulín, Marta María og Þóra ætla einnig að lesa úr nýrri unglingabók sinni og MAC verður með snyrtivörukynningu.

Við munum heimsækja nokkrar félagsmiðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu á næstu vikum og erum í óðaönn að bóka upplestra þessa dagana.

Með kærri kveðju,

Alma


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband