Frægðarför á færibandi
13.4.2008 | 21:34
Svona í tilefni síðustu færslu um aðgengi hreyfihamlaðs fólks þá verð ég að segja ykkur frá frægðarför minni í Holtagarða en þangað fór ég til að finna mér sundföt í Útilíf - ekki að það sé frásögufærandi. Ég hef komið þarna einu sinni áður en þá vorum við Alma að árita á opnunardegi Hagkaups. Mér fannst ekkert athugavert við aðgengið þá, enda rúllaði ég mér beint úr bílnum og inn í verslunina sem er á jarðhæð.
Útilíf er hins vegar á annarri hæð svo að fyrsta verkefni okkar Ágústu aðstoðarkonu minnar var að finna lyftu - væntanlega. Þar sem við sáum hana ekki ákváðum við að skella okkur á færibandið sem skutlaði fólki á milli hæða. Ég hugsaði með mér hversu frábært það væri að þeir skildu ,,fórna" rúllustigum fyrir slétt færibönd en ég hef oft nýtt mér þau erlendis. Við sáum þó eftir því um leið og við flugum af stað upp, því færibandið var svo bratt að Ágústa þurfti að hafa sig alla við að halda mér með í för og passa að hún dytti ekki afturfyrir sig með afleiðingum sem ég ætla ekki út í. Þegar við vorum að nálgast toppinn fór eitt framdekk fram úr sér, hitt festist á færibandinu, stóllinn skransaði á ská, Ágústa með, kona og barn hennar sem voru fyrir aftan okkur flæktust í stólnum............... Sveittar, með hjartað í buxunum komumst við á leiðarenda - vá, við vorum svo fegnar að það mætti halda að við værum á toppi Everest. Engin slasaðist!
Inn í Útilíf fórum við og ég háði sundfatabaráttuna enn á ný - er búin að fara ca. 37 ferðir í sama tilgangi. Ég kom þó út með sundfötin langþráðu, harðákveðin í að fara ekki með færibandinu tilbaka. Okkur til mikillar gleði sáum við lyftufjandann sem var svona líka stór og rúmgóð. Þegar við komum að henni var þó kantur upp í lyftuna sem ég slapp yfir, enda á frekar meðfærilegu tryllitæki. Við ýttum samviskusamlega á takkana en ekkert gerðist, alveg sama hversu mjúkt og fast við ýttum.
Við ákváðum að finna starfsmann sem tilkynnti mér að ekki væri önnur lyfta í húsinu og eina leiðin til baka væri stórhættulega 90˚ færibandið. Mér leist nú ekkert á það, né Ágústu svo ég spurði hvort ekki væru öryggisverðir í húsinu sem gætu læknað lyftuna. ,,Nei, það eru bara engir öryggisverðir komnir í húsið."
Hhhmm...
Sú sama, sem var mjög elskuleg by the way, skellti sér í lyftuna og gerði sambærilega tilraunir og við á tökkunum en ekkert gerðist. Hún greip á það ráð að ná í iðnaðarmann sem var að vinna á svæðinu sem sagði okkur eins og ekkert væri eðlilegra ,,Jaa, lyftan er búin að vera svona, þetta gerðist líka í gær , hún lætur eitthvað leiðinlega." Hann gerði líka tilraunir á tökkunum með sama árangri. Þar sem hann hefur séð örvæntinguna í augum okkar beggja bauðst hann til að aðstoða okkur niður 90°-urnar sem við augljóslega þáðum!! Við komust öll heil niður.
RISAHÚSNÆÐI - ein óvirk lyfta - hættulega bratt færiband - engir öryggisverðir.
Áfram Holtagarðar!!!
Ég þarf allavega ekki að fara nakin í sund.
Athugasemdir
Gott að Iðnaðarmaðurinn gat hjálpað Þér/ykkur, hvað er þetta með lyftur þær eru alltaf bilaðar á svo mörgum stöðum. Freyja þú ert án efa einn sá mesti karakter sem ég hef séð og heyrt í. Dugnaður þinn í lífinu er mjög aðdáðunarverður. þú ert sú besta fyrirmynd sem einhver getur haft. Við þessi sem teljumst heilbrigð eru alltaf kvartandi og kveinandi en þú sem hefðir rétt á því gerir það ekki.
Haltu áfram
kv einfarinn
Sigríður Svala Hjaltadóttir, 14.4.2008 kl. 06:55
Það er til skammar í þjóðfélagi sem þykist vera með þeim bestu í heimi hvað aðgengi fyrir hreyfihamlaða er lélegt. Get ekki ímyndað mér til dæmis hvernig er að ætla að komast á pósthúsið hérna miðbæ reykjavíkur, ekki fræðilegt nema fyrir manneskju með tvo afskaplega góða. Slæmt hvernig verlsanir og þjónusta standa sig, en verra finnst mér nú að ríkið og sveitarfélögin skuli standa sig jafnvel enn verr.
Disa (IP-tala skráð) 14.4.2008 kl. 16:42
Úff...þetta hefur verið hálfgerð hrollvekja...eins gott að þið fenguð aðstoð!
Aðstaðan auðvitað til háborinnar skammar og vonandi nú þegar búið að kippa þessu í lag!
En...gott að þú fékkst sundfötin....
Bergljót Hreinsdóttir, 14.4.2008 kl. 16:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.