Að hugsa um hvernig aðrir hugsa

Eftir að hafa eytt deginum í Smáralind með góðu fólki að selja falleg jólakort fyrir félagið Einstök börn (e-ð sem dagurinn átti ekki beint að fara í) ákvað ég að halda áfram að gefa skít í upphaflegt plan helgarinnar og las blöðin sem ég geri mjög sjaldan í annríkinu þessa dagana. Góð tilfinning og róandi.

Ég rak augun í tvö mjög góð viðtöl, annað við Bubba Morthens tónlistarmann og hitt við Halfdan Freihow bókaútgefanda, rithöfund og föður einhverfs drengs. Ég las þau bæði upp til agna. Það furðulega, eftir á að hyggja, er að þrátt fyrir tvo gjörólíka menn á gjörólíkum vettvangi var "hismið" í viðtölunum það sama.

Bubbi ræðir um lífið, minnst um tónlist að þessu sinni - meira um fiskveiðar, ástina, sjálfan sig, náttúruna og Guð. Orð hans eru heiðarleg og talar hann opinskátt um brothættan sterkan persónuleika sinn, trúna, fordóma, eigin stöðu, konuna sína og aðra hluti sem eru kannski ekki upp á borðinu á hverjum degi. Áhugaverðast fannst mér að lesa um þá fordóma sem hann segist vera að sigrast á gagnvart allt og öllum og mikilvægi þess að geta það. Hann talar um þessa flokka sem við setjum fólk í um leið og við vitum eitthvað um það. Við dæmum og skilgreinum manneskju út frá því að vita að hún er lesblind, rithöfundur, óvirkur alki eða fyrrum bankastjóri. Á augabragði erum við búin ,,ákveða" í huganum hver áhugamál hennar eru, hvernig makinn líti út og hver karaktereinkennin séu án þess að hafa nokkurn grundvöll fyrir því. Bubbi tekur dæmi um Þorgrím Þráinsson, að hann hafi fordóma fyrir bókinni hans nýju og skilji ekki tilganginn með henni. Hann segist þó hafa hitt hann og að hann sé elskulegur maður - samt hafi hann fordóma. Hvað ætlar hann að gera í málinu? Jú, lesa bókina. Ég hef því miður sömu fordóma, kannski að ég lesi hana líka.

Halfdan var að tala um bókina sína, Kæri Gabríel, sem hann skrifar til síns einhverfa drengs. Hann segist hafa skrifað hana til að skilja hvernig sonur hans hugsar, hvernig hann hegðar sér, sín eigin viðbrögð gagnvart því og svo fram eftir götunum. Hann bendir á að við höldum alltaf að við séum svo fordómalaus og búum í svo opinskáu samfélagi en að það sé mesti misskilningur. Um leið og við fögnum fjölbreytileika glápum við á einhverft barn sem fær æðiskast út í búð, fussum og sveium yfir lélegum uppeldisaðferðum foreldra. Halfdan talar einnig um að þegar Gabríel hafi verið greindur hafi hans fyrstu viðbrögð verið að lesa allar hugsanlegar upplýsingar um einhverfu. Svo hafi hann loks hætt því, því hann telur engan vita neitt í raun og veru. Enginn með einhverfu er eins.

Ég gæti skrifað endalaust um þessi tvö viðtöl en ætla að sleppa því og hvetja ykkur frekar til að lesa um Bubba í lesbók Moggans og Halfdan í Fréttablaðinu.

,,Engin veit neitt í raun og veru," setning Halfdans finnst mér segja svo margt. Við eyðum alltof mikilli orku í að skella fólki í skúffur eftir útliti, skapgerð og hegðun. Orku sem við gætum virkilega eytt í að skilja hvernig fólk hugsar og hvernig því líði. Þá fyrst myndi einhverfa barnið standa sterkt eftir ,,æðiskast" út í búð, í stað þess að foreldrar þess verði álitnir ,,svartur blettur" á samfélaginu.

Þegar ég var að skrifa bæklinginn um samskipti stuðningsfulltrúa og nemenda; Að sýna virðingu í verki vantaði mig að vera blind, heyrnarlaus, með þroskahömlun, geðröskun og athyglisbrest og ofvirkni um stund. Sú ósk uppfylltist ekki á meðan á skrifum stóð sem gerði mér erfitt uppdráttar. Bæklingurinn er að sjálfsögðu málaður af minni reynslu og upplifun þó svo ég sé ekki bara að skrifa um hreyfihamlaða nemendur. Ég veit vel að ég get aldrei sett mig fyllilega í spor annarra en mín eigin.

Það tók tvær vikur að skrifa bæklinginn. Það tók eitt og hálft ár að hugsa um hvernig aðrir hugsa til þess að geta byrjað að skrifa.


Athugasemdir

1 identicon

hmm var ekki verið að tala um e-h sálfræðimaraþon á föstudaginn ?? Held að ég sé líka með fordóma um bók Þorgríms þannig að ég verð kanski líka bara að lesa hana,held að það sé ekki svo auðvelt að skrifa bara eina bók um hvernig eigi að gera konur hamingjusamar og þá verði bara allir happý sem betur fer eru við konurnar ekki allar eins því þá væri nú ekki gaman að lifa:)

Þóra Kristín (IP-tala skráð) 10.11.2007 kl. 23:57

2 identicon

Hæ hæ Freyja,

Takk fyrir samveruna í gær.

Mig langar mikið að vita hvar þú last þetta viðtal við hann Bubba í gær? Ég er nefnilega búin að vera BubbaFAN frá 10 ára aldri sem er ansi langur tími .

Sjáumst

Elísabet Sigmars (IP-tala skráð) 11.11.2007 kl. 12:27

3 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Freyja, þú ert svo mikill snillingur að það hálfa væri nóg. Með þessum pistli hittir þú naglann á höfuðið en ég er einmitt að lesa um einhverfu m.a. í barnasálfræðinni og það er svo margt í okkar heimi sem ALDREI verður vitað nema maður gæti orðið Guð almáttugur í einn dag . Góða helgi og gangi ykkur stöllum enn og aftur vel. Hlakka ekkert smá til að lesa bókina ykkar!!!

Kristbjörg Þórisdóttir, 11.11.2007 kl. 13:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband