Að velja hugsunum sínum farveg...

Hún Heiða vinkona er einn sá mesti snillingur í að grafa upp falleg ljóð og hittin spakmæli. Í nýjustu færslu hennar deildi hún neðangreindri setningu með lesendum:

We either make ourselves miserable, or we make ourselves strong. The amount of work is the same.

Þegar ég las þetta fann ég að mitt lífsviðhorf og markmið felast í nákvæmlega þessari setningu. Frá því ég loksins uppgötvaði, hægt og sígandi, að ég stjórnaði hugsunum mínum alfarið sjálf fór ég að taka í taumana á þeim og ala þær upp á ný – með aðstoð vegfarenda á lífsins leið.

Þó mikil vinna hafi falist á þessu endurskipulagi á hugsunum mínum, og geri enn i dag, skil ég með engu móti hvernig ég nennti að eyða orku í kolranga vegferð neikvæðninnar og biturleikans hér áður. Auðvitað ná flestir betri stjórn á hugarfari sínu með auknum þroska og víðari reynslu sem byggist upp með hverjum deginum. Því er líklega eðlilegt að börn og unglingar nái ekki í tauminn eða missi hann viðstöðulaust. Það sem slíkt er mikilvægt í raun og mannlegt, því þá kann maður betur að meta það að ná stjórn. Einnig er fólk eins og ég (var), sem þarf töluvert mikla hjálp við að ná jafnvægi og stjórn á hugsunum. Og það er mikilvægt að hægt sé að ganga að þeirri aðstoð vísri, hver sem hún svo er.

Eitt er að minnsta kosti víst, að það að gera sig hamingjusaman, sterkan og öruggan er vinnunnar virði. Hins vegar skilar vinnan við að berja okkur sjálf niður, vera óhamingjusöm og atvinnu- og helsti stuðningsmenn vandamála okkar ekki nokkrum sköpuðum hlut. Hið síðara er samt í raun miklu meiri vinna.

Ég velti fyrir mér hvort þetta quote mætti ekki fara í aðalnámskrá leik-, grunn-, framhalds- og háskóla. Þessi staðreynd er nefnilega ein af mörgum sem við öðlumst ekki endilega skilning á upp á eigin spýtur.

Þetta er að mínu mati staðreynd sem öllu fólki er hollt að meðtaka í rólegheitum frá upphafi ævinnar. Það hlýtur að spara okkur flestum gríðarlega vinnu.


Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Auðuns

Hæ Freyja,

Þessi orð eru góð og ættu alveg heima inn í öllum skólu, þar er ég alveg hjartanlega sammála þér.

Þú ert hetja stelpa.

Kærleikskveðjur Vilborg

Vilborg Auðuns, 21.8.2008 kl. 16:57

2 Smámynd: Dísa Dóra

Þetta er bara frábær pistill hjá þér og algjörlega sannleikurinn.

Knús til þín

Dísa Dóra, 22.8.2008 kl. 09:17

3 identicon

Það er mjög mikið til í þessari setningu og einmitt segir hún svo mikið hvernig hægt er að lifa lífinu á þægilegan og góðan hátt í sátt við sjálfan sig og aðra.

Þetta er eitthvað sem ég ætla að reyna að tileinka mér meira.

Kv. Sigþrúður 

Sigþrúður (IP-tala skráð) 22.8.2008 kl. 11:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband