Heppni eða sjálfsögð mannréttindi?

Það er ansi mikið er um að vera hjá okkur Ölmu þessa dagana og höfum við því lítinn tíma í bloggskrif. Vonandi rætist úr því bráðlega.

Mig langar að benda ykkur á tímarit sem kom nýverið út og er 10 ára Afmælisrit Einstakra barna. Þetta er að sjálfsögðu flottasta blaðið í bransanum í dag og eru þar að finna viðtöl og greinar við og eftir foreldra barnanna/unglingana í félaginu, einstöku börnin sjálf (sem eru sum orðin fullorðin), ömmur, vini og fagfólk.

Ég hef ekki haft tíma til að lesa það spjaldanna á milli en það er á stefnuskránni. Hægt er að nálgast blaðið hjá félaginu en einnig á rafrænu formi. Það sem ég er búin að lesa er mjög umhugsunarvert fyrir okkur öll, skemmtilegt og fræðandi og gefur svo sannarlega innsýn inn í líf fólksins í félaginu.

Eitt af mörgu sem ég staldraði við var Hugleiðing um heppni:

Ég heyri það oft að ég sé heppin.

Ég velti orðinu heppni fyrir mér vegna þess að það er mjög oft notað í umræðunni um 14 ára dóttur mína sem er langveik og fötluð.

Ég heyri að ég sé heppin að hún hafi svona góða kennara/þroskaþjálfa í skólanum.

Ég heyri að hún sé heppin að fá fullan stuðning í skólanum.

Ég heyri að við séum heppin að skólinn skuli vera svona jákvæður gagnvart veru hennar þar.

Ég heyri líka að hún sé heppin að geta stundum tekið þátt í einu og öðru í tengslum við félagsstarf skólans.

Við séum heppin að hafa fagmenntað starfsfólk sem vinnur með henni.

Ég heyri að hún sé heppin að eiga mig sem móður.

Hvers vegna verður fólk hissa og talar alltaf eins og það sé heppni þegar maður segir að það gangi svo ljómandi vel með skólagöngu fatlaðrar dóttur minnar í almennum grunnskóla?

Er það heppni eða sjálfssögð mannréttindi?

- Kristín Steinarsdóttir

Kristín Steinarsdóttir. (2008, mars). 10 ára afmællisrit - Einstök börn. Hugleiðing um heppni, bls. 7.

Hægt er að nálgast tímaritið hér.

Kv. Freyja


Athugasemdir

1 Smámynd: Áslaug Ósk Hinriksdóttir

Að sjálfsögðu eru þetta "sjálfsögð mannréttindi" en ég lít samt á okkur heppin að fá þetta allt saman þegar Þuríður mín fer í skóla og hefur fengið þetta allt í leikskóla því það eru ekki allir svona "heppnir" einsog við.  Hvað er málið?  Því miður er það ekki sjálfsagður hlutur í kerfinu að börnin okkar sem eru fötluð eða langveik fái sína aðstoð sem þau þurfa á að halda í skóla eða leikskóla.

Ég leyfði mér að "stela" textanum frá þér og setja hann á síðuna mína.

Áslaug Ósk Hinriksdóttir, 4.4.2008 kl. 08:45

2 identicon

Getum við litið á mannréttindi sem sjálfsögð meðan aðeins nýtur þeirra lítill hluti mannkyns? Ég tel mig heppna að tilheyra þessum litla hluta og geri mér líka vel grein fyrir því að ýmislegt vantar upp á í öllum samfélögum. Ætli megi ekki nota orðið heppinn um alla þá sem njóta einhvers sem ekki allir eiga kost á.

Það sem kemur alltaf fyrst upp í huga minn varðandi heppni er þegar bróðir minn sagðist vera heppinn maður. Hann útskýrði það með því að hann hefði aldrei verið við jarðarför. Þar vísaði hann til þess að hann hafði aldrei misst neinn nákominn. Þegar hann sagði þetta var hann hinsvegar búinn að berjast við heilaæxli í rúm fjögur ár og vissi að ekki væri langt eftir. Hann dó rúmlega fertugur. Já, það má nota orðið heppni á ýmsa vegu. 

ella (IP-tala skráð) 8.4.2008 kl. 17:05

3 Smámynd: Alma Guðmundsdóttir og Freyja Haraldsdóttir

Það má svo sannarlega lýta á heppni á marga vegu.

Það er þó undarlegt að skólaganga ákveðins fjölda nemenda þurfi að vera undir ,,heppni" komin.

Ég lýt á mig sem heppna að lifa með fötlun en ekki sem heppna vegna þess að ég er með þjónustu til að njóta lífsgæða og frelsis. Á þjónustuna lýt ég sem sjálfsögð mannréttindi þó ég geri mig fyllilega grein fyrir að örfáir fatlaðir einstaklingar búa við slík kjör og þrátt fyrir að það hafi tekið mig mikla og erfiða baráttu að fá hana í gegn.

Ég samhryggist þér vegna bróður þíns, hann hefur án efa verið mikill karakter.

Alma Guðmundsdóttir og Freyja Haraldsdóttir, 8.4.2008 kl. 18:18

4 Smámynd: Brynja skordal

Brynja skordal, 10.4.2008 kl. 02:13

5 identicon

nú á ég sjálf fatlað barn...

þar sem að ég tel að ég er heppin er: dóttir mín er bara líkamlega fötluð, og getur þar að leiðandi tekið þátt í eðlilegu lífi. Þá eru það mannréttindi að hún fái að gera það sama og aðrir.

En heppni er hlutur sem að fólk hefur ólíkar skoðanir á, mér finnst ég vera heppin að hún sé ekki slefandi úr spasma, meðan aðrir er með börn sem eru þannig og eru "heppin að þau séu lifandi" eða "heppin að þau voru ekki þroskaheft"

Svo ef að þú átt barn geturu hugsað "en hvað ég er heppin að barnið veit ekki að það sé svona" skárra en að vera blindur.

Það er nauðsynlegt að geta miðað við eitthvað sem að manni finnst verra.(gerir það samt ekki betra, en þetta er meiriháttar mál fyrir foreldra að eignast barn sem er abnorm)

p.s. ertu búin að sjá heimildarþáttin um heyrnalausa fólkið í USA, sem að vill ekki að börnin sín fái "snigilinn í eyrað" til að heyra.. vegna þess að það vill ekki að börnin sín fari á mis við samfélag heyrnalausra? mjög góður þattur var sýndur á DR1 fyrir ca ári síðan 

kolla (IP-tala skráð) 10.4.2008 kl. 15:42

6 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Held þetta séu mannréttindi sem ættu að vera sjálfsögð en því miður eru þau það ekki. 

Þegar ég ferðaðist um Indland, skoðaði heimili fyrir börn af ýmisum togum s.s. fyrir munaðarlaus börn, skóla, spítala, tómstundastofnanir ofl.  Sum heimili voru mjög góð en önnur voru vægast sagt hræðileg.  Eitt af þeim verstu sem ég kom að var risa bygging fyrir munaðarlausar stúlkur sem ég mátti ekki skoða alla.  Alls staðar voru rimlar og þykkar stálhurðir sem ekki mátti skoða á bak við.  Í þessari byggingu bjuggu 200 stúlkur en starfsmennirnir voru aðeins 12.  Fyrir utan bygginguna stóð hús í niðurníslu, það hús var fyrir veikar stúlkur.  Þar biðu þær eftir dauðanum.  Flestar voru eyðnismitaðar en þar voru líka stúlkur sem höfðu einhvers konar fötlun.  Ég mátti alls ekki sjá innan hús þar.    

Ég skoðaði aðeins hluta af heimilum í einni borg. Heppni er líkalega ekki rétt orðið en sem betur fer getum við boðið þeim sem þess þurfa upp á betri þjónustu en annars staðar og samt er langt í land.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 10.4.2008 kl. 16:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband