,,Gríðarlegt vesen að standa í" ... Áttu annann betri?

hkh0144l

Vikurnar líða og bloggfærslugleðin hér er ekki upp á sitt besta. Það er nú bæði vegna mikilla anna hjá okkur báðum en það hefur líka ekki verið neinn skrifþörf upp á síðkastið. Við erum örugglega báðar búnar að óverdósa á verkefnaskilum og skrifum.

Rólegra hefur verið um upplestra hjá okkur enda líður nú að prófum í flestum skólum. Við erum þó byrjaðar að fá töluverðar bókanir um að koma í lok maí þegar mesta stressið er búið. Ég er aðeins í fyrirlestrum núna, þeir koma í bylgjum, en ég heimsótti í gær Hringsjá en þar er boðið upp á náms- og starfsendurhæfingu. Það var tekið virkilega vel á móti mér og átti ég og vonandi allir góða stund. Þetta var einn af þeim fyrirlestrum sem ég kom endurnærð út því mikið var um umræður og góðar spurningar. Hismið í fyrirlestrinum að þessu sinni var sjálfsmynd og því pældum við mikið í öllum hliðum hennar, skilaboðum frá umhverfinu, hvernig við tökum þeim og hugsum um okkur sjálf. Takk fyrir mig!!!

En yfir í allt annað. Síðastliðið þriðjudagskvöld sýndi Kompás snilldarlega unnin þátt um aðgengismál hreyfihamlaðs fólks (og í raun allra) á Íslandi. Þeir fylgdu m.a. eftir Guðjóni Sigurssyni og Ragnari Þór Valgeirssyni sem báðir eru mikið hreyfihamlaðir og notast við hjólastól í gegnum daginn.. já og kvöldin. Guðjón heimsótti Akureyri og átti þar í tómu basli við að komast til læknis, fara á kaffihús og gera allt sem hann þurfti að gera - lyfta virkaði ekki, stigar voru víðsvegar og kantar nánast alls staðar. Ragnar skrapp á Laugaveginn og þar blasti það sama við. Viðbrögð þeirra sem áttu hlut að máli, eigendur verslana og starfsfólk ýmsa staða voru misjöfn við myndatökumönnum sem hlífðu náttúrlega engum. Flestir hrukku í mikla vörn, aðrir þóttust vera að fara kaupa/gera skábraut helst í gær, enn aðrir voru með stæla. Einn sagði að það að hafa aðgengi inn í verslun sína ,,væri gríðarlegt vesen að standa í." Að minnsta kosti einn viðurkenndi um hve alvarlegt mál er að ræða, keypti sér brautir og þakkaði Kompás fyrir áminninguna. Hann var sko minn maður!!!

Þó umræðuefnið sé alvarlegt tókst Guðjóni, Ragnari og umsjónarmönnum þáttarins að hafa húmor. Það að ég, og aðrir í minni stöðu, komist ekki hvert sem við kjósum að fara er auðvitað fáránlegt - í raun svo fjarstæðukennd staðreynd að það er bara ekki annað hægt en að hlægja, miklu auðveldara þegar upp er staðið (setið).

Þegar ég kem í umhverfi sem er ekki aðgengilegt fyrir mig upplifi ég mig vanmáttuga, ekki velkomna, jafnvel fyrir og vandamál. Þessar tilfinningar brjótast ósjálfrátt um þó ég viti vel að ég sé ekki vanmáttug nema að ég ákveði það sjálf, stigar og kantar eru fyrir en ekki ég sjálf og vandamálið liggur í hindrunum umhverfisins. En þegar fólk telur það ,,gríðarlegt vesen að standa í" að breyta umhverfinu er það að ákveða að mismuna fólki, sýna því óvirðingu og svipta það frelsi til almennra lífsgæða og þátttöku. Ég vil benda ykkur á gamla bloggfærslu sem ég skrifaði í fyrra þegar ég heimsótti Háskóla Íslands hér. Sú heimsókn er með þeim ógleymanlegustu heimsóknum sem ég hef upplifað.

Ég hvet ykkur til að horfa á þáttinn hér ef þið eruð ekki nú þegar búin/nn að því.

Við erum öll ábyrg!!!


Athugasemdir

1 Smámynd: Lovísa

Frábært færsla, og gott framtak hjá Kompás mönnum að vekja athygli á þessu.

Lovísa , 11.4.2008 kl. 09:44

2 identicon

Hej,

vildi benda þér á þessar teiknimyndir: http://www.dizabled.com/

svo er einn listamaður sem er í miklu uppáhaldi hjá mér og heitir Bill Shannon eða Crutch og það er fullt af geeeeeðveikt flottum klippum frá honum á youtube.

kv, Kristín

Kristin Björnsdóttir (IP-tala skráð) 11.4.2008 kl. 11:18

3 Smámynd: Aðalheiður Þórisdóttir

"En þegar fólk telur það,,gríðarlegt vesen að standa í,, að breyta umhverfinu er það að ákveða að mismuna fólki, sýna því óvirðingu og svipta það frelsi til almennra lífsgæða og þátttöku"

Svo sannarlega! 

Ég hef lent í rökræðum við manneskju með nákvæmlega þetta hugarfar, alveg til skammar og ekki síður skammarlegt vegna þeirrar stöðu sem hún gegnir! 

Sólarkveðja,

Aðalheiður Þórisdóttir, 11.4.2008 kl. 13:45

4 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Þetta var góður pistill hjá þér Freyja. Auðvitað ættu verslunareigendur og aðrir er reka þjónustu og hið opinbera ekki að fá leyfi nema hafa aðgengið í lagi.

Það er bara ekki flóknara en það að mínu mati .

Kristbjörg Þórisdóttir, 11.4.2008 kl. 17:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband