Öfgahlutverk sem gefa ranga mynd

Síðustu dagar hafa verið fjölbreyttir og skemmtilegir. Í morgun heimsótti ég leikskólabrú Fjölbrautaskólans í Garðabæ. Ég las þar nokkra valda kafla úr Postulín, sem beindu sjónum að barnæsku, viðhorfi fagfólks og leikskólagöngu. Hópurinn var mjög lifandi og áttum við góða stund saman. Í hópnum voru bæði mæður og systir fatlaðra einstaklinga og það var merkilegt að upplifa, eins og reyndar svo oft áður, hvað reynsla okkar er sambærileg og endurspeglast hvor í annarri. Margt af því fáránlega sem fötluðum börnum og foreldrum þeirra er boðið upp á í dag er það sama og okkur var boðið upp á fyrir 16-22 árum síðan. Eins miklar og framfarir eru á mörgum sviðum er einnig margt sem virðist aldrei ætla að þokast í rétta átt.

Í gær vorum við Alma með upplestur á setningarathöfn Listar án landamæra og var hún vel sótt. Dagskráin var þétt og um var að ræða, fyrir utan okkar innlegg, tónlistaratriði, uppistand og myndlistasýningar. Það var mikill heiður fyrir okkur að fá að taka þátt.

Fyrir setningarathöfnina var ég nánast allan daginn á ráðstefnunni Fötlun, sjálf og samfélag sem haldin var á vegum Félags um fötlunarrannsóknir og Rannsóknarseturs í fötlunarfræðum. Það er langt síðan ég hef setið svona skemmtilega, fjölbreytta, lifandi og í senn fræðandi ráðstefnu - þó ég hafi farið á þær ansi margar. Á ráðstefnunni var margt dregið upp sem hefur minna verið rætt áður eins og fötlun í þjóðsögum og ævintýrum, birtingarmyndir fötlunar á bloggi og á Barnalandi (vs. Soralandi), ljósmyndasýninguna Undrabörn og fleira.

Erlendur fyrirlesari, Nick Watson, talaði á ráðstefnunni um fötlun (surprise), sjálfsmynd og það hvernig við höndlum og hugsum um eðlileika/norm. Hann kom inn á margt merkilegt en það sem situr hvað helst eftir hjá mér er umræða hans um hvernig fatlað fólk skilgreinir sjálft sig og byggir upp sjálfsmynd sína. Hann talaði um að nánast engin hafi sett skerðingu sína í fyrsta sæti (ca. 25. sæti frekar) og að fólk skilgreindi sig út frá öðrum hlutum. Hann nefndi þó, sem ég hef sjálf upplifað, að viðstöðulaust erum við minnt á skerðinguna með umhverfislegum hindrunum, glápi, athugasemdum og hegðun annars fólks. Í stað þess að samþiggja þessar áminningar, sagði hann að flestir viðmælendur hans settu ,,vandan" yfir á umhverfislegu hindranirnar og fólkið sem glápir, kemur með athugasemdir og hagar sér sérkennilega. Ég held að það sé mjög mikið atriði í stað þess að taka alltaf við þessu og kenna skerðingu okkar um allt. Þegar allt kemur til alls er hún í raun ekki vandamálið.

Nick Watson talaði einnig um birtingarmyndir fatlaðs fólks. Fjölmiðlar eru einstaklega duglegir við að ýta undir ,,undra-fólks-conceptið" - að annað hvort séum við hetjur, fórnarlömb (eða bæði) og sorglegar manneskjur sem lifum harmleiksþrungnu lífi. Við erum sjaldnast ,,sýnd" sem eðlilegt fólk, sem gerum eðlilega hluti, á eðlilegum degi við eðlilegar aðstæður. Við fáum sjaldnast að birtast sem þau sem við í raun erum. Eins og hann orðar það erum við stöðugt í einhverjum öfgahlutverkum sem gefa ranga mynd. Mér finnst þetta alveg hafa lagast í íslensku samfélagi og fjölmiðlum en samt er eins og það sé voða erfitt að tala um eitthvað án þess að krydda það með dramadrottninga-harmleiks-vælu-afbrigðileika-öðruvísi atriðum. Hægt er að lesa viðtal við Nick í Mogganum í dag á bls. 8.

Annars veð ég úr einu í annað og ætla bara að hætta þessum skrifum áður en að þið þurfið að taka sjóveikispillur. Ég gæti haldið endalaust áfram því það var mjög margt athyglisvert að sem kom fram í gær. Svona ráðstefnur eru mjög mikilvægar að mínu mati, þó svo að verkin mættu auðvitað tala meira. Ráðstefnan hristi allavega upp í hausnum á mér og veitti mér innblástur til að missi ekki sjónar af veginum sem ég vil vera á.


Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalheiður Þórisdóttir

Ég var hrikalega spæld í gær, var búin að skrá mig fyrir löngu síðan á ráðstefnuna en gat svo ekki farið.  Ég hefði svo þurft að vera þarna.  Tékka á mogganum

Aðalheiður Þórisdóttir, 19.4.2008 kl. 17:16

2 Smámynd: TARA ÓLA/GUÐMUNDSD.

Það gladdi mig að lesa að þú finndir að "birtingarmyndir fatlaðs fólks" eins og nefndur Nick Watson kallar það hafi breyst til batnaðar eða alveg lagast. Ég á mjög erfitt með að þola að þegar til dæmis manneskja sem þarf að notast við hjólastól er nánast skilgreind sem hluti af stólnum hún er ekki fullkomin manneskja, gölluð, vorkunnarverð og óhæf til að svara fyrir sig eða hafa skoðanir, skrýtið grey.  Fyrirgefðu þessi orð en ég upplifði þetta svona með ættingja minn, kannski var það bara ég sjálf, ég þoldi bókstaflega ekki að horft væri á hann og langaði oft til að hrista krakka til ef ég heyrði einhverjar athugasemdir frá þeim, sem auðvitað voru sagðar í sakleysi. Svona geta nú ættingjarnir verið og ekki veit ég hvort það er til bóta. 

TARA ÓLA/GUÐMUNDSD., 20.4.2008 kl. 04:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband