,,Við erum öll bara einstaklingar”
23.1.2008 | 17:39
Þó ég ætti svo innilega að vera að læra, í raun ætti að taka netið úr sambandi svo mikið þarf ég að læra, þá verð ég að deila með ykkur hvað ég er búin að vera að gera skemmtilegt á mánudaginn og í dag.
Ég fór og heimsótti nemendur í einum af barnaskóla Hjallastefnunnar, stúlkurnar á mánudaginn og drengina í dag. Þau stóðu sig öll með prýði og voru til mikillar fyrirmyndir. Ég hef undanfarin ár verið að fikra mig áfram með fræðslu fyrir börn og farið í nokkrar heimsóknir í því skyni, fyrir utan að hafa haldið námskeið á Kjarrinu í ,,Fötlunarfræði" eins og við kusum að kalla það. Þetta hefur gengið vel þó ég viti að ég megi alltaf þróa hana betur og með hverju skiptinu læri ég eitthvað nýtt sem ég nýti í næsta skipti.
Ég fjalla um ýmislegt en fræðslan gengur undir titlinum ,,Það er allt í lagi að vera öðruvísi. Þá setningu tek ég fyrir í lokin og fjalla um hana á marga vegu. Í dag gerði ég það og ræddi um að allir væru í raun öðruvísi, alveg sama hverjir og hvernig þeir væru og þrátt fyrir fötlun/hömlun af einhverjum toga væru allir færir um svo margt og hefðu tilfinningar (o.fl.). Ég reyndi að orða þetta á eins einfaldan máta og ég gat þangað til einn drengjanna tók málin í sínar hendur og setti í eina setningu það sem ég var að reyna að koma út úr mér:
,,Við erum öll bara einstaklingar.
Ég er ennþá að jafna mig á þessari setningu sem innihélt boðskap sem ég reyni að koma frá mér í hverjum fyrirlestri, með bæklingi, bók og fleiru sumir ná þessu, aðrir ekki. Undanfarið hef ég verið að upplifa skringileg viðhorf, á ólíklegustu stöðum, fordóma og fáfræði. Ég geri mig grein fyrir að þetta hefur alltaf verið til staðar, en það er eins og ég finni mismikið fyrir því í umhverfi mínu.
Í háskólum landsins eru kenndar ýmsar fræðigreinar sem reyna að stuðla að því að fólk sem kemur úr ólíkum hópum sé tekið gyllt í samfélaginu, fái tækifæri og pláss, sé virt og álitið manneskjur. Sumir koma úr náminu með viðhorf sem dekkar litróf mannlífsins, viðhorf sem horfir á samfélagið sem vanda en ekki fólkið sjálft. Aðrir koma úr sama náminu og eru ekki enn búnir að ná þessu, flokka fólk og líta á fötlun t.d., sem vandamál sem liggi í manneskjum og líkömum.
Sumt fólk eignast börn með fötlun og ,,fatta þá að hún skilgreinir ekki einstaklinginn heldur er einungis hluti af honum. Aðrir í sömu sporum kveikja ekki á perunni og tala stöðugt um börnin sín sem; ,,hið fatlaða, ,,þroskahefta dóttir mín, ,,spastíski sonur minn o.sfrv. og gefa í skyn að barnið sé mest megnið fötlun, ekki manneskja.
Þeir sem ,,ekki fatta eru m.a. þeir sem stuðla að brengluðum viðhorfum gagnvart börnum og fullorðnum með fötlun. Án þess að vita af því ýta þeir undir aðgreiningu á mörgum sviðum þjóðfélagsins. Fátt pirrar mig meira en fordæmandi hugarfar og viðhorf sem skaðar aðra beint og óbeint.
Það pirrar mig, því mér finnst við bera ábyrgð á hugsunum okkar og sem fullorðnar manneskjur eiga að geta þroskast í þá áttina. Það virðist þó vera fötlun margra að geta það ekki. Svo verða á vegi mínum manneskjur sem eru búnar að ,,fatta alveg ótrúlega fljótt og snemma.
Ein slík varð á vegi mínum í dag. Ef ekki væri fyrir þessum vegfarendum væri ég mun neikvæðari og svartsýnni á að samfélagið geti orðið fyrir alla. Þessir vegfarendur halda voninni við, því ég veit að fleiri munu mæta þeim eins og ég.
Við erum öll fyrirmyndir, ýmist góðar eða slæmar, sem felur í sér mjög mikla ábyrgð. Við höfum öll áhrif á aðra með hugsjónum okkar og viðhorfum. Ég vona að þessi glæsilegi ungi piltur muni mæta sem flestum á sinni vegferð um lífið því það þurfa svo sannarlega fleiri að heyra og skilja að við séum ,,öll bara einstaklingar."
- Freyja
Athugasemdir
Flottur pistill Freyja og já, börn geta oft verið svo yndislega klár og skynsöm miðað við ,,fullorðafólkið".....
Ég át bókina ykkar í jólafríinu... ehh Hún er...... ég á ekki orð.... eða eiginlega of mörg orð.... en, hún snerti mig... eða nei. Hún KÁFAÐI á mér !!!
- Emblan
Embla Ágústsdóttir, 24.1.2008 kl. 00:11
Mjög góður pistill og svo sannarlega satt að við erum öll bara einstaklingar.
Bókin þín er algjör gimsteinn og mér finnst að hún eigi að vera skyldulesning fyrir alla þá sem starfa með fötluðum einstaklingum og jafnvel að nota sem kennsluefni í fötlunarfræðum. Takk fyrir frábæra bók
Dísa Dóra, 24.1.2008 kl. 07:52
þau eru yndisleg börnin í barnaskólanum sem þú heimsóttir í vikunni, það þekki ég að eigin raun (finnst ég nefnilega eiga pínu í þeim öllum). En mikið er nú gaman að vita að þau séu núna reynslunni ríkari eftir að hafa hitt þig :) Held að þarna hafi allir grætt eitthvað stórt :)
kv.Eva
E.R Gunnlaugs, 24.1.2008 kl. 13:30
Góður pistill hjá þér Freyja og já, takk fyrir bókina, frábær lesning. Verð að hrósa foreldrum þínum sérstaklega vel fyrir hversu vel gerð þú ert og hversu langt þú ert komin með að bæta ýmind, já ég kalla það ýmind, fatlaðra. Þú ert virkilega að sýna og kenna öllum bætt hugarfar gagnvart fötluðum. Ég sé að ég hef margt að læra af þér, skilaðu kveðju til foreldra þinna frá mér með bestu þökkum fyrir þig. Knús á þig skvís og gangi þér allt í haginn . kv. Magga Össurar
Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 20:36
vel mælt Freyja
Þórunn Óttarsdóttir, 25.1.2008 kl. 09:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.