,,Öllum áföllum fylgir einhver hamingja."

 Pallborðsumræður að loknum erindi 

Við Alma vorum að koma af ráðstefnunni ,,Manna börn eru merkileg" sem var haldin á Grand hótel í dag en þar flutti ég erindi um upplifun mína af því að vera fatlað barn. Landssamtökin Þroskahjálp stóðu fyrir þessum atburði.

Á ráðstefnunni var talað um barnið sjálft, manneskjuna á bakvið fötlunina. Skerðing barna er alltaf í hávegum höfð í stað þess að horfa framhjá henni og sjá karakterinn og persónuleikan, það var gert í dag.

Þarna töluðu fötlunarfræðingar, fagfólk, umboðsmaður barna og margir aðrir. Við heilluðumst báðar mikið af Sigurði Sigurðssyni þroskaþjálfa sem er faðir fatlaðrar stúlku. Hann talaði um reynslu sína sem foreldri af stakri einlægni, reisn og jákvæðni - slíkt er alltaf gaman að heyra. Orð hans voru mjög falleg; ,,Það er lúxus að eiga fatlað barn" ,,Öllum áföllum fylgir einhver hamingja" og ég held að það segi flest sem segja þarf um hans viðhorf.

Þroskahjálp mun birta þessi erindi á síðu sinni næstu daga og látum við ykkur vita þegar við sjáum að þau eru komin inn.

null 

Yfir í allt annað, þið hafið líklega tekið eftir þessum bleiku sveppum hér að ofan sem eru út af fyrir sig ekkert sérstaklega smart en okkur langar að leggja okkar að mörkum og minna á BLEIKU SLAUFUNA, átakið um brjóstakrabbamein. Þess vegna viljum við vera bleikar og þetta er eina útlitið í þeim lit. Við látum því "kúlið" að sjálfsögðu fjúka fyrir góðan málstað!

Sérstakar þakkir sendum við til ykkar sem eruð að lesa og skrifa svona fallega hér, það er okkur ómetanleg hvatning. Þessi opinberun með bókinni er stórt skref fyrir mig svo að ykkar orð eru okkur mikils virði.

Eigið þið kózý laugardagskvöld,

- Freyja


,,Manna börn eru merkileg

Landsþing Þroskahjálpar hófst á fimmtudaginn, en á morgun verður ráðstefna haldin á Grand Hótel undir yfirskriftinni ,,Manna börn eru merkileg". Við Freyja ætlum að fara saman, en hún verður með erindi um fötluð börn og fjölskyldur þeirra klukkan tvö og tekur svo þátt í pallborðs umræðum í kjölfarið. Ég er spennt að heyra erindið hennar og ég ætla að plata hana til að birta hluta af því hér á síðunni eftir helgi. Fyrir þá sem vilja kynna sér dagskrá morgundagsins er hún hér.

Eigið góða helgi,

Kv. Alma


Bréf frá hlustanda


Þetta bréf barst frá hlustanda eftir viðtalið á sunnudag;

Sæl Valdís, ég ætlaði að þakka þér fyrir viðtalið við Freyju
Haraldsdóttur. Hún er sönn HETJA,þvílíkt sem hún gaf til manns í þessu
viðtali. Maður er hrærður og snortinn yfir því sem hún hafði að gefa til
manns. Ég hef verið að ræða um þetta viðtal við fólk, sem einnig heyrði
þetta viðtal, og allir eru þessum orðum hér að framanrituðu sammála. Það
væri öllum mannbætandi að hlusta á þessa ungu stúlku. Ætla að panta
bókina í jólagjöf, vel lesið úr bókinni hjá Ölmu. Kærar þakkir.

Það er mikils virði þegar fólk lætur í sér heyra..

Við þökkum kærlega fyrir okkur!!

Kærar kveðjur,

Alma og Freyja


Viðtalið komið á netið

Sælt gott fólk

Mikið er veðrið yndislegt þessa dagana, eitthvað annað en rokið og rigningin. Það er vonandi að það haldist!

Viðtalið á Bylgjunni hjá Valdísi Gunnars er nú komið á netið og getið þið smellt hér til að hlusta. Alma kom inn í síðasta hluta viðtalsins og las upp úr bókinni svo þetta var fjölbreytt og notaleg morgunstund. Bakið er komið í gott horf, held þetta hafi verið afleiðing af miklu hamri á lyklaborðið á tölvunni og stressi. Ótrúlegt en satt fæ ég stundum í bakið af stressi.

Annars er allt á fullu, við að lesa yfir fyrir umbrotið, vorum að velja myndir til að hafa inn í bókinni hjá Sölku í dag og erum í stöðugum pælingum í sambandi við kápuna. Þetta er allt mjög spennandi og við höldum ótrauðar áfram.

Við höldum ykkur upplýstum. Wink

Njótið lífsins!


Annasöm helgi

Það var brjálað að gera hjá okkur Freyju um helgina. Við höfum meira og minna verið saman frá því á laugardagsmorgun að fara yfir handritið. Við tókum okkur rétt svo pásu til að borða kvöldmat í gærkvöldi en héldum svo áfram fram yfir miðnætti. Þá fórum við hugsa um útvarpsþáttinn í morgun, en Freyja var viðmælandi Valdísar á Bylgjunni. Á leiðinni í viðtalið í morgun fékk Freyja svo hryllilega í bakið að hún vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Tímasetningin var náttúrulega alveg einstök þar sem aðeins voru nokkrar mínútur í að Freyja átti að vera í loftinu, en sem betur fer leið verkurinn hjá og hún gat andað léttar þegar hún mætti í hljóðverið. Stíf vinna við tölvuna undanfarið hefur líklega átt sinn þátt í þessu en fartölvurnar eru nánast orðnar samgrónar við hendurnar á okkur. Freyja stóð sig frábærlega í viðtalinu eins og hennar er von og vísa, en þetta var hvorki meira né minna en tveggja og hálfs tíma þáttur. Við þökkum þeim sem hlustuðu á viðtalið og vonum að þeir hafi notið vel, en við munum setja link inn á heimasíðu bylgjunnar innan skamms, þar sem hægt verður að hlusta á viðtalið í fullri lengd.

Bestu kveðjur, Alma


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband