Færsluflokkur: Bloggar
Erilsamur dagur
28.11.2007 | 15:16
Hæ, hæ
Biðjumst afsökunar á að hafa ekki sett inn dagskránna en í morgun var Alma að lesa fyrir unglingahóp á Borgarbókasafni, í hádeginu vorum við á Hrafnistu að lesa og selja bækur og framundan er:
- Áritun í Hagkaup Holtagörðum kl. 16-17
- Upplestur á bókasafni Selfoss kl. 18:15
- Upplestur og spjall í NLFÍ 20:00
Vonandi sjáum við sem flesta.
Kv. A&F
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Frábær kvöldstund
27.11.2007 | 00:57
Í félagsmiðstöðinni við Háteigsskóla
Í kvöld heimsóttum við félagsmiðstöðina við Háteigsskóla og lásum upp úr Postulín. Um var að ræða stelpukvöld og var Marta María einnig að lesa upp úr bókinni Ef þú bara vissir. Að loknum upplestrum bjóðum við Alma oft upp á fyrirspurnir og er afar misjafnt hversu góð umræða kemst af stað. Í kvöld átti sér stað frábær, löng og innihaldsrík umræða sem spratt upp frá spurningum stelpnanna og vangaveltum. Nú hef ég haldið tugi fyrirlestra og fengið ótal spurningar en ég held að opinleiki og frumkvæði áheyranda í kvöld hafi slegið öll met.
Það þarf hugrekki til að þora að spyrja og því mega þessar flottu Háteigsstúlkur vera mjög stoltar af sér. Mér finnst svo gott þegar fólk þorir að spyrja því þá veit ég að það fer ekki heim með höfuðið fullt af spurningum og þarf ekki að búa sjálft til svörin. Einlægni og forvitni er mikilvæg forvörn gegn fyrirfram ákveðnum hugmyndum og fordómum að öllu tagi.
Annars þökkum við fyrir skemmtilegar kveðjur vegna Ísland í dag - þið eruð æðisleg. Einhver lítill fugl hvíslaði að mér að innan tíðar muni birtast hér reynslusaga Ölmu um það þegar hún vaknaði fötluð einn góðan veðurdag. Þið sem misstuð af þættinum getið horft hér.
Góða nótt!
Kv. Freyja
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Myndaalbúm úr lífi Freyju í 24 stundum í dag
24.11.2007 | 16:13
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Áritun á morgun - Kringlunni
22.11.2007 | 14:35
Á morgun verðum við Freyja að árita bókina okkar Postulín á milli kl.16-18 í Eymundsson Norðurkringlu. Vonumst til að sjá framan í sem flesta..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ísland í dag - á mánudag
22.11.2007 | 09:20
Mælum sterklega með að þið horfið á Ísland í dag á mánudagskvöldið 26.nóv. - það mun vera þess virði.
Segjum ekki meira.
Kv. Alma og Freyja
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Með ólíkindum
20.11.2007 | 10:35
Það er hreint ótrúlegt hvað við erum komin stutt á veg í búsetumálum fatlaðs fólks. Valið er þröngt, úrræðin fá og þjónustan skert og oft skelfilega léleg. Það er ekki beint starfsfólkinu að kenna (þó það sé reyndar oft stofnanameðvirkt) en fáir sækjast í störfin vegna lélegra launa. Þeir sem starfa inn á ,,heimilum" (finnst þau ófá mjög stofnanaleg) glíma við manneklu upp á hvern einasta dag, alltof mikið álag og samviskubit yfir því að geta ekki veitt íbúum mannsæmandi aðstoð og þjónustu.
Það versta við þetta allt saman er að fjárveitingavaldið fattar ekki að það er fjárhagslega hagkvæmt fyrir þjóðina að eyða peningum í lífsgæði fólks með fötlun því þá líður okkur vel og þurfum síður á sálrænum úrræðum að halda, vinnum vinnuna okkar, tilheyrum mannauði atvinnulífsins, greiðum okkar skatta og búum á okkar heimilum svo ekki þarf að búa til endalausar stofnanir (sérstaklega fyrir okkur, sem erum í raun ekkert sérstakar i en neinn annar í þessum heimi) sem aldrei er almennilega hægt að manna.
Strákurinn í neðangreindri frétt vill búa einn. Það fyndna er að Svæðisskrifstofan, jú, jú, hún býður upp á sjálfstæða búsetu en reiknar ekki með að fólk sem kýs það, þurfi neina aðstoð. Ég þarf aðstoð við allar athafnir daglegs lífs en samt stefni ég á að búa ein.
Sjálfstæði er ekki það að gera allt upp á eigin spýtur, sjálfstæði er að gera það sem þú vilt þegar þú vilt það, burt séð frá því hversu mikla aðstoð þú þarft við framkvæmdina.
Vill sjá soninn búa einan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Postulín komin í verslanir
16.11.2007 | 20:02
Það voru ekki amalegar fréttir sem við fengum í morgun þegar okkur var tilkynnt að bókin Postulín væri tilbúin úr prentun og myndi verða dreifð í flestar verslanir í dag og á morgun. Við erum komnar með okkar fyrstu eintök í hendur og í raun orðlausar að draumurinn okkar, sem var svo fjarlægur fyrir tveimur árum, sé orðinn að veruleika. Við verðum að viðurkenna að við erum mjög stoltar konur í dag.
Það er vægast sagt skrítin tilfinning að vera nú berskjaldaður fyrir öllum þeim sem vilja lesa. Þessi vinátta okkar Ölmu hefur verið mér, og mun alltaf vera, einstaklega mikilvæg því með hana við hlið mér tókst mér að opna fyrir gátt sem hefur alltaf verið stífluð og svara spurningum sem engin hefur þorað að biðja mig að svara. Það eru samt sem áður þær spurningar sem hafa hjálpað mér að hreinsa út óþarfa vanlíðan sem ég hef haldið inn í mér fram til dagsins í dag. Ég er hæst ánægð með mína ákvörðun og vonum við Alma báðar að sú sjálfskoðun sem við fórum báðar í gegnum, við skrifin, dusti rykið af gömlum tabúum, opni víðari sýn á margbreytileika mannlífsins og hjálpi fólki að horfast í augu við sjálfan sig og lífið.
Við vonum að þið njótið góðs af Postulíninu okkar, við höfum skemmt okkur konunglega og velst um af hlátri þrátt fyrir átakanleg augnablik við og við.
Framundan er kynningarstarfsemi, upplestrar og áritanir og verðum við eins öflugar og við mögulega getum við að auglýsa það hér á blogginu.
Eigið yndislega helgi,
Fyrir hönd okkar beggja,
- Freyja
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
Upplestrar
13.11.2007 | 17:59
Í Frostaskjóli ásamt Þóru, Mörtu og fríðum flokki stúlkna á stelpukvöldi.
Í síðustu viku vorum við með upplestra hjá Einstökum Börnum og í félagsmiðstöðinni Frostaskjóli. Það var ótrúlega vel tekið á móti okkur á báðum stöðum og gekk virkilega vel. Við lásum nokkra kafla upp úr bókinni, svöruðum fyrirspurnum og spjölluðum saman. Við þökkum kærlega fyrir okkur.
Framundan er Bókasafnið í Mosfellsbæ sem er annað kvöld og ýmsir fleiri áfangastaðir á næstu vikum. Við leyfum ykkur að fylgjast með. Hægt er að bóka upplestra á almaogfreyja@forrettindi.is.
Hljóðbókin var kynnt í 24 stundum í dag og var Alma og Óskar unnusti hennar akkúrat að klára vinnsluna á henni í dag svo nú er hún farin í framleiðslu, kemur á sama dag og bókin sjálf.
Takk fyrir fallegar kveðjur hér á blogginu (og reyndar í gegnum tölvupóst og á förnum vegi). Alltaf ánægjulegt!!
Bestu kveðjur,
Alma og Freyja
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Að hugsa um hvernig aðrir hugsa
10.11.2007 | 21:56
Eftir að hafa eytt deginum í Smáralind með góðu fólki að selja falleg jólakort fyrir félagið Einstök börn (e-ð sem dagurinn átti ekki beint að fara í) ákvað ég að halda áfram að gefa skít í upphaflegt plan helgarinnar og las blöðin sem ég geri mjög sjaldan í annríkinu þessa dagana. Góð tilfinning og róandi.
