Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
Sú sem starði og sú sem spurði
29.11.2008 | 20:19
Ég fór í Hagkaup í gær með aðstoðarkonu minni, sem er nú ekki frásögufærandi fyrir fimmaura, nema að við upplifðum mjög sérstakt mómemt. Aðstoðarkona mín var að fá sér salat/pastabakka og ég beið á meðan. Á meðan ég beið kom kona á miðjum aldri sem er að vinna í búðinni upp að mér og starði á mig í smá stund.
Kona: Hvað segirðu gott?
Ég (vandræðaleg): Ég segi bara fínt.
Konan starði, og starði og starði lengur.
Kona: Hvað ert þú gömul?
Ég (að reyna að fá ekki hláturskast): Ég er 22 ára.
Kona: Já, já, 22 ára.
Og hún starði á fæturna á mér, svo búkinn, svo andlitið til skiptis.
Ég vissi ekki hvert ég ætti að horfa - reyndi að horfa á eitthvað allt annað en þessa blessuðu konu.
Aðstoðarkona mín hætti við að fá sér pastabakkann. Ég hef aldrei verið jafn fegin að komast út úr Hagkaup.
...
Fyrr um morguninn hafði ég farið í heimsókn á leikskóla sem ég hef ekki komið á áður. Börnin sem voru í anddyrinu þegar ég kom urðu ein augu þar til að ein stúlkan braut ísinn og spurði: Af hverju ertu svona?
Ég: Vegna þess að beinin í líkama mínum eru ekki jafn sterk og ykkar og þess vegna hafa fæturnir ekki styrk til að standa. Í staðin nota ég svona flottan hjólastól.
Stúlkan (og hin börnin): Jááá, okay!
Málið var dautt!
Hvor ætli hafi farið heim með réttar hugmyndir í höfðinu - sú sem starði, eða sú sem spurði?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Hádegisupplestur hjá Credit info
24.11.2008 | 22:37
Í dag heimsóttum ég og Alma fyrirtækið Credit Info og vorum með hádegisupplestur. Það var verulega ánægjuleg stund í góðum hópi. Mikil umræða skapaðist og fengum við margar góðar spurningar varðandi viðhorf, börn, skólagöngu mína o.fl. sem mjög áhugavert var að velta fyrir sér.
Við þökkum kærlega fyrir okkur!
Fyrir þau fyrirtæki sem hafa áhuga á upplestri á Postulín geta haft samband við okkur á netfangið almaogfreyja@forrettindi.is. Við sníðum hvern upplestur og umræður eftir áhugasviði hvers hóps, og tökum greiðslu í samræmi við sanngjarnan taxta rithöfundasambands Íslands, 25.000 krónur hvor.
Þegar á móti blæs og erfiðleikar steðja að er fátt mikilvægara en áminning um hvað skiptir raunverulega máli í lífinu. Vegna fjölda áskorana og mikillar eftirspurnar höfum við ákveðið að halda áfram upplestrum okkar úr bókinni Postulín fyrir jólin.
- Freyja og Alma
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Verjum velferðina!
23.11.2008 | 01:25
Útifundur á Ingólfstorgi mánudaginn 24. nóvember kl. 16.30
Dagskrá:
Tónlistaratriði
Tómas R. Einarsson og Ragnheiður Gröndal
Gerður A. Árnadóttir
formaður Þroskahjálpar
Árni Stefán Jónsson
varaformaður BSRB
Halldór Sævar Guðbergsson
formaður Öryrkjabandalags
Margrét Margeirsdóttir
formaður Félags eldri borgara í Reykjavík
Fundarstjóri verður Björg Eva Erlendsdóttir
Fjölmennum á fundinn og sýnum að við látum ekki brjóta velferðarþjónustuna niður
Íslendingar! Við höfnum því að ráðist verði að undirstöðum samfélagsins með stórfelldum niðurskurði á velferðarkerfinu. Þegar þrengir að er mikilvægt að ekki sé vegið að almenningi. Við höfnum sérhverri aðför og krefjumst þess að stofnanir samfélagsins verði styrktar á erfiðum tímum.
Ég fagna þessu framtaki Þroskahjálpar, Sjálfsbjargar, Félags eldri borgara og BSRB. Í samfélaginu okkar hafa velferðamál oft orðið undir í þeim hraða, einstaklingshyggju og öðru sem hefur stundum blindað okkur. Þrátt fyrir fjármálakreppu hættir fatlað fólk, aldrað fólk og allt fólk yfirleitt ekki að lifa. Margir þurfa aðstoð til þess og þjónustu til að geta tekið þátt í samfélaginu með reisn og gefið af sér og lagt því lið með menntun, vinnu og öðru slíku. Ef sú aðstoð hverfur og þjónustan skerðist enn frekar - ekki er hún nú til fyrirmyndar fyrir, mun þjóðfélagið sitja uppi með enn alvarlegri vanda og mun meiri kostnað.
Til að sporna við því að fólk verði svipt velferð sinni verðum við að standa saman. Ef það er ekki þörf á samstöðu núna, þá hvenær?
Hlakka til að sjá ykkur öll, hvert eitt og einasta
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Hafið þið áhuga á uppbyggjandi og skemmilegum upplestri fyrir jólin?
10.11.2008 | 15:44
Þegar á móti blæs og erfiðleikar steðja að er fátt mikilvægara en áminning um hvað skiptir raunverulega máli í lífinu. Vegna fjölda áskorana og mikillar eftirspurnar höfum við Freyja Haraldsdóttir og Alma Guðmundsdóttir ákveðið að halda áfram upplestrum okkar úr bókinni Postulín fyrir jólin. Frá því síðasta haust höfum við vægast sagt verið önnum kafnar við að halda upplestra út um allt land og heimsótt bæði skóla, vinnustaði og ýmis félagasamtök. Við munum halda uppteknum hætti á komandi mánuðum og bjóðum nú upplestra á hverskyns samkomum, fundum eða aðventukvöldum.
Eins og flestum landsmönnum er orðið kunnugt er saga Freyju einstök. Stuttu eftir fæðingu greindist Freyja með beinstökkva og er eina manneskjan á landinu með sína tegund fötlunar. Þrátt fyrir að nota hjólastól og þurfa aðstoð við flestar athafnir daglegs lífs hefur hún ekki látið hindranir sem á vegi hennar verða stöðva sig í því að láta drauma sína rætast.
,,Þegar ég kynntist Freyju og fékk smám saman innsýn inn í líf hennar sá ég hvað þarna var mögnuð manneskja á ferð. Þrátt fyrir að nota hjólastól og þurfa aðstoð við flestar athafnir daglegs lífs féll fötlun hennar alveg í skuggann af þeirri manneskju sem hún hefur að geyma. Einskær lífsgleði hennar heillaði mig og ég ákvað að spurja Freyju hvort hún væri tilbúin að deila reynslu sinni með alþjóð og skrifa sögu sína." - Alma
Postulín fékk ekki einungis góða dóma í hvívetna heldur fékk Freyja verðskuldaða athygli. Henni voru meðal annars veitt Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalagsins og nokkru síðar valin Kona ársins 2007 af tímaritinu Nýju Lífi.
Bókin Postulín á erindi til allra sem leita hamingjunnar því hún er vitnisburður um einstakling og fjölskyldu sem tekst með einstökum hætti að sigrast á mótlæti. Ég er manneskja, ekki bara fötlun," segir Freyja og bendir fólki um leið á skylduna að gera ávallt greinarmun á persónum og þáttum sem valda mismunun. Draumur Freyju er samfélag án mismununar. Sjálf gerði það sem hún átti ekki að geta og tókst að sigrast á fordómum allt um kring. Hún þorði að eiga sér drauma og nýta fötlun sína öðrum til góðs.
Gunnar Hersveinn, Morgunblaðið
Þessari bók ætti að fleygja inná hvert einasta heimili í landinu sem fyrst. Það ætti að verða auðvelt því hún hefur stóra vængi. Eins og reyndar Freyja sjálf, sem lýsir veg minn að nýju upphafi og bjartari framtíð.
Edda Heiðrún Backman
Við sníðum hvern upplestur og umræður eftir áhugasviði hvers hóps, og tökum greiðslu í samræmi við sanngjarnan taxta rithöfundasambands Íslands, 25.000 krónur hvor.
Ef þið hafið áhuga á að fá upplestur og eiga notalega samverustund, vinsamlegast sendið þá fyrirspurn á almaogfreyja@forrettindi.is og við svörum um hæl. Verið einnig velkomin á blogg-síðu okkar; http://www.almaogfreyja.blog.is/.
Alma og Freyja
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)