,,En ég gef þér alveg 30% afslátt.”
27.9.2007 | 00:44
Ég lenti í skrýtnu atviki í dag. Ég fór í sportvöruverslun til að líta á vind- og regnjakka þar sem veðrir gerir fátt annað þessa dagana en að blása og rigna. Þegar ég kom inn í búðina ásamt aðstoðarkonu minni þáði ég fljótlega aðstoð frá starfsmanni til að sýna mér úrvalið.
Þegar hún hafði þrætt alla jakkarekkana eins og þeir lögðu sig láðist mér að spyrja hvaða verð væri á þeim jakka sem mér leist best á. Hún svaraði því og um hæl spurði ég um verðið á öðrum sem mér þótti ágætur. Ég heyrði varla hverju hún ansaði, hún var ekki fyrr búin að sleppa orðinu þegar hún segir ,,En ég gef þér alveg 30% afslátt."
,,Já, það er nú alveg óþarfi" svaraði ég vandræðaleg ,,Ég er bara ekki viss um að mér líki liturinn." Þá heldur hún áfram að sýna mér flíkur sem mér þótti lítt spennandi og segir svo ,,Sko, ég get líka alveg gefið þér þetta á heildsöluverði."
Ég missti andlitið, afþakkaði, fór út jakkalaus og var kvödd með þeim orðum að ég fengi líka afsláttinn þegar ég kæmi aftur. Ég efast um að ég komi aftur. Þetta er hvorki í fyrsta né annað skiptið sem mér er boðin afsláttur og það liggur ljóslifandi fyrir hvers vegna, ég er fötluð. Hugurinn á bak við þetta er án efa fallegur en hins vegar litaður af svo mikilli fáfræði að því er vart lýst með orðum.
Ég geri mig fulla grein fyrir því að margir sem lifa með fötlun eru illa staddir fjárhagslega, en einnig ófatlað fólk sem er ekki boðin afsláttur. Það eru ekki allir með fötlun eins frekar en ófatlað fólk.
Ef ég hefði ekki efni á vindjakka væri ég ekki að skoða þá. Þrátt fyrir að fólk vilji vel er viðmót sem þetta ótrúlega misskilin góðmennska sem hefur ákveðið að ég hafi ekkert á milli handanna og sé óvinnufær.
Stundum þegar ég tala um þetta hneykslast fólk á því að ég skuli ekki vera þakklát. Það skil ég ekki. Hvers vegna ætti ég að vera þakklát einhverjum sem kemur fram við mig eins og ölmusuþega, fyrir það eina að sitja í hjólastól og vera með sýnilega fötlun?
Það er skondið þetta líf!
Bloggar | Breytt 28.9.2007 kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Bloggið okkar í Mogganum í dag...
26.9.2007 | 10:38
Það er gaman að sjá minnst á bloggið okkar í Morgunblaðinu í dag bls. 36.
Einnig er talað um kynni okkar og skrif bókarinnar, sem Salka forlag mun gefa út fyrir jólin.
Við munum tilkynna titil bókarinnar og útgáfudag innan skamms...
Bestu kv.
Alma og Freyja
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mikið um að vera..
25.9.2007 | 17:00
Í gærkvöldi hófst Sjálfstyrkingar- og framkomunámskeiðið á vegum www.namskeid.com sem ég hef verið að skipuleggja ásamt Eddu Björk Pétursdóttur. Hóparnir voru fjölbreyttir og skemmtilegir og það var gaman að sjá hvað stemningin var góð þegar hóparnir voru hristir saman. Dagskráin var kynnt fyrir stelpunum og að viku liðinni mun Yesmine Olsson halda fyrsta fyrirlesturinn um heilbrigt líferni, hreyfingu og næringu.
Mest allur tími okkar Freyju fer í bókina þessa dagana, en þess á milli sinnir Freyja skólanum og ég vinn með Nylon stelpunum. Á döfinni eru upptökur á tveimur nýjum lögum, en það er ýmislegt í bígerð hjá Nylon sem ég segi ykkur betur frá síðar...
Bestu kveðjur,
Alma
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Endurnærðar og fullar af eldmóð
24.9.2007 | 01:00
Jæja, við höfum ekki verið ýkja duglegar að láta í okkur heyra en höfum auðvitað góða og gilda afsökun þar sem verið er að leggja lokahönd á bókina. Vegna anna í Portúgal gátum við lítið unnið í bókinni þar en komum hins vegar endurnærðar og fullar af eldmóð heim úr fróðlegri og þroskandi ferð.
Við fórum alltaf í lögreglufylgd á ráðstefnunni svo nú erum við orðnar alltof góðu vanar og enn að ná okkur niður á jörðina
Freyja, Alma og Sandra (einnig fulltrúi Íslands) á leið út að borða niður við smábátahöfn í Faro
Vikan sem framundan er mun einkennast af mikilli yfirferð á texta bókarinnar, betrumbótum, lagfæringum og annarri smámunasemi sem skiptir þó öllu máli fyrir heildarmyndina. Einnig förum við að öllum líkindum í myndatöku fyrir kápu bókarinnar og ákvörðun verður tekin um titilinn.
Við erum mjög spenntar fyrir komandi vikum og ánægðar að sjá góð viðbrögð og tilhlökkun frá fólki í kringum okkur.
Við látum heyra í okkur fljótt aftur!
Bestu kveðjur,
Freyja og Alma
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Young voices
17.9.2007 | 19:36
Þá er ráðstefnan á enda og leggjum við í hann heim á morgun. Það er erfitt að útskýra síðustu tvo daga og kannski gerum við það betur þegar heim er komið. Í gær fórum við í portúgalskar sumarbúðir og unnum í hópum, secondary education, vocasional educational og higher education - ég var í higher og Sandra var í secondary education. Þar ræddum við ásamt öðrum með fötlun helstu framfarir, hindranir, lausnir og framtíðarsýn í skólamálum nemenda með sérþarfir. Við ræddum einnig um gildi náms án aðgreiningar.
Eftir langan vinnudag var okkur öllum svo ekið í lögreglufylgd á stað sem heitir Convento do Beato en þar var galakvöldverð haldinn mjög hátíðlega. Ég og Alma vorum gjörsamlega orðlausar. Salurinn var eins og uppgerður kastali, lifandi klassísk tónlist var spiluð undir borðhaldi, ávaxta- og ostaborðið var svo stórt að annað eins höfum við aldrei séð og stemningin var ólýsanleg. Ég held ég geti sagt að fallegri sal og byggingu hafi ég aldrei séð. Okkur leið hreinlega eins og í bíómynd, staðurinn var hálf óraunverulegur.
Gjörsamlega uppgefnar en í prinsessu-sæluvímu sofnuðum við eftir ósköpin og þurftum svo að vakna eldsnemma til að mæta í þinghús Portúgala þar sem voru fluttar niðurstöður gærdagsins. Ég var ein af þeim sem flutti þær úr mínum hópi og gekk það vel - þrátt fyrir ansi mikinn taugatitring af stressi. Allir hóparnir komu með frábæra punkta nemendum með sérþarfir til hagsbóta enda erum við sérfræðingar í eigin lífi. Við munum pottþétt deila þessu með ykkur betur en eins og er erum við að meðtaka gríðarlega þekkingu, púsla brotunum saman í hugunum og mynda heilsteypta mynd af þessari upplifun.
Efst í huga okkar situr ákveðin setning eftir daginn: What works for us, works for all.
Það er einmitt málið, þarfir þeirra sem lifa með fötlun er hagsmunamál allra - við getum öll, hvernig sem við erum, notið góðs af því að mæta þeim.
Við látum fylgja með færslunni nokkrar myndir og fleiri munu detta inn fljótlega.
Takk fyrir allar heimsóknirnar, ekki vera feimin/nn við að kvitta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)