Ég rak augun í tvö mjög góð viðtöl, annað við Bubba Morthens tónlistarmann og hitt við Halfdan Freihow bókaútgefanda, rithöfund og föður einhverfs drengs. Ég las þau bæði upp til agna. Það furðulega, eftir á að hyggja, er að þrátt fyrir tvo gjörólíka menn á gjörólíkum vettvangi var "hismið" í viðtölunum það sama.
Bubbi ræðir um lífið, minnst um tónlist að þessu sinni - meira um fiskveiðar, ástina, sjálfan sig, náttúruna og Guð. Orð hans eru heiðarleg og talar hann opinskátt um brothættan sterkan persónuleika sinn, trúna, fordóma, eigin stöðu, konuna sína og aðra hluti sem eru kannski ekki upp á borðinu á hverjum degi. Áhugaverðast fannst mér að lesa um þá fordóma sem hann segist vera að sigrast á gagnvart allt og öllum og mikilvægi þess að geta það. Hann talar um þessa flokka sem við setjum fólk í um leið og við vitum eitthvað um það. Við dæmum og skilgreinum manneskju út frá því að vita að hún er lesblind, rithöfundur, óvirkur alki eða fyrrum bankastjóri. Á augabragði erum við búin ,,ákveða" í huganum hver áhugamál hennar eru, hvernig makinn líti út og hver karaktereinkennin séu án þess að hafa nokkurn grundvöll fyrir því. Bubbi tekur dæmi um Þorgrím Þráinsson, að hann hafi fordóma fyrir bókinni hans nýju og skilji ekki tilganginn með henni. Hann segist þó hafa hitt hann og að hann sé elskulegur maður - samt hafi hann fordóma. Hvað ætlar hann að gera í málinu? Jú, lesa bókina. Ég hef því miður sömu fordóma, kannski að ég lesi hana líka.
Halfdan var að tala um bókina sína, Kæri Gabríel, sem hann skrifar til síns einhverfa drengs. Hann segist hafa skrifað hana til að skilja hvernig sonur hans hugsar, hvernig hann hegðar sér, sín eigin viðbrögð gagnvart því og svo fram eftir götunum. Hann bendir á að við höldum alltaf að við séum svo fordómalaus og búum í svo opinskáu samfélagi en að það sé mesti misskilningur. Um leið og við fögnum fjölbreytileika glápum við á einhverft barn sem fær æðiskast út í búð, fussum og sveium yfir lélegum uppeldisaðferðum foreldra. Halfdan talar einnig um að þegar Gabríel hafi verið greindur hafi hans fyrstu viðbrögð verið að lesa allar hugsanlegar upplýsingar um einhverfu. Svo hafi hann loks hætt því, því hann telur engan vita neitt í raun og veru. Enginn með einhverfu er eins.
Ég gæti skrifað endalaust um þessi tvö viðtöl en ætla að sleppa því og hvetja ykkur frekar til að lesa um Bubba í lesbók Moggans og Halfdan í Fréttablaðinu.
,,Engin veit neitt í raun og veru," setning Halfdans finnst mér segja svo margt. Við eyðum alltof mikilli orku í að skella fólki í skúffur eftir útliti, skapgerð og hegðun. Orku sem við gætum virkilega eytt í að skilja hvernig fólk hugsar og hvernig því líði. Þá fyrst myndi einhverfa barnið standa sterkt eftir ,,æðiskast" út í búð, í stað þess að foreldrar þess verði álitnir ,,svartur blettur" á samfélaginu.
Þegar ég var að skrifa bæklinginn um samskipti stuðningsfulltrúa og nemenda; Að sýna virðingu í verki vantaði mig að vera blind, heyrnarlaus, með þroskahömlun, geðröskun og athyglisbrest og ofvirkni um stund. Sú ósk uppfylltist ekki á meðan á skrifum stóð sem gerði mér erfitt uppdráttar. Bæklingurinn er að sjálfsögðu málaður af minni reynslu og upplifun þó svo ég sé ekki bara að skrifa um hreyfihamlaða nemendur. Ég veit vel að ég get aldrei sett mig fyllilega í spor annarra en mín eigin.
Það tók tvær vikur að skrifa bæklinginn. Það tók eitt og hálft ár að hugsa um hvernig aðrir hugsa til þess að geta byrjað að skrifa.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)