,,Þetta er fyrir fólk í hjólastólum SKO”

Það var lítil rúmlega tveggja ára frænka mín sem var ein af þeim fyrstu sem gerði þá tilraun að skipa mér að standa upp fyrir þremur árum síðan. Hún var búin að biðja mig um að koma og sjá eitthvað nokkrum sinnum, sem ég var ekki fær um og bað hana því að koma og sýna mér. hún fékk nóg af þeirri leti og sagði alvarlega og skipandi ,,Stattu upp!"

Ég útskýrði fyrir henni að ég gæti það ekki á eins einfaldan hátt og ég gat og hefur það ekki verið til umræðu síðan - þ.e.a.s. að ég standi upp. Það hefur þó verið áberandi að hún virðist ekki sjá fötlunina og fylgihluti hennar - hún horfir einfaldlega fram hjá þeim.

Ég sótti hana á leikskólann um daginn og vinkona hennar kemur upp að mér og spyr ,,Af hverju ertu svona?" Ég útlista því hugsunarlaust fyrir dömunni en verður svo litið á frænku mína sem er með ,,um hvað ertu þú að tala" undrunarsvip á andlitinu og spurningamerki á augunum sem beindust stíft að vinkonunni.

Við fórum saman í bústað daginn eftir og allt í einu fóru að koma spurningar um hitt og þetta ,,Hvernig tannburstar þú þig? Er hausinn á þér fastur hérna megin? Af hverju þarf að skera matinn?" o.fl. sem eru eðlilegar spurningar undir öllum kringumstæðum barna, en kannski ekki algengar frá henni. Ég hugsaði með mér að hún væri kannski að uppgötva fötlun mína almennilega þarna og kippti mér ekkert sérstaklega upp við það.

En svo sótti ég skvísuna aftur í gær og ákvað hún að koma með mér í smá stúss. Í Kringlunni þurftum við að sjálfsögðu að finna okkur bílastæði og leggur aðstoðarkona mín í eitt slíkt, blátt með hvítum karli á í hjólastól. Nú, tæplega fimm ára, gjörsamlega gapti frænka mín og spurði aðstoðarkonu mína frekar reið: ,,Hvað ertu að gera? Af hverju ertu að leggja í þetta stæði? Þetta er fyrir fólk í hjólastólum SKO!"

Að reyna að halda andliti spyr aðstoðarkona mín ,,Er ekki einhver i hjólastól í þessum bíl?"

Þögn.

Það er nákvæmlega á þessum augnablikum sem ég minni mig á hversu mikið börn hafa fram yfir fullorðna. Það er á nákvæmlega þessum augnablikum sem ég átta mig á að ef fólk tæki sér svona víða hugsun til fyrirmyndar stæðum við ekki frammi fyrir öllum þeim fordómum og því ójafnrétti sem einkennir ákveðin hluta samfélaga. Það er á nákvæmlega þessum augnablikum sem ég geri mig grein fyrir því af hverju ég fer alltaf, aftur og aftur, að vinna með börnum.

Það er nákvæmlega á þessum augnablikum sem ég er bara Freyja - allt annað gera litlir töframenn ósýnilegt!

- Freyja


Athugasemdir

1 Smámynd: Dísa Dóra

Börn eru svo yndislega fordómalaus og klár.  Því miður breytist það allt of fljótt.

Dísa Dóra, 24.6.2008 kl. 20:14

2 Smámynd: Sigurbjörg Guðleif

Já ég er sammála það breytist allt of fljótt. Hafðu það sem best í sólinni:)

Sigurbjörg Guðleif, 24.6.2008 kl. 21:43

3 Smámynd: Agnes Ólöf Thorarensen

Yndislegust hún frænka þín....

Agnes Ólöf Thorarensen, 24.6.2008 kl. 23:12

4 Smámynd: Guðrún unnur þórsdóttir

já börn eru yndisleg  

Guðrún unnur þórsdóttir, 25.6.2008 kl. 00:36

5 Smámynd: Embla Ágústsdóttir

Þau eru svo yndislega falleg þessi börn

Embla Ágústsdóttir, 25.6.2008 kl. 00:55

6 identicon

Frábær frænka þín :) Til hamingju með afmælið í dag elsku Freyja, risaknús....

Rannveig Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 25.6.2008 kl. 08:14

7 identicon

börn eru æði þegar kemur að þessu

jón og magga (IP-tala skráð) 25.6.2008 kl. 13:34

8 identicon

Og til hamingju með afmælið

jón og magga (IP-tala skráð) 25.6.2008 kl. 13:36

9 Smámynd: Rúna Guðfinnsdóttir

Ég var að reyna að lýsa dreng fyrir syni mínum. "Hann er eiginlega svartur á húðina" sagði ég og þótti það eiginlega lýsa öllu sem þyrfti...en sonurinn var eitt spurningarmerki. En þegar ég sagði honum að pabbi hans ætti fjórhjól og stóran hund...þá kveikti minn maður... já...hann Siggi...hvers vegna sagðir þú þetta ekki fyrr?

Rúna Guðfinnsdóttir, 25.6.2008 kl. 14:19

10 identicon

Góður pistill um yndislega frænku okkar :) Ef allir hugsuðu svona...

Huld Hafsteinsdóttir (IP-tala skráð) 25.6.2008 kl. 15:49

11 Smámynd: Svala Erlendsdóttir

Nú skelli hló ég.  "Þetta er fyrir fólk í Hjólastólum" Bara yndisleg þessi frænka þín

Svala Erlendsdóttir, 25.6.2008 kl. 18:36

12 Smámynd: Halla Rut

Yndisleg færsla Freyja.

Svona eru börnin áður en við náum að spilla þeim með okkar fordómum og stöðluðu myndum af því hvernig manneskjan "á að vera".

Halla Rut , 25.6.2008 kl. 18:47

13 Smámynd: E.R Gunnlaugs

stundum eigum við hreinlega að halda í barnið í okkur :)

E.R Gunnlaugs, 25.6.2008 kl. 20:42

14 identicon

Já, börnin læra líka það sem fyrir þeim er haft........... að eiga svona frábæra frænku eins og þig hefur gefið henni dýrmætt veganesti út í lífið.

Árný (IP-tala skráð) 25.6.2008 kl. 21:50

15 Smámynd: Ása Hildur Guðjónsdóttir

Yndisleg saga Takk fyrir

Ása Hildur Guðjónsdóttir, 25.6.2008 kl. 22:37

16 identicon

Snilldar færsla og kennir okkur mikið.

ekki hægt annað að brosa af þessari yndislegu frænku þinni.

Berglind Elva (IP-tala skráð) 27.6.2008 kl. 00:11

17 identicon

Til hamingju með afmælið kæra frænka! Knús og kossar frá Hannover!

Huld Hafsteinsdóttir (IP-tala skráð) 28.6.2008 kl. 19:19

18 Smámynd: Ína Valsdóttir

Já þessi börn geta verðið Yndisleg. Ég kannast sjálf við þetta. Ég sem á nú 10. systkinni og 36. frændsystkinni.

Ína Valsdóttir, 29.6.2008 kl. 00:02

19 Smámynd: Heiða Björk Ingvarsdóttir

haha.. krúttið. Hún er nú engum lík hún frænka þín, alveg yndisleg.

Heiða Björk Ingvarsdóttir, 2.7.2008 kl. 01:57

20 Smámynd: Ásta

Svo satt ... það er oft gaman að fylgjast með því hvað þau horfa allt öðrum augum á veröldina.

Ásta , 3.7.2008 kl. 09:25

21 identicon

Góður pistill hjá þér Freyja líkt og endranær. Skynsöm þessi frænka þín greinilega, hafðu það gott.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 3.7.2008 kl. 21:53

22 Smámynd: Lovísa

Æðisleg færsla

Lovísa , 5.7.2008 kl. 13:07

23 identicon

Ji, Freyja. Þetta er með yndislegustu færslum sem ég hef lesið. Meira krúttið hún frænka þín. Það er eins og þú segir, börnin hafa þetta fram yfir okkur fullorðna fólkið að líta framhjá ótrúlegustu hlutum, eiginleikum og öðru sem við rýnum of mikið í og búum til fordóma út af.

 Vonandi hefur þú það yndislegt í sumar.

Kær kveðja

Olga Björt (IP-tala skráð) 5.7.2008 kl. 19:13

24 Smámynd: Fríða

Æðisleg færsla hjá þér og kennir manni mikið...Og sérstaklega hvað börn eru yndisleg og hún frænka þín er skynsöm 5 ára skvís
 

Fríða , 7.7.2008 kl. 02:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband