Lífið í árinu
1.1.2008 | 21:02
Það má með sanni segja að árið okkar hafi verið viðburðaríkt í þetta sinn og erum við búnar að upplifa saman alveg ótrúlega hluti, mikil afrek og skemmtileg augnablik.
Eins og allir vita höfum við skrifað lon og don bókina okkar Postulín en það sem gerði þann tíma enn skemmtilegri var að við vorum ansi duglegar að breyta um umhverfi og má segja að hún hafi verið skrifuð um víðan völl. Í apríl skelltum við okkur á Egilsstaði og Höfn vegna fyrirlestra Freyju og á milli þess sem hún flutti þá sátum við á hótelherbergjum og sáum hverja blaðsíðuna birtast á fætur annarri.
Sumarið fór mestanpart í skrifin, hugsanir um skrifin, símtöl um skrifin, e-mail um skrifin sem gaf okkur að lokum útgáfusamning við Sölku útgáfu, með aðstoð frá Kristjáni B. Jónassyni.
Um haustið vorum við aftur komnar með njálg og skelltum okkur til Portúgal þar sem Freyja og Sandra Eyjólfsdóttir (fyrrum skólasystir okkar beggja) voru fulltrúar Íslands á Evrópuráðstefnu um nemendur með sérþarfir. Við byrjuðum reyndar í tómu kæruleysi og leigðum íbúðir í Faro í nokkra daga. Fyrir utan okkur þrjár voru foreldrar Freyju með í för, ásamt Ásgerði Ólafsdóttur frá Menntamálaráðuneytinu. Þessir dagar einkenndust af sólbaði, lokapússningu á texta bókarinnar, góðum veitingastöðum, fallegri smábátahöfn og Haagen Dazs ís.
Svo lá leiðin til Lisboa, höfuðborgar Portúgal, þar sem ráðstefnan var haldin. Við höfum líklega sjaldan farið inn í og út úr rútum eins og þessa daga en fyrri daginn var okkur ekið í sumarbúðir þar sem við unnum í hópum. Freyju tókst að klæða sig um of og bráðnaði næstum því í orðsins fylgstu merkingu í hópavinnunni þar sem loftræstingin var biluð og herbergið fullt af fólki. Alma fékk það hlutverk að vera ritari Freyju og sat hún og reyndi að meðtaka gíganískt upplýsingaflæði sem þarna fór fram frá fólki frá óteljandi löndum. Hún stóð sig að sjálfsögðu með prýði!!!
Um kvöldið var okkur svo ekið í kastala þar sem við nutum gala-kvöldverðs og höfum við hvorugar enn meðtekið að það hafi verið raunveruleg upplifun en ekki við í tilbúnum drauma-sjónvarps-heimi. Myndirnar segja flest sem segja þarf. Daginn eftir tók ekkert síðra við en þá fluttu hóparnir niðurstöður frá deginum áður í Ráðhúsinu í Portúgal. Heyrst hefur að Freyja hafi aldrei verið stressaðri á ævi sinni við að lesa upp ca. 200 orð á blaði fyrir hönd hóps síns en stærðin, fjöldinn og ráðherra- og alþingismannabunan sem þarna var fór eitthvað fyrir brjóstið á henni.
Allavega - mögnuð ferð!
Þegar heim var komið tók jólabókaflóðið við og það erfiða verkefni að leggja lokahönd á Postulín en það tókst að lokum og kom hún út 16. nóvember sem var líklega okkar ,,dagur ársins." Við höfum farið vítt og breytt með upplestra og áritanir, á Selfoss, Reykjanesbæ, Akureyri, Kjós og auðvitað höfuðborgarsvæðið. Svo má náttúrlega ekki gleyma útgáfuteitinu í Iðu sem heppnaðist ótrúlega vel.
Þetta er búin að vera dýrmæt reynsla, við erum búin að tala við og hitta ótrúlega skemmtilegt fólk og upplifa jólastemningu alls staðar. Við höfum einnig reynt að halda umræðunni um málefni fatlaðs fólks á lofti, og munum gera áfram. Það sem stóð líklega hæðst í þeim efnum, fyrir utan bókina sjálfa, var þegar Alma setti sig í Freyju spor og eyddi einum degi ,,með fötlun." Má sjá þáttabrotið hér en vakti það mikla athygli og vonandi skilning á stöðu þeirra sem þurfa aðstoð við flestar, ef ekki allar, athafnir daglegs lífs.
Það sem auðvitað situr fastast í okkur eftir árið er sá þroski sem við höfum öðlast í gegnum alla þessa vinnu, dýrmæt vinátta okkar sem hefur dýpkað og orðið meiri, öll sú hvatning sem hefur falist í viðurkenningum ársins, jákvæðum umfjöllunum og fallegum skilaboðum sem þið lesendur hafið sent til okkar.
Bloggið mun að sjálfsögðu lifa áfram og reynum við að vera duglegar að halda uppi umræðunni um fegurðina sem felst í margbreytileika og litrófi mannlífsins.
Það skiptir ekki mestu að bæta árum við líf sitt, heldur hitt, að bæta lífi við ár sín.
- Alexis Carrel
Athugasemdir
Þið eruð alveg stórkostlegar, báðar tvær. Ég hitti Freyju á Fridays og leyfði mér að heilsa henni. Bara stóðst ekki mátið.
Gleðilegt ár kæru bloggvinir
Halla Rut , 2.1.2008 kl. 16:28
Gleðilegt ár stöllur! Hlakka til að lesa bloggið ykkar áfram allt næsta ár og svo fer ég að byrja á bókinni. (Læt ykkur vita hvað mér finnst, en ég er sérvitur á bækur.. reyndar allt..)
Rúna Guðfinnsdóttir, 2.1.2008 kl. 16:39
Gleðilegt ár
Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 3.1.2008 kl. 02:09
Kæra Freyja,
Ég hef nýlokið við bókina ykkar Ölmu og ég verð að segja að ég hef sjaldan orðið fyrir eins miklum áhrifum og af þessari bók. Lokaði ég henn með hálfgerðum trega þar sem mig langaði til að lesa meira og meira um þitt líf. Ég get ekki sagt að ég þekki einhvern sem er fatlaður og hef því litla þekkingu á fötlun persónulega þó ég lesi mér til um það.
Það sem ég er þakklát fyrir er t.d. bloggheimurinn því þar hef ég lært ýmislegt. Með því á ég við að ég hef lesið meðal annars blogg Jónu Á Gísladóttur sem á einhverfan son og skrifar um líf sitt af ástríðu og brjálæðislega frábærum húmor og svo bloggið ykkar. Ég nefni þessi tvö því af þeim hef ég lært mest. Jah, kannski bókinni um þig frekar en blogginu. Bókina fékk ég í jólagjöf og drakk ég hana í mig á mjög skömmum tíma.
Þú Freyja hefur hjálpað mér að skilja. Takk fyrir það! Þú ert mögnuð sál!!
kveðja
Harpa
Harpa Oddbjörnsdóttir, 3.1.2008 kl. 23:24
Elsku Freykja, takk fyrir frábærar stundir á árinu og til hamingju með árangurinn. Þú varst sko sannarlega kona ársins í mínum huga löngu áður en þú fékkst þá opinberu viðurkenningu :) Hlakka til að hitta þig, verðum endilega í bandi sem fyrst, knús, Rannveig :)
Rannveig Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 4.1.2008 kl. 11:17
Gleðilegt nýtt ár stöllur og til hamingju með framúrskarandi árangur á árinu sem var að líða. Ég brosti allan hringinn á því að sjá myndbrotin þar sem Alma mátaði hlutverk þitt Freyja og þetta er einmitt leiðin til þess að sýna samfélaginu hversu fatlandi umhverfið er í raun og veru og finna leiðir til úrbóta. Þið eruð bara guðsgjöf báðar tvær og mikið naut ég þess að lesa bókina ykkar í einum rykk á jóladag sem stóð algjörlega undir væntingum. Til lykke!
Kristbjörg Þórisdóttir, 5.1.2008 kl. 17:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.