Að blogga um börnin sín

valliam 

Í bloggheiminum leynist margt, bæði gott og slæmt. Þegar ég hef dottið inn á bloggsíður kem ég stundum auga á mikla vitleysu, virðingaleysi, ljótan orðaforða og niðurlægjandi skrif. Á öðrum bloggsíðum heillast ég af áhugaverðum manneskjum, lærdómsríkum pistlum og hugrökkum bloggurum sem þora að deila lífi sínu, hugsjónum og reynslu með öðrum.

Margir foreldrar eru farnir að blogga um veikindi eða fötlun barna sinna og gera það á jafn misjafnan hátt og þeir eru margir. Ég skoða mörg þessara blogga og læri margt af þeim. Sum þeirra upplifa ég sem námsbók sem við getum drukkið í okkur þekkingu með því að lesa meira og meira því þar voru skrif sem vekja aðrar spurningar.

Svo stundum hætti ég að lesa bloggin. Mér finnst þau ekki vera skrifuð af virðingu, í trúnaði við börnin. Þau innihalda orðalag sem geta verið niðurlægjandi, gefið brenglaða mynd af barninu og öðrum í sömu sporum og einblínt einungis á veikindin eða fötlunina - en ekki barnið sjálft.

Börn sem fæðast fötluð fæðast eru alveg jafn mikil börn og ,,ófötluð" börn. Þau hafa að geyma persónu og karakter sem er í raun merkilegri en allt annað. Börn sem veikjast eru líka ennþá börn, þó þau stundum ,,breytist" vegna mikils álags, lyfjagjafa og annarra erfiðleika. Innst, innst inni, er það þó samt bara barnið.

Nánast allir foreldrar fá mikið hrós frá lesendum, alveg sama hvernig þeir skrifa. Ef foreldrar frá gagnrýni verja þeir sig oft með þeirri staðreynd að lesandinn höndli ekki raunveruleikann. Auðvitað er það oft raunin, við viljum ekki ,,trúa" því að veruleikinn geti verið grimmur og harður.

Mér finnst samt mikilvægt að foreldrar sem taka þá ákvörðun um að blogga um áskoranir barna sinna þurfi að hugsa sig vel um áður en þeir ýta á hnappinn sem birtir færsluna þeirra. Þá er ég ekki að meina að það þurfi að skrifa undir rós eða skafa af raunveruleikanum, því er ég algjörlega mótfallinn. Við þurfum að horfast í augu við hann. Hins vegar getum við skrifað um allar hliðar raunveruleikans, bæði gleði og sorg, á svo misjafna vegu.

Þegar fólk skrifar um sjálft sig er ég aldrei að pæla í þessum hlutum, því það er meðvitað um það sem það setur frá sér. Á hinn bóginn vita börnin aldrei hvað foreldrarnir eru að skrifa um þau. Þau gefa líklega sjaldan samþykki sitt og hafa kannski ekki dómgreind ennþá til að geta tekið ákvörðun. Því finnst mér mjög mikilvægt að foreldrar sem blogga um börnin sín spyrji sig eftirfarandi spurninga:

  1. Ef barnið mitt mun lesa bloggfærsluna einhvertíma, hvernig mun því líða?
  2. Ef þetta væri skrifað um mig, hvernig myndi mér líða?

Ég vona að foreldrar haldi áfram að blogga um börnin sín, tilfinningar sínar og þann raunveruleika sem það býr við - samfélagið og hin almenni Jón Jónsson (ef hann er þá til) þarf á því að halda. Ég vona líka að skrifin séu af meðvitund og virðingu við barnið.

- Freyja


Athugasemdir

1 Smámynd: Thelma Ásdísardóttir

Vel mælt Freyja, eins og talað út úr mínu hjarta.

Thelma Ásdísardóttir, 7.1.2008 kl. 22:10

2 identicon

Tek undir athugasemdina hér á undan og dáist af því hvað þú skrifar af mikilli nærfærni og visku um viðkvæmt málefni.

Jóna Lísa Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 22:19

3 identicon

Já þarna hitturu svo sannarlega naglan á höfuðið Feyja! Þessar pælingar þínar eiga líka við þegar foreldar (og aðrir) eru almennt að tala um börnin sín, hvort sem þau eru fötluð eða ekki, á blogginu eða spjalli á förnum vegi.  Finnst þessi setning passa vel við "aðgát skal höfð í nærveru sálar". 

Var að uppgötva bloggið ykkar, á örugglega eftir að kíkja hér inn oft, takk fyrir að deila með ykkar pælingum. 

Gerður

p.s. er einmitt að lesa bókina og get varla látið hana frá mér á kvöldin, mjög svo áhugavert að lesa um tilveru þína frá þínu sjónarhorni Freyja sérstaklega þar sem ég starfa í "fötlunargeiranum"

Gerður (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 22:25

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Sæl Freyja, vel skrifað. Mig mundi langa til að vita um hvaða blogg þú ert að fjalla. Ég les ýmis blogg en ekki þau þar sem fjallað er um veikindi, ég man t.d. ekki, í fljótu bragði, eftir neinum sem bloggar um barnið sitt, sem er einhverft, nema hana Jónu Á, ertu að meina hana.? Lagnar bara til að vit það, því þú þekkir hlið þolandans og er að velta fyrir mér hvort þér finnist rangt það sem Jóna er að gera. Kær kveðja

Ásdís Sigurðardóttir, 7.1.2008 kl. 22:34

5 Smámynd: Ólafur fannberg

vel skrifað og gleðilegt ár

kveðja frá neðansjávarheimum

Ólafur fannberg, 7.1.2008 kl. 22:36

6 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Vel mælt - takk fyrir góðan pistil.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 8.1.2008 kl. 00:00

7 Smámynd: Dísa Dóra

Mjög góður pistill hjá þér og sannarlega eitthvað sem við ættum að hafa í huga.  Góð ábending.

Dísa Dóra, 8.1.2008 kl. 09:13

8 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Þetta er svo mikið rétt hjá þér Freyja og ekki myndi ég vilja lesa sem fullorðin manneskja lýsingar um mig og og hvernig vísað væri til mín sem manneskju á sama hátt og maður hefur séð á blogginu. Bloggið á sér jafn margar skuggahliðar og ljósar hliðar, því miður.

Kristbjörg Þórisdóttir, 8.1.2008 kl. 18:53

9 Smámynd: Þórunn Eva

vel mælt...  

Þórunn Eva , 8.1.2008 kl. 20:28

10 identicon

Kæra Freyja

Um leið og ég óska þér gleðilegs árs langar mig að þakka þér fyrir þennan pistil - hans var þörf!

Kær kveðja

Habbó 

Habbó (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 21:32

11 Smámynd: Nanna Katrín Kristjánsdóttir

Mikið er þetta góð áminning fyrir alla og svo vel skrifað.  Ég sjálf tók þá ákvörðun að forðast að fjalla beint um einstaklingu sem ég þekki eða nafngreina fólk almennt. 

Ég dáist að þeim sem ná að fjalla um sína á fallegan og árangursríkan hátt.  Þann hátt að það hjálpar öðrum og kennir.  Má þar td. nefna Höllu, Jónu og síðast en ekki síst Hetjuna Áslaugu Rut sem fjallar á svo fallegan hátt um Þuríði sína og systkynin.

Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 8.1.2008 kl. 21:49

12 identicon

Sæl Freyja.Mikið er ég sammála þér,takk fyrir þessa færslu.Ég gat ekki stillt mig um að kommenta á eitt svona blogg og ég var svoleiðis úthúðuð fyrir þessa skoðun enda ekki sett fram á jafn góðan hátt og þú gerir :)  Ég vildi að ég væri jafn vel máli farin og þú ;)  Kveðja María

María (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 23:07

13 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Ég hef kíkt á einstaka veikindasíður og flestar eru bara fínar. Get þó ekki að því gert að mér finnst að svolítið beri á, að meira sé skrifað aumingja ég að eiga svona veikt barn  heldur en barnið sjálft. Það pirrar mig. En auðvitað skal vanda til verks þegar svo viðkvæm mál  eru rædd. Góður pistill, alltaf gaman að líta við

Rúna Guðfinnsdóttir, 9.1.2008 kl. 18:46

14 Smámynd: lady

vel mælt hjá þér elsku freyja mín já  börn geta ekki svarað fyrir sig þetta var svo vel skrifað hjá þér að ég las þetta aftur og aftur takk takk

lady, 9.1.2008 kl. 18:51

15 Smámynd: Áslaug Ósk Hinriksdóttir

Ég sem móður langveiks barns þá reyni ég alltaf að vanda mig hvað ég skrifa um barnið mitt og vill svara henni Rúnu að henni finnst fólk skrifa oft "aumingja ég að eiga svona veikt barn" .  Nei ég vorkenni ekki sjálfri mér að eiga alvarlega veikt barn en þá tekur þetta á allar taugar og engin getur sett sig í okkar spor (foreldrana).  Ég finn ofsalega til með hetjunni og það er ofsalega erfitt að horfa uppá barnið mitt þjást alla daga og ef ég gæti þá myndi ég taka þetta allt yfir á mig og oft á tíðum er erfitt að halda höfði vegna ásands hetjunnar.

Takk fyrir skrif þín Freyja, ég lít oft inná síðuna ykkar og takk fyrir bókina sem gaf mér ofsalega mikið.  Einsog þú skrifaðir hvernig foreldrunum þínum leið þá fannst mér oft ég vera lesa um líðan minn í gegnum okkar stríð þó það sé alls ekki eins.

Knús til þín
Áslaug

Áslaug Ósk Hinriksdóttir, 9.1.2008 kl. 20:23

16 identicon

Ég er ekki sammála þér Rúna með þetta "aumingja ég að eiga svona veikt barn". Ég held að nánast enginn foreldri sem á langveikt barn tjái sig á þennan hátt, það er ekki hægt, allavega ég hef hvergi séð það hér á blogginu. Ef svo er, þá er viðkomandi ekki hæfur til að eiga barn að mínu mati. Allir foreldrar vilja iðulega færa eitthvað ef ekki allan sársauka yfir á sjálfan sig í stað þess að sjá barn sitt þjást líkt og Áslaug segir hér á undan.

Annars er þetta góður pistill hjá þér Freyja og kannski þarfur.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 9.1.2008 kl. 20:34

17 Smámynd: Guðrún Erla Sumarliðadóttir

Frábærlega skrifað Freyja ! Kveðja Erla  

Guðrún Erla Sumarliðadóttir, 10.1.2008 kl. 13:58

18 identicon

Var einmitt að lesa svona færslu um daginn, um strák sem er með dóttur minni í bekk....

Núna veit ég allt um hann, eitthvað sem að ég átti ekki að vita(ofv, kvi, hræd, missþ, lyf og meira), það var vitað að hann væri ekki í orden, en ég á ekki að vita svona mikið :)

kristjana birgisdottir (IP-tala skráð) 10.1.2008 kl. 14:14

19 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Já Áslaug mín , ég trúi þér vel og get sett mig í þín spor að talsverðu leiti. Ég átti langveikt barn og þó það sé orðið uppkomið, eru  veikindin þess enn að setja skugga á okkar líf. Læknaferðir margar og aðgerðirnar taka á alla, það þekki ég. Gangi ykk.ur vel.

Rúna Guðfinnsdóttir, 13.1.2008 kl. 17:43

20 identicon

Mjög þarfur og góður pistill. Takk fyrir hann. Þú ferð svo mátulega varfærnislega orðalagið, eins og þér er vel lagið.

Þessir punktar sem þú hvetur foreldra til þess að íhuga þegar þeir skrifa um börnin sín eru akkurat það sem skiptir svo miklu máli.

Við lærum svo mikið af þessum hetjum, foreldrunum og börnum þeirra.

Olga Björt (IP-tala skráð) 14.1.2008 kl. 13:22

21 identicon

Afskaplega vel skrifað hjá þér Freyja og ég er svo hjartanlega sammála þér. Sjálfri finnst mér fólk hreinlega ekki hafa rétt á að skrifa um þriðja aðila og hans erfiðleika, veikindi o.s.frv. Það sér það hver manneskja í hendi sér að þú skrifar ekki um erfið veikindi lítils barns með lýsingum á vanlíðan barnsins og tilfinningum þess. Þótt margir hér séu óssamála Rúnu um að henni finnist fólk vera í  sjálfsvorkunn þá þykist ég skilja hvað hún er að meina. Mér finnst enginn, og ég ítreka ENGINN, hafa rétt á að fjalla um tilfinningar og líf annarra en sjálfs síns á opinberum vettvangi. Og ég spyr eins og þú Freyja: Langar þessi börn að lesa um sjálf sig síðar? Þú ert sjálf búin að standa í þeim stórræðum og dugnaði að skrifa bók. Hvernig myndi þér líða ef Alma tæki upp á því að blogga um það sem ykkur fór á milli og fór ekki í bókina? Eða að þú færir að blogga um líðan Ölmu hina og þessa daga? Og veistu það, mér finnst miklu alvarlegra þegar börn eiga í hlut. Mér finnst beinlínis ljótt að fjalla um veikindi barna. Reglan á alltaf að vera sú að maður skrifi ekki um þriðja aðila nema af þeim skrifum megi læra og þau nýtist þeim sem lesi. Fólk getur skrifað hvað sem það vill um sjálft sig, enda ber það ábyrgð á eigin lífi, en í guðanna bænum, hlífið börnunum. Takk. Kær kveðja

Anna (IP-tala skráð) 20.1.2008 kl. 13:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband