Íslenskt eðal-stress í hamárki
8.11.2007 | 10:35
Hér er allt á fimmta hundraðinu. Alma er á æfingum með Nylon á milli þess hún les Postulínið okkar inn á hljóðbók sem kemur út á sama tíma og bókin sjálf, enda ekkert annað í stöðunni en að hún sé aðgengileg fyrir alla strax.
Ég hringsnýst í náminu sem ég hef sinnt af hálfum hug hingað til en er að sjá fram á að það er ekki nóg svo nú er bara harkan sex - lesa, glósa, lesa, glósa, lesa, glósa, lesa, glósa á öllum mögulegum tímum sólarhringsins. Tvö ritgerðarskil framundan og 70% próf í desember í sálfræði.
Annars er barnið okkar Ölmu loksins flutt að heiman (farið í prentun) og mun koma í sölu í vikunni 19-23. nóvember svo nú er ekki eftir neinu að bíða við að plana kynningar, upplestra og önnur skemmtilegheit. Hægt er að hafa samband við okkur á almaogfreyja@forrettindi.is ef áhugi er fyrir upplestri á vinnustað, samtökum, klúbbum og við ýmis tilefni. Við erum nú í óðaönn að bóka.
Í kvöld verðum við með upplestur hjá Einstökum börnum, hagsmunafélagi barna með sjaldgæfa og alvarlega sjúkdóma. Um er að ræða fund félagsmanna og hlakkar okkur mikið til. Annað kvöld er svo upplestur í félagsmiðstöð á stelpukvöldi en þar munum við vera ásamt Mörtu Maríu og Þóru sem lesa upp úr unglingabók sinni Ef þú bara vissir. MAC verður einnig á sínum stað svo ég geri ráð fyrir mjög notalegu kvöldi.
Mitt helsta markmið er að muna eftir myndavél þar sem ég hef ekki staðið mig vel í þeim efnum undanfarið - batnandi mönnum er þó best að lifa .... þ.e.a.s. ef þeim fer batnandi sem kemur í ljós næstu kvöld.
Nú er ég farin að skrifa ritgerð um unglinga með fötlun sem á að skilast fyrir miðnætti. Þó fyrr hefði verið.
Eigið góðan dag!
Kv. Freyja
Við í hnotskurn!!!!!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Frétt á visir.is
6.11.2007 | 23:27
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sannleikurinn
4.11.2007 | 22:37
Ég fór út að borða með fjölskyldunni í kvöld, ekki að það sé frásögufærandi. Þegar við sitjum í makindum okkar að bíða eftir matnum kemur lítil stúlka og horfir mikið á mig, brosir feimnislega og fer svo aftur. Þetta endurtekur sig nokkrum sinnum og fannst mér það mjög krúttlegt. Mömmu hennar fannst þetta ekki eins sætt og var sífellt að segja henni að koma og kemur sér undan að svara spurningum stúlkunnar en segir svo á endanum; ,,Já, já, hún er bara að hvíla sig."
Uuu, jú, jú, ég var mjög afslöppuð en ekki sofandi né í neinni hvíld. Ég hef oft upplifað svona athugasemdir frá foreldrum áhugasamra barna og sumir ganga svo langt í eigin þægindahring að þeir segja ,,Hún er bara að lulla í vagninum sínum."
Ég veit vel að börn eru einstaklega opin og stundum pínu vandræðalegt sumt sem þau segja en ég er ekki alltaf sofandi né annað fólk með fötlun. Það er ekkert hættulegt að útskýra fyrir börnum sannleikann, að fólk sé ólíkt.
Þessi móðir í kvöld hefði auðveldlega geta sagt dóttur sinni að ég væri fötluð sem þýddi að ég gæti ekki gengið og því sæti ég í hjólastól í staðin.
Það er ekki eins og það sé nokkur harmleikur- væri verra ef ég væri sísofandi.
Kv. Freyja
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Gufunesbær í kvöld!
2.11.2007 | 11:47
Mig langar að byrja á því að þakka ykkur kærlega fyrir hlý orð í okkar garð og fyrir að gefa ykkur tíma til að skrifa athugasemdir við færslurnar. Það er svo gaman að sjá hvað þið hafið að segja!
Í kvöld verðum við Freyja í félagsmiðstöðinni Gufunesbæ í skemmtilegri stelpustemningu þar sem við ætlum að lesa upp út bókinni okkar Postulín, Marta María og Þóra ætla einnig að lesa úr nýrri unglingabók sinni og MAC verður með snyrtivörukynningu.
Við munum heimsækja nokkrar félagsmiðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu á næstu vikum og erum í óðaönn að bóka upplestra þessa dagana.
Með kærri kveðju,
Alma
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hvernig notum við verkfærin?
31.10.2007 | 22:39
Þar sem ég ákvað að taka upp skólabók í dag/kvöld aldrei slíku vant, varð 800 bls. sálfræðiskruddan fyrir valinu - enda ekki seinna vænna. Ég hef lengi haft mikinn áhuga á sálfræði, líklega þar sem ég hef áhuga á manneskjunni í öllu sínu veldi, samfélaginu og viðhorfum sem endurspeglast þar í hvort öðru. Sálfræðin útskýrir mannlega hegðun á nákvæman hátt og hjálpar okkur að skyggnast inn í hvenær, af hverju og hvernig fólk hagar sér eins og það gerir.
Í sálfræðinni eru hugtök sem lýsir öllu atferli, jafnvel því sjálfsagða, einhverju sem við framkvæmum bara og pælum ekkert í. Það hefur sína kosti því það minnir okkur á að sumt sem við gerum særir aðra, hefur áhrif á þá og kennir okkur að breyta samkvæmt því. Eftir því sem ég verð eldri og (vonandi) þroskaðri hefur gildi sálfræðinnar breyst fyrir mér. Um leið og ég lýt á hana sem nauðsynlegt verkfæri finnst mér hún stórhættulegt fyrirbæri sem einungis útvaldir kunna að fara með. Verkfærið byggir upp og brýtur niður.
Ég hef í dag verið að lesa um unglingsárin sem eru líklega einn sá flóknasti hluti æviskeiðsins fyrir alla. Þau voru hálf sorgleg hjá sjálfri mér á sínum tíma þar sem ég gat á engan hátt fundið brotabrot af sjálfri mér fyrir brengluðum hugsunum og skilaboðum umhverfisins sem voru að æra mig. Ég reyndi ýmislegt og samkvæmt því sem ég nú les hef ég verið með einn þann ,,afbrigðilegasta" og margslungnasta persónuleika sem fyrirfinnst á jarðríki. Ég gat séð mig í nánast öllum skilgreiningum um hið óeðlilega, hvernig sem á það er litið. Ég er búin að flissa mikið yfir þessu.
Ég veit ekki hvort það er skrítin pæling en ætli allar þessar skilgreiningar séu af hinu góða? Ætli öll sú aragrúa af sálfræðingum sem eru starfandi kunni að nota skilgreiningar án þess að ofmeta þær eða raunverulega misnota þær?
Af minni vinnu með börnum finn ég hve greiningaþörfin er sterk um leið og upp koma e-r ,,vandamál." Yfirleitt er það af hinu góða, að sjálfsögðu, þar sem þau flest þurfa á hjálp að halda en stundum er eins og það gleymist að horfa á tímabundið ástand barnsins hverju sinni. Við eigum öll okkar hæðir og lægðir í lífinu, þrátt fyrir að við séum kannski bara fimm ára.
Nú er ég í þroskaþjálfafræðinámi (vá, langt orð) og mun í framtíðinni vinna með mjög fjölbreyttum hópi fólks sem hefur ólíka hæfileika, þarfir, skoðanir, væntingar, vonir, drauma og þrár. Nánast hvergi í bókinni er talað um fötlun og ef það er gert er alltaf vísað til þess að það sé abnormal. Hví í ósköpunum á ég sem tilvonandi þroskaþjálfi að vita allt um hvað er eðlilegt? Auðvitað er mikilvægt að hafa viðmiðun og geta áttað sig á hvenær barn/fullorðin þarf frekari aðstoð, en af hverju er það birt sem eitthvað óeðlilegt?
Sem betur fer eru flestir kennarar okkar duglegir að minna okkur á að fræðin er ekki heilög en ég finn samt hve mikil heilaþvottastöð bókin getur verið þegar ég er ein að lesa með sjálfri mér. Mér finnast allir eðlilegir á sinn ólíka hátt. Mig langar ekki að tapa þeirri sýn í meðvirknikasti. Ég held það sé mjög mikilvægt að kenna ekki einungis kenningarnar heldur líka hvernig við notum þær og hvenær.
Smiður verður að kunna að nota verkfærin sín og skilja teikningar sem hannaðar eru af byggingarfræðingum eða arkitektum. Það er ekki nóg að hann viti að hamar heitir hamar og hver hafi búið hann til. Við hljótum öll, alveg sama í hvaða fagstétt við erum, að verða að kunna að nota verkfærin, hvort sem þau eru hlutlæg eða huglæg. Eins mikla virðingu og ég ber fyrir sálfræðinni og finnst gaman að læra hana vekur hún hjá mér blendnar tilfinningar. Upp að hvaða marki eigum við að læra um muninn á hinu eðlilega og óeðlilega?
Bloggar | Breytt 1.11.2007 kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)