,,If you want to be first class, you have to behave first class."

tn_RandySpeaks 

Fyrir tæpum fjórum árum síðan sat ég í risastórum sal í Bandaríkjunum og hlustaði á opnunarfyrirlestur á osteogenisis imperfecta ráðstefnu, fyrirlestur sem breytti lífi mínu. Fyrirlesarinn var 37 ára myndarlegur maður sem gat ekki verið kyrr í eina sekúndu upp á sviðinu. Hann talaði í tvær klukkustundir en það leið eins og tvær mínútur. Hann sagði frá barnæsku sinni, beinbrotunum, unglingsárunum og því lífi sem hann lifði. Hann snéri öllu neikvæðu upp í jákvæða brandara, sagði dæmisögur sem snéru viðhorfi hlustenda í marga hringi. Sumir grétu, aðrir hlógu. Ég gerði bæði.

Á fyrirlestrinum var tólf ára drengur sem var mjög mótfallinn því að vera á ráðstefnunni. Foreldrar hans höfðu nánast dregið hann á eyrunum því hann kærði sig sko ekki um að hitta eitthvað fatlað lið og vera með því í þrjá heila daga. En fyrirlesturinn breytti viðhorfi hann því hann fór sáttur inn í þessa þrjá daga eftir þessa góðu opnunarstund. Ætli hann hafi ekki bara verið svolítið stoltur, eins og ég.

Eftir þann tilfinningarússíbana sem þessir tveir klukkutímar voru var ég útgrenjuð en með hlaupasting eftir hlátursköstin. Skrítið, ég veit. Ég hafði orð á því við mömmu og pabba að mig langaði að tala við þennan mann, var sjálf aðeins byrjuð að vera með fyrirlestrana mína. Ég þorði samt ekki að eiga frumkvæðið af því svo pabbi bað hann að koma og hitta mig. Daginn eftir sátum við góða klukkustund tvö saman og ræddum heima og geima, þá helst fyrirlestrastand. Hann sagði mér frá starfi sínu sem kennari og leiðbeinandi, hann hafði starfað út um öll Bandaríkin. Hann sagði mér að verða ekki ein af þeim sem segðust ætla að gera fullt af hlutum og gera þá svo ekki. Hann benti mér á hversu stóra gjöf ég hefði fengið í vöggugjöf, ég skildi hann ekki fyrst, þá var hann að meina fötlun mína, osteogenisis imperfecta. Við hittumst nokkrum sinnum það sem eftir lifði ráðstefnunnar og hann sagði mér að hann ætlaði að hitta mig eftir tvö ár og þá ætti ég að segja honum frá öllu því sem ég væri búin að afreka.

Við hittumst aftur eftir tvö ár og þá stóð ég undir væntingum hans, var á leið í framhaldsskóla landsins með fyrirlesturinn Það eru forréttindi að lifa með fötlun. Hann deildi því með öllum ráðstefnugestum í lokaerindi sínu það árið - ég hef aldrei farið jafn mikið hjá mér á ævinni (ég hef oft farið hjá mér samt).

Þessi maður sem breytti lífi mínu - sparkaði í rassinn á mér og ég hét því í kjölfarið að koma aldrei með innantómar yfirlýsingar um hvað ég ætlaði að afreka - kenndi mér að nota gjöfina mína allra stærstu og veitti mér það mikinn innblástur að það er varla til orð yfir það lést síðastliðinn mánudag, 41 árs að aldri. Hann fékk e-rskonar sýkingu sem réðst á ónæmiskerfið og lagði hann að velli.

Ég veit ekki alveg hvernig mér líður, ég er gjörsamlega tóm eftir að hafa fengið fréttirnar nú seinnipartinn í dag. Þó ég hafi einungis hitt hann þessi tvö skipti með tveggja ára millibili á hann risastóran stað í hjarta mér. Ég var farin að hlakka til að hitta hann núna á ráðstefnunni í Washington og vonaðist eftir að hann héldi fyrirlestur, því þá hefði ég komið tvíefld heim. En lífið spyr ekki að því.

Ég veit að hann myndi segja mér að hætta þessari væmni núna svo ég ætla að gera það. Ég náði aldrei að segja honum með berum orðum hversu mikið hann hefur hrist upp í mér en í staðin segi ég ykkur það. Ég er ólýsanlega þakklát fyrir að hann hafi orðið á vegi mínum því annars væri ég ekki svona sátt við lífið í dag. Eins og mamma orðaði það áðan ,,Maðurinn sem blés í þig lífið."

Það sem situr mest eftir af orðum hans er; If you want to be first class, you have too behave first class. Þeim orðum deildi ég með fullum þingsal af fólki í Portúgal í haust og deili því nú með ykkur. Þessi orð hafa svo mikið sannleiksgildi því með öðrum orðum má segja þetta á þann hátt að ef við viljum öðlast virðingu frá heiminum, verðum við að bera virðingu fyrir okkur sjálfum.

Takk Randy Graise - heimurinn er fátækari án þín!


Athugasemdir

1 identicon

Samhryggist þér innilega með fráfall vinar....

Hildur (IP-tala skráð) 1.2.2008 kl. 21:35

2 Smámynd: Dísa Dóra

Samhryggist þér kæra Freyja vegna fráfalls vinar þíns.

Svo mikið til í þessari setningu hans og takk fyrir að byrta hana hér - ég ætla að hafa hana í huga hér eftir

Dísa Dóra, 1.2.2008 kl. 22:09

3 identicon

Samhryggist þér Freyja mín! Það fór ekki fram hjá neinum hversu mikið hann Randy hreifði við þér. Hann fylgist núna með þér, halda áfram með það sem varð að hans ævistarfi! Fallega skrifað hjá þér. Kossar og knús, Huld.

Huld Hafsteinsdóttir (IP-tala skráð) 2.2.2008 kl. 00:33

4 identicon

Freyja mín, ég veit að Randy markaði djúp spor í líf þitt, missir þinn er meiri en marga grunar.  Ég varð þess aðnjótandi að hitta þenna geðþekka mann, man alltaf þegar við hittum hann fyrst, þú að farast úr stressi að hitta hann, en á einni mínútu var hann búinn að heilla okkur upp úr skónum með heillandi viðmóti og glaðværð og hlátri sem smitaði alla í kring.  Mikið rosalega gaf hann mikið af sér.  Ég man að hann sagði við mig í fyrra " This girl is something!!! she is going to take my job one day" og svo hló hann og hló og hló og hló... Haltu draumum hans áfram, lifðu lífinu lifandi og haltu áfram að vera þú sjálf, og haltu áfram að vera hetjan mín. kveðja Pabbi. PS: Hafðu það rosalega gott í vikunni gullið mitt.

Haraldur Árnason (IP-tala skráð) 2.2.2008 kl. 03:03

5 Smámynd: Björg K. Sigurðardóttir

Ég samhryggist þér vegna fráfalls vinar þíns.

Alveg er ég viss um að einn góðan veðurdag átt þú eftir að halda fyrirlestur á OI ráðstefnu og veita fullt af fólki sama innblástur og Randy gaf þér. 

Björg K. Sigurðardóttir, 2.2.2008 kl. 10:51

6 identicon

Ég samhryggist þér Freyja mín.  Mundu að þú ert öðrum það sem hann var þér. 

Kv Alla

Aðalheiður Þórisdóttir (IP-tala skráð) 2.2.2008 kl. 12:28

7 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Þetta hefur verið mikið vel gerður maður. Það kostar kjark að sjá hið góða í öllum hlutum í stað þess að leggja árar í bát..sem er jú oft, miklu miklu einfaldara. Fólk þarf ekki að vera með OI til að gefast upp.  Megi þér auðnast heilsa og líf til að geta gefið svo mikið af þér til ófatlaðra sem og fatlaðra, eins og hingað til.

Gangi þér allt í haginn og ég samhryggist þér vegna fráfalls þessa manns. 

Rúna Guðfinnsdóttir, 3.2.2008 kl. 21:46

8 identicon

Elsku Freyja mín, þetta eru dapurlegar fréttir, ég samhryggist þér innilega.  Þessi maður hefur greinilega haft mikil áhrif á þig og verið þér mikil fyrirmynd.  En ef ég þekki þig rétt þá munt þú ekki leggja árar í bát heldur tvieflast við þetta og halda áfram af enn meiri krafti (þ.e. ef það er hægt að vera kraftmeiri og framtakssamari en þú ert nú þegar!)  í öllu því sem þú ert að gera núna og langar til að gera í framtíðinni.  Gangi þér vel, sendi þér hlýjar hugsanir frá Akranesi.

Edda (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 11:39

9 identicon

Votta þér samúð mína, kæra Freyja.

Það er nokkuð ljóst að þessi stórkostlegi maður mun lifa í hjörtum margra um ókomna tíð og þannig áfram hafa góð áhrif á aðra. Þú ert ein af þeim.

Olga Björt (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 16:44

10 identicon

Það er ekkert smá sem þessi maður hefur kennt þér og ég sé að það er líka mikill stuðningur við þig og ég bæti mér svo sannarlega í þann hóp. Freyja þú ert frábær og ég dáist af kröftum þínum. 

Um leið vil ég votta þér samúð mína vegna fráfalls þessa manns sem hafði blásið í þig lífi.

Gangi þér ávallt sem best og haltu áfram á þinni fábæru braut

Kveðja 

Berglind Elva

Berglind Elva (IP-tala skráð) 4.2.2008 kl. 17:21

11 Smámynd: Ásta María H Jensen

Ég samhryggist vegna fráfall þessa manns sem hafði svo mikil áhrif á líf þitt og harma að hafa ekki notið þeirra gæfu að hafa fengið að kynnast honum.

Ásta María H Jensen, 6.2.2008 kl. 20:56

12 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Ég votta þér samúð Freyja.

Ég mun geyma þessi orð hjá mér því þau kenna manni mikið. Takk fyrir að deila þeim.

Þú heldur starfi hans áfram.

Kristbjörg Þórisdóttir, 14.2.2008 kl. 00:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband