Ja hérna!

  ,,í 2 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fatlaðri stúlku. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða stúlkunni 800 þúsund krónur í bætur."

Ég er að velta fyrir mér hvort ekki skorti endurmenntunarstöð fyrir fólk sem starfar í dómsmálakerfinu. Það er með ólíkindum hvernig þeim tekst að dæma brot á eins mótsagnakenndan hátt og þeir gera. 2 ára fangelsi fyrir kynferðisafbrot (burt séð frá hvort fórnalambið sé fatlað eða ekki) er svo gjörsamlega absúrd í alla staði og þessar peningagreiðslur álíka fyndnar. Hvernig á gerandi í svona máli að ná sér á strik á tveimur árum? Jú, jú, það er líklega hægt að kaupa slatta af sálfræðitímum fyrir 800.000 en ég efast um að það bjargi miklu þegar svo alvarlegt brot hefur verið framið á manneskju.

Frá 8-17 ára aldurs nýtti ég mér ferðaþjónustu fatlaðra og í flest öllum tilvikum, sérstaklega fyrstu árin, kom e-r með mér. Blessunarlega varð ég aldrei fyrir neinu svona, enda vona ég af öllu hjarta að þetta sé algjört undantekningaratvik en ég hef lengi velt fyrir mér öryggi þessarar þjónustu. Margir foreldrar fatlaðra barna og ungmenna nýta sér þessa þjónustu því mikið er um ferðir í sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun o.fl. Erfitt er fyrir vinnandi foreldra að fá stöðugt að skreppa í vinnu í þessar erindagjörðir svo að oft er ferðaþjónustan lausnin.

Sjálfri finnst mér sú lausn ekki nægilega góð. Bæði er þjónustan sjálf einstaklega ósveigjanleg og þegar ég notaði þjónustuna var mikið rót á starfsmönnum svo oft var ég að fara með ókunnugum mönnum í mjög svo langa bíltúra. Notendur þurfa yfirleitt að bíða óhóflega lengi eftir bílunum og finnst mér það frekar mikil kröfuharka að yngri börn eigi að hafa þolinmæði í slíkt - það er yfirleitt ekki okkar sterkasta hlið á fyrstu árum lífsins.

Ég velti fyrir mér hvort foreldrar ófatlaðra barna myndu samþykkja að þurfa að senda börn sín í leigubíl í skólann, á æfingu o.fl. Hvort þeir myndu samþykkja að láta börnin sín í hendur ókunnugs fólks og labba svo í burtu.

Persónulega finnst mér að sá stuðningur sem fatlað fólk (börn, unglingar og fullorðnir) notar eigi að vera notendastýrðari svo að færri komi að málum hvers og eins. Ég skil t.d. ekki hvers vegna stuðningsaðilar barna og unglinga geti ekki í öllu tilliti fengið akstursgreiðslur til að keyra þau á sínum bíl (eða sérhönnuðum bíl foreldra) í það sem þau þurfa að fara í. Einnig þyrfti að vera öflugra að fatlað fullorðið fólk eigi sína eigin bifreið, burt séð frá því hvort það geti keyrt sjálft eða ekki, og ef ekki að starfsmenn þeirra geri það. Um leið skapast aukið frelsi og öryggi fyrir alla.

Aðstæður fatlaðs fólks í dag, hérlendis, finnst mér bjóða alltof mikið upp á vanvirðingu og ofbeldi í garð þeirra (okkar). Lítil áhersla er lögð á persónulega aðstoð og í staðin koma fjöldinn allur af aðilum að þjónustunni. Börn fara inn á skamtímavistanir, í ferðaþjónustuna, sjúkraþjálfun og aðra ,,hæfingu" oft án viðveru foreldra og geta því misvel stjórnað því hvernig og hver aðstoðar þau.

Sem fullorðin manneskja með skerðingu veit ég vel að þó ég eigi að geta talað mínu máli, staðið á mínu og valið mitt starfsfólk sjálf er ég enn háð ákveðnum aðilum sem ég ekki vel. Frá heimahjúkrun kemur misjafnt starfsfólk (flest frábært) sem mér líkar misvel við en verð að láta mig hafa til að komast í sturtu o.fl.. Í gegnum tíðina hafa þjálfunaraðilar og fagfólk komið inn í líf mitt í stríðum straumum og það er sama sagan, hvorki ég né foreldrar mínir höfðum kost á að velja og hafna.

Mörg okkar sem notumst við aðstoð að einhverju tagi þorum ekki alltaf að gagnrýna hana í ótta við að missa þjónustu sem við verðum að hafa. Þau skipti sem ég hef þurft að ,,kvarta" vegna alvarlegra mála hafa þau stundum verið hundsuð, ég þvinguð til að sætta mig við þau eða þeir aðilar sem ég hef gagnrýnt farið í fýlu og látið mig verulega finna fyrir því.

Mér finnst þetta ömurlega dæmi sem fréttin fjallar um endurspegla valdaleysi fatlaðs fólks á sinni eigin þjónustu - að hver sem er geti gengið í hvaða starf sem er. Þessi maður var ráðin af Ferðaþjónustu fatlaðra en ekki notendunum sjálfum. Sú manneskja sem varð fyrir ofbeldinu hafði líklega ekki um annað að velja en ferðaþjónustuna til að komast leiðar sinnar. Bílstjórinn braut á henni tvisvar sinnum svo ætla má að hún hafi ,,orðið að láta sig hafa það" að fara með honum aftur eftir fyrra skiptið til að komast í sinn skóla.

Hversu sorglegt er að umhverfið búi til slíkar aðstæður?


mbl.is Braut gegn fatlaðri stúlku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athugasemdir

1 Smámynd: Halla Rut

Mjög góður pistill hjá þér og svo réttmæt krafa. Því miður veit ég um stúlku sem varð fyrir slíku áreiti í ferð sinni með þjónustubíl og það tvisvar.

Væri ekki hægt að koma upp upptökubúnaði í þessa bíla. Það er ekki bara kynferðislegt ofbeldi sem maður sem foreldri hræðist heldur líka slæm framkoma og ég hræðist að fólk sem ég þarf í framtíðinni að treysta fyrir mínu fatlaða barni sé vont við það. Hann getur ekki sagt frá þar sem hann er svo til mállaus.

Halla Rut , 23.4.2008 kl. 17:52

2 Smámynd: Ásta María H Jensen

Sammála þessum pistli. Það er ekki ósjaldan sem maður sér að barnið manns má allveg bíða eftir þjónustunni en það er enginn sem bíður eftir barninu, sem er að klára mjólkina sína.

Ásta María H Jensen, 23.4.2008 kl. 23:48

3 Smámynd: Steingrímur Helgason

Það eina sem að ég er þér nú ósammála í þessum pistli, er sú staðhæfíng að þú getir 'eigi talað þínu máli'.

Þú nefnilega nærð mér til að hlusta, það er líklega merki um að þú náir alveg að tala þínu máli.

Steingrímur Helgason, 24.4.2008 kl. 01:01

4 Smámynd: Fríða

Algjörlega sammála fyrri mælendum, það getur ekki verið svo flókið mál eða dýrt að setja upp einhverskonar upptökubunað í bílana

Þú er rosa góður penni og haltu þessu endilega áfram! 

Fríða , 24.4.2008 kl. 01:49

5 Smámynd: Ása Hildur Guðjónsdóttir

Takk fyrir góðan pistil.

Gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn.

Ása Hildur Guðjónsdóttir, 24.4.2008 kl. 12:12

6 Smámynd: Alma Guðmundsdóttir og Freyja Haraldsdóttir

Steingrímur, ég get talað mínu máli en undir ákveðnum kringumstæðum hlustar enginn eða erfiðar mér að þora að segja það sem mér finnst:

,,Mörg okkar sem notumst við aðstoð að einhverju tagi þorum ekki alltaf að gagnrýna hana í ótta við að missa þjónustu sem við verðum að hafa. Þau skipti sem ég hef þurft að ,,kvarta" vegna alvarlegra mála hafa þau stundum verið hundsuð, ég þvinguð til að sætta mig við þau eða þeir aðilar sem ég hef gagnrýnt farið í fýlu og látið mig verulega finna fyrir því."

En takk fyrir hrósið samt ;)

Kv. Freyja

Alma Guðmundsdóttir og Freyja Haraldsdóttir, 24.4.2008 kl. 12:16

7 Smámynd: Helga

Frábær pistill hjá þér og er ég sammála þér í alla staði.

Það væri spennandi að skoða þessa "þjónustu"  betur, bæði hvað varðar öryggi og tímann sem að þjónustunotendur eyða í þessum bílum .  Oft hefur mig langað til að fá tækifæri til þess að ferðast nokkra daga með einhverjum sem nýtir þess þjónustu og taka tímann sem að fer í bið og óþarfa rúnt, því að þetta er alveg með ólíkindum    En því miður hefur ekki komið að því en kannski seinna. 

Eitt skipti þegar ég fór með einn einstakling á fótboltaleik tók það okkur klukkutíma að komast heim sem tekur vanalega um 15. mín að keyra, vegna þess að það þurfti að stoppa út um allt.  Svo þarf viðkomandi að borga fyrir sig og fylgdarmann...........ekkert smá sem að kemur í kassann hjá fyrirtækinu, sérstaklega þegar farið er út um allt til að nýta ferðina, enda virðist það vera ein markmið þeirra þ.e. að græða sem mest. 

Engin virðing borin fyrir einstaklingnum né hans tíma.  Held að ég yrði nú ekki ánægð ef að ég tæki leigubíl heim til mín en hann mundi stoppa á nokkrum stöðum til þess að taka fleiri upp en ég þurfti samt að borga fullt gjald. 

kveðja

Helga Hrönn

Helga , 24.4.2008 kl. 14:05

8 identicon

hæhæ gleðilegt sumaar

Hættþþ (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 17:46

9 Smámynd: Svava S. Steinars

Sæl, þetta er góður og þarfur pistill.  Ferðaþjónustu fatlaðra er ekki treystandi, það reyndu foreldrar stuðningssonar míns um daginn þegar þjónustan átti að keyra hann í leikskólann.  Hann er fjögurra ára, er með djúpa þroskahömlun og einhverfu og getur ekkert tjáð sig.  Hann er hinsvegar nýbúinn að læra að ganga og orðinn vel fær í því.  Bílstjórinn kom seint að sækja hann og var ekkert sérstakur í framkomu.  Hálftíma síðar er hringt í móður hans frá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra og hún spurð hvort drengurinn hafi átt að mæta í þjálfun hjá þeim ?  Nei, ekki í dag sagði hún undrandi.  Þá kom í ljós að bílstjórinn fór með drenginn inn á Styrktarfélag, í stað þess að fara með hann á leikskólann.  Ekki nóg með það, hann skildi hann eftir frammi í afgreiðslu ÁN ÞESS AÐ TALA VIÐ NOKKURN.  Þegar þær koma fram sjá þær barnið þarna eitt, þarna eru dyr sem opnast með skynjara og hann hefði getað verið farinn út!!!!  Þegar foreldrarnir hringdu í Ferðaþjónustuna til að fá skýringar og svör, var sagt æææ, þetta var afleysingabílstjóri, við notum hann ekki aftur.  Hvernig á fólk sem er í þeirri aðstöðu að verða að nota þessa þjónustu að geta treyst henni???? 

Svava S. Steinars, 25.4.2008 kl. 13:00

10 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Góður pistill Freyja, já við þurfum að taka höndum saman og finna nýjar lausnir. Ferðaþjónusta fatlaðra er algjörlega úrelt fyrirbæri! Og þetta mál er bara hræðilegt.

Kristbjörg Þórisdóttir, 25.4.2008 kl. 13:38

11 identicon

Var að lesa bloggið hennar Ölmu og viðbrögð við því.  Mér finnst nú flestir of harðorðir í garð ferðaþjónustu fatlaðra.  Auðvitað harma allir það sem gerðist og það er óafsakanlegt.  Hinsvegar skal bent á það að kynferðisleg áreitni og misnotkun hefur átt sér stað víðar, einsog í kirkjum, skólum, félagsmiðstöðvum, sumardvalarstöðum kristilegra samtaka, Breiðuvík og víðar.  Enginn staður virðist vera algjörlega óhultur fyrir kynferðislegri brenglun manna.  Nýleg dæmi hafa bent til þess að einmitt heimilin séu einn hættulegasti staðurinn fyrir börn.  Þar eiga ekki “ókunnugir menn” í hlut heldur náskyldir ættingjar sem barnið treystir. Fordæmum kynferðislega misnotkun en verum ekki með fordóma í garð ákveðinnar starfsemi eða stétta.   

Snúum okkur þá að ferðaþjónustu fatlaðra.  Ég hef kynnst henni sem bílstjóri og verð að segja að það kom mér á óvart hversu frábær þjónustan er.  Ég sé það á skrifum marga hér að þeir vita ekki mikið um það hvað í henni felst.  Í stuttu máli er ferðaþjónusta fatlaðra sambland af strætóþjónustu og leigubílaþjónustu og er lögbundin skylda fyrir sveitarfélög (rétt einsog t.d grunnskólahald).  Í raun er hún nær leigubílaþjónustu því hver og einn er sóttur upp að dyrum og keyrður að dyrum þess staðar sem hann ætlar á.  Og hjálpað ef með þarf.  Ekki nóg með það.  Kostnaður fyrir hvern og einn notanda nemur í flestum tilvikum aðeins HELMINGI AF STRÆTÓFARGJALDI.  Fyrir semsagt helming af strætófargjaldi eru allir sóttir heim og keyrðir upp að dyrum þangað sem þeir ætla svo fremi þeir uppfylli skilyrði um að fá að nota þjónustuna.  Og hver og einn á rétt á einum 40-60 ferðum í mánuði en verður að hafa þá fyrirhyggju, eða forráðamaður hans, að panta ferðina daginn áður (eða öðrum tilgr. fyrirvara).  Þó er hægt að vera reglulega inni með fastar ferðir t.d í vinnu, skóla eða sjúkraþjálfun og þá kemur bíllinn alltaf á sama tíma nema tilkynnt sé um forföll.  Til þess að gera aksturinn hagstæðari eru fleiri teknir í sömu ferð sem eru að ferðast á sama tíma á svipaðar slóðir.  Bæði það, og einnig að umferðin verður æ þyngri með hverju árinu, getur valdið því að bílstjórum seinki.  Fyrir því er gert ráð í þjónustunni og notendur vita af þvi og eru undir það búnir.  Raunar eru seinkanir algengar í allri almannaflutningsþjónustu.  Það þekkja allir og er ekkert sérstakt hjá ferðaþjónustu fatlaðra.  Raunar kom fram í tveimur viðhorfskönnunum sem ég sá gerðar í Kópavogi og Mosfellsbæ að langflestir notendur eru ánægðir með þjónustuna sem ferðaþjónusta fatlaðra veitir.

 Þegar ég sjálfur hóf störf sem bílstjóri kom mér mest á óvart hversu þjónustan er mikið notuð og greinilega ómissandi fyrir fatlaða, í starfi og leik.  Varð mér oft hugsað til þess að margir þeir sem ég keyrði voru miklu duglegri í tómstundum sínum þrátt fyrir fötlun sína heldur en ég sjálfur.  Skipulagið á þjónustunni er auðvitað mismunandi gott og svo eru bílstjórarnir að sjálfsögðu misjafnir.  Þeir geta gert mistök einsog annað fólk en margir þeirra eru frábærir.  Hafa skal í huga að þetta er ákaflega krefjandi starf og streituvaldandi og mjög illa launað.  Mannaskipti eru því tíð.  Nú á tímum er hvatt til umhverfisvænni lífshátta.  Menn reyni að samnýta ferðir, spara eldsneyti, fækki fjölda bíla í umferðinni og noti vistvænni bíla.  Það hlýtur því að vera betra að nota stóran (dísil-) bíl sem tekur kannski 6-8 persónur í sömu ferð en að 6-8 bílar skili sama hlutverki með öllum þeim kostnaði og mengun sem því fylgir.  Fyrir utan að auðvitað hafa ekki allir tök á því.  Held ég að þessi ferðamáti muni færast í vöxt á komandi árum og þá einnig fyrir fólk með fulla hreyfigetu.  Nú þegar er víða í stórborgum sérakreinar fyrir bíla með fólk sem fer í samfloti.  Ferðaþjónusta fatlaðra er því síður en svo úrelt fyrirbrigði heldur er hún kominn til að vera og á eftir að færast út í þjóðfélagið til annarra hópa samhliða öðrum almenningssamgöngum.  Hana má hinsvegar alltaf bæta, bæði skipulag, bíla og þjálfun bílstjóra.  Stefnum að því og styðjum það sem gott er. 

Atli Ö. Hilmarsson (IP-tala skráð) 6.5.2008 kl. 17:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband