Þegar börnum er kastað til hliðar

istockphoto_535649_outsider 

Þegar ég var í grunnskóla var ég takmarkalaust léleg í stafsetningu. Þar sem mér var alltaf plantað út í horn bakvið skilrúm í tölvu (eins og tölvan, jú, eða ég, væri e-ð leyndarmál) þoldi ég það ekki og gerði allt sem í mínu valdi stóð til að sleppa við þær stundir. Af þeim sökum skrifaði ég lítið sjálf fyrstu skólaárin sem kom niður á stafsetningarkunnáttu minni. Þar að auki var ég látin taka stafsetningarpróf á þann hátt að ég stafaði hvert aukatekið orð ofan í stuðningsfulltrúa minn án þess að sjá á blaðið og geta notað sjónminnið. Einkunnir voru yfirleitt undir 5 í þessum prófum.

Í kjölfarið var ég send í sérkennslu einu sinni í viku, ásamt fleiri ,,so called tossum" í stafsetningu, þar sem okkur var skipað að skrifa, skrifa og skrifa stíla - inn í gluggalausu herbergi. Inn í þessum ,,sértímum" lærði ég eiginlega enga stafsetningu, öðlaðist hins vegar þá trú að ef ég setti venjulegt i þar sem ætti að vera y, tvö b þar sem átti að vera f og kv þar sem átti að vera hv þá myndi ég líklega ekki komast áfram í lífinu! Mér, né öðrum, datt í hug að í framtíðinni yrði allt flæðandi í leiðréttingaforritum í tölvuheiminum.

Ég hélt áfram að fá max 5 í stafsetningu.

Á fyrsta árinu mínu í FG rann loksins upp draumadagurinn, síðasta stafsetningarpróf lífs míns. Ég undirbjó mig andlega undir að stafa A4 bls. stíl fyrir stuðninginn og fá 5 í einkunn, eins og vanalega. Þegar ég hins vegar mætti í prófið rétti kennarinn mér stafsetningarstíl í eyðufyllingarformi, þar sem hún dróg út flóknustu orðin og setti þau í misjafna búninga. Mitt hlutverk var semsagt að velja það orð sem var rétt skrifað.

Ég fékk 8 á prófinu.

Á bls. 25 í Mogganum er grein eftir Birkir Egilsson sjúkraliða, undir yfirskriftinni ,,Hver á að aðlagast hverjum?" Þar talar hann sérstaklega um börn með geðraskanir og tilhneigingu skólakerfisins til að kasta þeim til hliðar og taka þau út úr bekk.

Þeir sem eru haldnir slíkri aðgreiningarhneigð lifa í þeirri trú að þeir séu að gera barninu (sem þeir kasta til hliðar) gott og mæta þörfum þess og horfa í öllu tilliti fram hjá þeirri staðreynd að þeir séu í raun að gera sjálfum sér lífið auðveldara og mæta eigin þörfum.

Var ég send í sérkennslu í því tilliti að efla stafsetningarkunnáttu mína eða vegna þess að kennarinn höndlaði ekki (fyrr en í FG) að finna lausn sem hentaði mér, gera prófin aðgengilegri og efla um leið mína stafsetningar-sjálfsmynd?

Ætli barn með athyglisbrest með/án ofvirkni sé tekið út úr bekk vegna þess að þá styrkist sjálfsmynd þess og það læri helling í háttsettu bóklegu greinum skólans eða vegna þess að þá hættir það að trufla ,,hin" (afsakið orðbragðið) börnin og kennarann við sitt starf?

Þetta eru að sjálfsögðu flóknar og kannski viðkvæmar spurningar - en samt umhugsunarverðar.

Síðasta stafsetningarpróf lífs míns var ekkert léttari en hin þúsund, það var hins vegar aðgengilegt fyrir mig. Ég bað ekki kennarann um annars konar próf, henni virtist finnast eðlilegt að að hafa frumkvæði af að mæta mér - á mínum forsendum.

Ég hvet ykkur til að lesa grein Birkis því hún minnir á þá staðreynd að endalaust er verið að plástra fólk og halda umhverfinu friðuðu. Alltof sjaldan er hugsað út í að friða einstaklinginn og fjölbreytileika hans, mæta einstaklingsbundnum þörfum og byggja upp heilsteyptari sjálfsmyndir - heilsteyptara samfélag.

- Freyja


Athugasemdir

1 Smámynd: Lilja Kjerúlf

Góður pistill

Lilja Kjerúlf, 7.5.2008 kl. 15:51

2 Smámynd: Ylfa Lind Gylfadóttir

Sammála síðasta ræðumanni um hversu góður pistillinn var

Af einhverjum ástæðum hafa þessi mál alltaf verið mér ofarlega í huga og verð ég að seigja að ég er sammála Birki vini mínum í einu og öllu þegar kemur að þessum málum, þeas hann horfir á þessi mál með þroska og eins með augum  manns sem hefur upplifað eitt og annað í skólakerfinu

Einhverntíma var ég nú send á svokallaða "skammkelsstaði" og var fysta og að ég held ein af afar fáum stelpum sem fengu aðgang þarna inn, þetta var sum sé fyrir "tossa", þangað til ákveðið var að senda mig þangað, því að ég hafði því miður fyrir skólastjórnendur alltaf hæðstu einkanir, vandamálið var bara að ég var svo fjandi kjaftfor!!

Annað eins frelsi til að haga mér eins og fífl hef ég hvorki upplifað fyrr né síðar eins og þessar vikur sem ég var á skammkelsstöðum hérna um árið, árangurinn sum sé var enginn, og viti menn..... ég er enn að rífa kjaft!!!

Ylfa Lind Gylfadóttir, 7.5.2008 kl. 16:54

3 identicon

Jamm og tjamm...Sama dag og hætt verður að krefjast þess að kennurum að allir nemendur standi því sem næst jafnfætis hvað námsárangri viðvíkur, sbr. samræmd próf, þá munu sú"aðgreining" sem hér er um rædd verða úr sögunni.

Sú aðgreining sem viðgengst í íslensku skólakerfi er með því minnsta í heiminum eða innan við 3 prósent og stefnir í að vera innan við 1 %. Ég held að Finnar (en því skólakerfi hefur mikið verið hampað) séu með um 7% aðgreiningu í sínu skólakerfi og Hollendingar eitthvað svipað eða ríflega 7%.

 Þetta er ekki alveg svona auðvelt og einfalt eða finnst ykkur það alveg sjálfsagt að t.d. nemandi sem á við geðræn vandmál að stríða sem getur átt sér ýmsar birtingarmyndir t.d. fyrirvaralausa árásahneigð, öskur, orðbragð,  sem beinist að öðrum nemendum stanslaust... finnst ykkur það alveg sjálfsagt að slíkur nemandi sé inni í 28 nemanda bekk? Ef já... hvað mega þeir vera margir? þrír, fimm, tíu?

Ef allir... myndu þið vilja vera inni í slíkum bekk eða hafa barnið ykkar í slíkum bekk? Kenna í slíkum bekk og fá að launum útborgaðar 124.þús á mánuði? Það eru margar hliðar á þessu máli.

kv.

Kristín

kristin (IP-tala skráð) 7.5.2008 kl. 23:14

4 Smámynd: Alma Guðmundsdóttir og Freyja Haraldsdóttir

Sæl Kristín

Ég geri mig fullkomlega grein fyrir fullt af hliðum á málinu en ef ég fer út í þær allar þá er komin eitt stk. doktorsritgerð sem ekki nokkur maður myndi nenna að lesa. Ég byðst afsökunar á að vera ekki nógu skýr þrátt fyrir það en eins og ég segi:

,,Þetta eru að sjálfsögðu flóknar og kannski viðkvæmar spurningar - en samt umhugsunarverðar." 

Það þarf aukna menntun kennara, færri nemendur í bekk, fjölbreyttari fagstéttir inn í skólana, fjölbreyttara viðhorf og svona mætti lengi telja - en það þýðir ekki að tala um það endalaust því einhversstaðar verðum við að byrja... skóli getur aldrei verið tilbúin fyrir litrófið fyrr en hann tekst á við það, líkt og barn lærir ekki að hjóla fyrr en það reynir.

Eins og þú segir, þetta er ekki auðvelt - en miðað við allt sem við getum tæklað í þessum heimi þá hljótum við að geta tæklað geðrænar fatlanir, öskur og orðbragð í skólum. Það síðastnefnda á nú reyndar við um öll börn á einhverjum tímapunkti lífsins.

Þú ert greinilega ekki alveg með réttar tölur, því skólakerfið í Hollandi er með því aðgreindasta í heiminum. Fyrir utan, hver mælir aðgreiningu í skólakerfi? Hvað telur sá sami vera aðgreiningu - hvernig skilgreinir hann hana? Það þætti mér vænt um að vita því ef þetta eru hans tölur er sá sami augljóslega á villigötum.

Takk allar fyrir að taka þátt í umræðunni.

Alma Guðmundsdóttir og Freyja Haraldsdóttir, 7.5.2008 kl. 23:44

5 Smámynd: Áslaug Ósk Hinriksdóttir

Ætlaði að skrifa langan pistil en hætti svo við en mér finnst þetta alveg rétt hjá þér Freyja.

Heilbrigð börn eiga líka bara að læra umgangast börn með sérþarfir, alveg sama hvaða þarfir það hefur.

Takk fyrir frábær skrif.

Áslaug Ósk Hinriksdóttir, 8.5.2008 kl. 10:11

6 Smámynd: Steingrímur Helgason

Kórrétt stafsetníng & setníngargerð er verulega ofmetin af þeim skríl mannfólks sem að metur umbúðir alltaf ofar innihaldi.

Birkir er flottur skrifari, enda 'móbóblogger' líka.

Steingrímur Helgason, 8.5.2008 kl. 22:01

7 identicon

þetta vakti mig til umhugsunar..........hmmmmmmmmmmmm já Freyja ég er samála

Ég er sjálf mjög stafsetninga villt en hef klárað minn skóla er sérkennari í dag þar berst ég við vindmillu stjórnsýslunar  að koma hugafarinu skóli fyrir alla í verk en ekki bara á borði

lilja (IP-tala skráð) 9.5.2008 kl. 09:44

8 identicon

hmm ég var búin að vista athugasemd en ég held hún hafi e-ð glatast í meðförum netsins... kemur aftur hér til öryggis:

Vildi þakka þér fyrir svarið við kommentinu mínu á færslunni hér á undan.

Held ég sé svona 70% sammála þér og er það ekki bara ansi gott á tímum þegar fólki tekst yfirleitt ekki að vera sammála um neitt? :)

Held enn að það séu til einstaklingar sem samfélagið fatlar að einhverju leiti en þeirra eigin skerðing fatlar þá lang mest, þó þeir einstaklingar séu ef til vill í miklum minnihluta fólks með fötlun. Held t.d. að það sé mjög erfitt fyrir okkur að fá verulega greindarskerta manneskju til að tjá sig á þann hátt að við skiljum - en kannski er ég bara skammsýn! Ef til vill eigum við eftir að finna tæki og tól sem gera þetta mögulegt og við megum aldrei hætta að reyna að aðlaga samfélagið að einstaklingnum. Þitt framlag í þá átt er mikils virði :)

Sigrún P. (IP-tala skráð) 9.5.2008 kl. 22:20

9 Smámynd: Hommalega Kvennagullið

ÉG þakka þér fyrir þennan Pistil Freyja.  Manni finnst alltaf gaman þegar fólk er ánægt með skrif manns.  En þetta er þörf umræða, við þekkjum það bæði, og það þarf virkilega að setja þrýsting á að bætt sé úr þessum málum.  Þá þarf ekki síst að auka fjármagn, svo kennarar og starfsmenn yfirleitt geti almennilega beitt þeim lausnum sem til eru.

 Hef "Postað" greinina á bloggið mitt.

Takk fyrir :**

Hommalega Kvennagullið, 10.5.2008 kl. 21:26

10 identicon

Virkilega góður pistill, komment og verðug umræða. Ég verð að viðurkenna að ég á afskaplega erfitt með að mynda mér almennilega skoðun skrýdda réttlæti, því ég skil hliðar kennara, nemenda og foreldra, hvort sem það eru veiku börnin eða ekki. Það kannski sýnir enn betur að það eru aðrir en þessir hópar sem eiga að gera eitthvað róttækt til þess að sum börn séu ekki útundan í kerfinu.

Vonandi verður stærri umræða út frá þessu.  

Olga Björt (IP-tala skráð) 10.5.2008 kl. 23:52

11 Smámynd: Hommalega Kvennagullið

..já og við skulum heldur ekki líta framhjá því að það eru forréttindi fyrir börn að "alast" upp með börnum sem skera sig á einhvern hátt frá heildinni.  Það eykur skilning þeirra á lífinu og tilverunni, svo mikið er víst :)

Hommalega Kvennagullið, 11.5.2008 kl. 00:59

12 Smámynd: Fríða

Þetta er alveg frábær pistill hjá þér Freyja og akkúrat það sem þarf að þrýsta meira á.

Mér finnst það ekki alltaf rétt að taka barnið sem þarf einhverja hjálp með námið út úr bekknum og láta það ekki hafa svipað efni og hina nemendurnar eða gera bara það sem það getur.

Það er oft bara svo það er ekki látið á reyna hvort barnið geti gert eitthvað af því efni sem hinir nemendurnir eru með eða barnið sjálft fái ekki rétta þjónustu og nám við sitt hæfi.

Fríða , 12.5.2008 kl. 04:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband