Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
,,Þetta er fyrir fólk í hjólastólum SKO”
24.6.2008 | 19:45
Það var lítil rúmlega tveggja ára frænka mín sem var ein af þeim fyrstu sem gerði þá tilraun að skipa mér að standa upp fyrir þremur árum síðan. Hún var búin að biðja mig um að koma og sjá eitthvað nokkrum sinnum, sem ég var ekki fær um og bað hana því að koma og sýna mér. hún fékk nóg af þeirri leti og sagði alvarlega og skipandi ,,Stattu upp!"
Ég útskýrði fyrir henni að ég gæti það ekki á eins einfaldan hátt og ég gat og hefur það ekki verið til umræðu síðan - þ.e.a.s. að ég standi upp. Það hefur þó verið áberandi að hún virðist ekki sjá fötlunina og fylgihluti hennar - hún horfir einfaldlega fram hjá þeim.
Ég sótti hana á leikskólann um daginn og vinkona hennar kemur upp að mér og spyr ,,Af hverju ertu svona?" Ég útlista því hugsunarlaust fyrir dömunni en verður svo litið á frænku mína sem er með ,,um hvað ertu þú að tala" undrunarsvip á andlitinu og spurningamerki á augunum sem beindust stíft að vinkonunni.
Við fórum saman í bústað daginn eftir og allt í einu fóru að koma spurningar um hitt og þetta ,,Hvernig tannburstar þú þig? Er hausinn á þér fastur hérna megin? Af hverju þarf að skera matinn?" o.fl. sem eru eðlilegar spurningar undir öllum kringumstæðum barna, en kannski ekki algengar frá henni. Ég hugsaði með mér að hún væri kannski að uppgötva fötlun mína almennilega þarna og kippti mér ekkert sérstaklega upp við það.
En svo sótti ég skvísuna aftur í gær og ákvað hún að koma með mér í smá stúss. Í Kringlunni þurftum við að sjálfsögðu að finna okkur bílastæði og leggur aðstoðarkona mín í eitt slíkt, blátt með hvítum karli á í hjólastól. Nú, tæplega fimm ára, gjörsamlega gapti frænka mín og spurði aðstoðarkonu mína frekar reið: ,,Hvað ertu að gera? Af hverju ertu að leggja í þetta stæði? Þetta er fyrir fólk í hjólastólum SKO!"
Að reyna að halda andliti spyr aðstoðarkona mín ,,Er ekki einhver i hjólastól í þessum bíl?"
Þögn.
Það er nákvæmlega á þessum augnablikum sem ég minni mig á hversu mikið börn hafa fram yfir fullorðna. Það er á nákvæmlega þessum augnablikum sem ég átta mig á að ef fólk tæki sér svona víða hugsun til fyrirmyndar stæðum við ekki frammi fyrir öllum þeim fordómum og því ójafnrétti sem einkennir ákveðin hluta samfélaga. Það er á nákvæmlega þessum augnablikum sem ég geri mig grein fyrir því af hverju ég fer alltaf, aftur og aftur, að vinna með börnum.
Það er nákvæmlega á þessum augnablikum sem ég er bara Freyja - allt annað gera litlir töframenn ósýnilegt!
- Freyja
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
Ekki lítil – heldur lágvaxin
21.6.2008 | 23:26
Ég skrapp í búð í dag eftir sólbaðsmaraþon mikið og hitti þar systkini sem voru á leikskóla sem ég vann á. Það var ótrúlega gaman að hitta þau og sögðu þau mér stolt að þau væru ekki lengur leikskólabörn heldur á leiðinni í fyrsta bekk grunnskólagöngunnar. Mikið afrek það, en ekki hvað?
Eitt þeirra var augljóslega búið að gleyma smæð minni og minntist á að ég væri nú ekkert sérlega stór, ég væri hreinlega lítil. Mér brá að sjálfsögðu ekki nokkurn skapaðan hlut við þessa athugasemd sem er nánast daglegt brauð í mínu lífi. Það voru þó ekki allir á eitt sáttir og heyrðist í öðru systkininu ,,Nei, nei, hún er ekkert lítil, hún er lágvaxin."
Ég hef síðustu árin náð að sættast vel við að vera lítil - en ég er sko miklu sáttari við að vera lágvaxin!
Sumar-lágvaxtar-kveðja,
Freyja
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Sumarkveðja
8.6.2008 | 22:18
Það kjaftar ekki beint af okkur hver tuskan þessa dagana en við munum líklega verða rólegri í bloggheiminum í sumar. Nú erum við komnar í ,,sumarfrí" frá upplestrum (nema e-rjar óskir berist) en tökum að öllum líkindum upp þráðinn haust. Þó erum við að bardúsa ýmislegt varðandi bókina sem kemur betur í ljós þegar líða tekur á sumar.
Síðustu heimsóknir okkar í unglingadeildir voru í Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ og Rimaskóla í Grafarvogi. Þetta voru skemmtilegar og fróðlegar heimsóknir og þökkum við kærlega fyrir okkur. Okkur þykir verulega vænt um hversu góða hlustun og mikla virðingu við fáum frá áheyrendum hvert sem við komum. Í raun kemur það okkur á óvart í hvert skipti en það segir okkur að boðskapur okkar og umræðuefni er ekki eitthvað sem öllum er nett sama um - heldur eitthvað sem skiptir máli og fólki á öllum aldri þykir mikilvægt að fræðast um. Það gerir okkur báðar vonbetri og jákvæðari gagnvart framtíðinni, sem vonandi ber breytingar, þróun, þekkingu og viðhorfsbreytingu í för með sér.
Þó við munum án efa blogga eitthvað í sumar verðum það ekki eins markvisst og óskum við ykkur því gleðilegs sumars. Takk fyrir mikla hvatningu i vetur og góðar viðtökur hvar sem er, hún hefur skipt öllu máli.
Ykkar,
Alma og Freyja
Myndir frá vetrinum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Á meðan þúsundir foreldra í heiminum...
3.6.2008 | 15:27
... bíða eftir ættleiðingu, jafnvel í mörg ár, eru ungbörn drepin, sett í plastpoka og hent í runna.
Þetta er án efa mjög flókið mál og það sem býr að baki því er alvarlegra en orð fá lýst. Nú veit ég ekki hvort þetta var mjög ung móðir í erfiðri félagslegri stöðu, móðir með mikið fæðingarþunglyndi, móðir í neyslu eða e-r allt önnur móðir. Ég skil bara ekki, í sakleysi mínu, hvernig í ósköpunum kona getur verið ólétt og verið svona hrædd eða ósátt við það án þess að nokkur taki eftir því. Kannski var barnið ekki dáið þegar það var skilið eftir, kannski var vonin sú að e-r myndi finna það og hugsa vel um það - betur en foreldrarnir höfðu kost á. Kannski.
Það sem stuðar mig mest er, að í velferðarsamfélögum sem eru talin nokkuð góð, sem monta sig oft af eigin ágæti og sem gefa sig út fyrir að veita öllum samfélagsþegnum margþátta félagslega aðstoð eigi þetta sér stað - ekki bara einu sinni, heldur oft.
Það hlýtur að vera hægt að efla forvarnarstarf í þessum efnum, bjóða foreldrum sem ekki er ástatt að taka á móti barninu sínu að gefa þau til ættleiðingar og finna leiðir fyrir þessa sömu foreldra til að taka því sem höndum ber og stuðning til að bregðast ekki barninu.
Þó foreldrar í þessari stöðu séu ósýnilegir og erfitt sé að pikka þau úr fjöldanum hlýtur skóla-, heilbrigðis-, og félagskerfi að geta unnið harðar að því, í formi fræðslu, eftirlits og umræðu að koma í veg fyrir örlög sem þessi. Það eru stefnur í eineltismálum, fræðsla um kynferðisofbeldi, forvarnir gegn vímu- og fíkniefnaneyslu, áróður gegn reykingum og ofsaakstri - hví ekki í þessu? Auðvitað skila stefnur, fræðsla, forvarnir og áróður okkur ekkert fullkomnum heimi, en það bjargar kannski fleiri mannslífum og andlegri geðheilsu fólks.
Lík af nýfæddu barni fannst í Horsens | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)