Er skólinn of þröng peysa?

Eftir viðtal við Ólaf Stefánsson, ákveðin verkefni í skólanum síðastliðnu vikur og aðrar misgáfulegar pælingar hefur skólaumhverfið okkar verið mér ofarlega í huga. Ég hef í nokkurn tíma velt fyrir mér þeirri þjónustu sem íslenskt skólakerfi býður okkur upp á og hversu mikið það samræmist lögum og aðalnámskrám skólana.

Eftir dvöl mína á Nýja Sjálandi frá 11-13 ára aldurs fékk ég aðra upplifun af mikilvægi menntunar og hvernig hún fer fram, á hvaða forsendum hún er og hvaða markmiðum stefnt er að. Þessi tvö skólaár hinu megin á hnettinum einkenndust af lífsleikni sem birtist í öllum fögum; ensku, stærðfræði, sögu, náttúrufræði, listum, matreiðslu o.fl.. Fyrst um sinn fannst mér ég ekkert vera í ,,alvöru" skóla. Það var engin heimavinna, engir stafsetningarstílar og engin próf. Við þurftum ekki að reikna 25 stærðfræðidæmi af sömu tegund, leysa innfyllingaverkefni um enskar sagnir, atviksorð og lýsingarorð daginn út og inn eða syngja 100 ára gömul lög, algjörlega úr takt við okkar kynslóð, í söngsamverustundum.

Við vorum alltaf frá 9:00-15:00 í skólanum, alveg sama hvað við vorum gömul. Í stað þess að skrifa upp þurra stíla í stafsetningu skrifuðum við hugleiðingar um fyrir hvað við værum þakklát í lífinu, hvaða fimm hluti við myndum taka með okkur á eyðieyju ef við neyddumst til að fara þangað ein, hvernig við værum ólík og einstök frá öðrum, hvernig við værum lík og við hvað við værum hrædd. Í stað þess að fylla inn innfyllingarverkefni gerðum við scrap-bækur þar sem við teiknuðum, klipptum, límdum og skrifuðum um ýmislegt tengt málfræði, sögu, náttúrufræði eða hverjum sem er - hver gerði sitt með sínu sniði. Í söngsamverustundum voru sungin nútímaleg lög og maóra lög. Í stærðfræði vorum við látin finna  fasteign og gera fjárhagsáætlun fyrir tilbúna fjölskyldu sem okkur var úthlutað.

Vikulega voru  veitt hvatningarverðlaun, fyrir allt frá því að hafa náð betri tökum á ensku yfir í að segja góða brandara. Hver og einn hafði kosti og þeim var flaggað, alveg sama hvort þeir tengdust námsárangri beint eða ekki. Þegar við fengum einkunnir var okkur bannað að opna þær í skólanum - enginn samanburður átti að eiga sér stað. Í stað þess að skipta í hópa eftir getu aðstoðuðu sterkir nemendur þá sem áttu erfiðara með e-ð ákveðið fag - það var virkilega misjafnt milli faga hver var sterkur og hver þurfti aðstoð hvar. Einelti var tæklað með mikilli áræðni, ofbeldi var rætt við okkur eins og ekkert væri og mikið var komið inn á hvernig við ættum að bregðast við ýmsum aðstæðum, eins og innbrotum.

Þetta er einungis brotabrot af því sem breytti viðhorfi mínu gagnvart námi og því sem fram fór í skólunum sem ég sótti úti. Þetta voru að sjálfsögðu ekkert fullkomnir skólar og sumt var sérstakt, eins og að þurfa ávarpa kennara með eftirnafni og standa upp (sem ég dissaði náttúrlega) þega skólastjórinn kom. Ákveðnir hlutir sem framkvæmdir voru með mig í huga fólu í sér aðgreiningu, eins og að sleppa því að hafa mig með í brunaæfingu en taka eðlurnar í búrinu fullu af vatni með út í staðin.

Þetta var samt umhverfi sem viðurkenndi alla að flestu leiti (á auðvitað að gera það af öllu leiti). Síðan ég kom svo heim hefur mér stundum fundist menntun snúast um páfagaukalærdóm, kassalaga verkefni þar sem einungis eitt svar er rétt, heimildaritgerðir sem skoðun okkar skipti ekki máli og próf sem hræddu úr mörgum líftóruna. Í skólastefnu okkar er lögð áhersla á einstaklingsmiðað nám og skóla án aðgreiningar - svo höfum við samræmd próf. Nám á ekki ekki að aðgreina nemendur og á að mæta þörfum hvers og eins. Um leið eiga samt allir nemendur að samræma námsárangur sinn, í sama prófinu, við sömu kröfur, úr sama námsefninu, á sama tíma. Útkoman á því á svo að endurspegla stöðu skólana og árangur nemenda. Allir eru felldir saman í einn.

Hvaða logic er í því?

Sem betur fer eru einstaklingar og skólar að rísa upp - gegn þessari samræmingu á að allir skulu læra eftir sömu aðferð, úr sömu bók, vera á sömu blaðsíðu og læra jafn hratt. Auðvitað hafa aldrei allir tekið þátt í einfeldninni og samræmingunni enda ég haft kennara sem leggja meira upp úr mannrækt, uppbyggingu sjálfsmyndar, að efla gagnrýna hugsun og ýta okkur út í að koma fram og segja skoðanir okkar og hugsanir upphátt. Það eru líka þeir sem hafa haft mest áhrif á mig á minni skólagöngu, ekki grafið undan mér sem mannlegri veru heldur látið mig hafa verkfæri til að búa mig til sjálf.

Ólafur Stefánsson sagði í sínu viðtalið hjá Evu Maríu sl. sunnudagskvöld; ,,Heimurinn á að að samþykkja allar manneskjur, því þær eru allar afleiðingar og orsakir, og ég veit ekki hvað og hvað, og við erum bara í einhverjum sjó og erum að reyna controlera kaósið." Hann sagði líka ,,[...] ég hef óbilandi trú á því að allt sé hægt og mögulegt, fyrir hverja einustu manneskju, ef hún er bara með rétt [...] hugarfar, hættir að fókusa á það sem er akkúrat núna og skoðar alla hugsanlega möguleika, lokar aðeins augunum, sjá fyrir sér hluti, breyta þeim [...]"

Mér dettur ekki í hug að reyna að orða þetta sjálf. Ólafur nefnir að skólinn sé töluvert fastur í kössum sem framleiða einstaklinga í ákveðin verkefni. Hann vill augljóslega breyta því, eins og ég er hjartanlega sammála, og gera þetta þannig að nemendur hafi ótal möguleika til að þróa sig, þroska og blómstra - búa sig til. Eva María súmaði þetta niður í eina setningu, hvort skólinn væri eins og of þröng peysa, sem ég held að sé akkúrat málið.

Mér fannst skólinn á Nýja Sjálandi í fyrstu ekki nógu mikið ,,alvöru." Í dag blasir það öfugt við, fyrir utan skóla lífsins, hlaut ég þarna menntun sem snérist um að hver nemandi var samþykktur, stuðlað var að sterku hugafari og við þar með hvött til að skoða alla hugsanlega möguleika - ekki síst hvað varðaði okkur sjálf. Þannig hljótum við m.a. annars að ná að ,,controlera kaósið."


Athugasemdir

1 identicon

Frábær færsla og ég er hjartanlega sammála hverju orði. Gæti bætt ýmsu við þetta, með framhaldsskólana í huga, en læt það vera.

Takk fyrir góðan pistil.

Þórhildur (IP-tala skráð) 31.10.2008 kl. 01:01

2 identicon

Margir mjög áhugaverðir punktar, sem þyrfti að taka upp í íslenskum skólum.

Kristín Hildur Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 31.10.2008 kl. 07:23

3 identicon

Þetta er ólöglega góð færsla og hvert orð gefur frábæra merkingu.Ég hef sjaldan orðið jafn orðlaus yfir bloggfærslu eins og núna. Takk og aftur takk

jón og magga (IP-tala skráð) 31.10.2008 kl. 08:42

4 Smámynd: Kristinn Halldór Einarsson

Sæl Freyja
Mér finnst pistilinn þinn mjög áhugaverður. Bæði í honum, og því sem Óli Stefáns segir, er að finna gagnrýna hugsun á þá staðalæimyndir sem sífellt er verði að troða öllum í. Þessar staðalímyndir gagnast auðvitað vel þeim sem í þær passa en þeim mun verr fyrri þá sem ekki passa í fyrirfram gerð mótin. Hæfaielikar þeirra sem ekki falla að staðaímyndunum er fyrir vikið oft vanmetnir sem verður til þess að ekki ná allir að sýna hvað virkilega í þeim býr. Segja má að staðalíimyndunar virki eins og ákveðin tegund af hjálpartæki í samfélaginu fyrir þá sem að þessum ímyndum falla. Það gerir þeim auðveldara að komast áfram í samfélaginu. Á sama hátt verða staðalimyndanirnar hindranir fyrir þá sem búa fyrir annarkonar hæfileikum og þurfa á annarskonar aðstoð og hjálpartækjum að halda. Hæfileikar eru almennt of þröngt skilgreindir og fjölbreytninni er ekki nægjanlega hampað.

Kristinn Halldór Einarsson, 31.10.2008 kl. 10:34

5 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Mjög góð færsla hjá þér. Takk fyrir hana.

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 31.10.2008 kl. 13:45

6 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Flott færsla og ég get tekið undir hvert einasta orð..ég nam við skóla i englandi sem byggir á svipaðri hugmyndafræði og var mér alger opnun um hvað nám snýst um í raun..við urfum að endurhugsa svo margt í okkar samfélagi og námsstefnan er þar svo sannarlega ekki undanskilin.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 31.10.2008 kl. 14:29

7 identicon

Góð færsla, og tek undir með þér. Takk

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 9.11.2008 kl. 00:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband