Í fréttum er þetta helst...

Upplestrar og fyrirlestrar koma í bylgjum eins og ég hef oft sagt og mikið er um að vera þessa viku. Í morgun var ég með erindi fyrir hollenska grunnskólakennara sem eru hér að fræðast um skóla án aðgreiningar. Skólakerfið í Hollandi er mjög aðgreint og með mjög háa tíðni sérskóla fyrir börn með skerðingar. Það var mjög ánægjulegt að hitta kennarana sem voru allir mjög áhugasamir, metnaðarfullir og fróðleiksfúsir. Ég var leyst út með svakalega fínni bók um Holland - ég held ég sé komin með Hollandsbakteríu, myndirnar voru að minnsta kosti verulega heillandi. Fyrir þá sem hafa áhuga á að lesa erindið sem ég flutti getið smellt hér.

Á föstudaginn verðum við Alma á setningarathöfn Listar án landamæra. Þessi hátíð er haldin nú í 5. sinn og verður alltaf glæsilegri og glæsilegri. Við í Þjóðarsálinni tókum þátt í henni í fyrra og sýndum atriði úr sýningu okkar í Borgarleikhúsinu ásamt mörgum öðrum. Það var ógleymanlegt kvöld og hreint magnað andrúmsloft og stemning í öllum. Ég hvet ykkur til að fylgjast með dagskrá hátíðarinnar - margt mjög spennandi framundan.

Þennan sama dag er einnig ráðstefna á vegum Félags um fötlunarrannsóknir og Rannsóknaseturs í fötlunarfræðum. Yfirskriftin er Fötlun, sjálf og samfélag og hlakka ég mikið til að fara og heyra alla þá áhugaverðu og mikilvægu erindi sem þar verða.

Á laugardaginn er stefnan tekin á fyrirlestra-upplestur, mín helsta nýjung, að prófa að blanda þessu saman - en um er að ræða leikskólabrú í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Því miður verður Alma ekki með í för en hún verður með sjálfsstyrkinganámskeið á Selfossi sem er auðvitað frábært. Hægt er að kynna sér það hér.

Góðar stundir,

Freyja


Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband