Að springa úr þakklæti

Akkúrat í þessum skrifuðu orðum ætti ég að vera sofandi en þar sem ég skellti mér á kaffihús nú síðla kvölds og fékk mér kaffi latte, á ég mér líklega ekki viðreisnarvon í svefni næsta klukkutímann, jafnvel tvo. Nú er ég loksins búin í prófum og ég og Alma komnar í "frí" frá bókastússi í bili, þ.e.a.s. frá upplestrum og áritunum. Hugurinn er þó auðvitað alltaf við ,,afkvæmið" okkar, ósjálfrátt.

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að jólin séu að mæta. Þó svo að við Alma séum búnar að upplifa jólin alls staðar hef ég ekki alveg áttað mig á því og var í gær eins og tjúlluð manneskja um allar (tvær) verslunarmiðstöðvar höfuðborgarsvæðisins að leita uppi jólagjafir. Ég fann hvernig ég stressaðist öll upp í þessum látum en reyndi að hafa hemil á mér enda nýkomin úr jólahugvekju hjá Sr. Bjarna Karlssyni, en hann var með hana á sama stað og ég var að lesa upp úr Postulín í gær. Að vanda fangaði hann athygli viðstaddra og talaði um svo margt sem er nauðsynlegt að hugsa um í þessum ljóshraða samfélagsins. Hann minnti á að boðskapur kristinnar trúar um jólin væri að hver og einn mætti vera eins og hann er, sáttur í eigin líkami. Ég get ekki útskýrt þetta eins og hann svo ég skil ykkur bara eftir með þá staðreynd.

Hann talaði töluvert út frá bókinni okkar Ölmu (sem var ánægjulegt), að við værum öll fötluð og öll með heilsu. Að við dyttum ofan í þá gryfju að halda að veruleikinn væri ,,Ég og Hinir" sem er auðvitað mesti misskilningur. Að við værum öll ófullkomin (þess vegna erum við líklega öll svona sérstök), að við ættum að hlusta meira hvort á annað því öll höfum við frá svo merkilegu að segja - því við erum svo merkileg. Út frá þeim punkti fór hann að fjalla um umræðuna um kristinfræði í skólum. Þar kom önnur staðreynd, það er algjör óþarfi að fleygja henni út, hins vegar er bráðnauðsynlegt að auka þekkingu á öðrum trúarbrögðum meðal allra barna, kenna þeim að virða ólíkar áttir manneskjunnar. Önnur trúarbrögð hafa ekki minna vægi en kristni, einfaldlega annarskonar boðskap og aðrar áherslur - mér fannst gott að heyra prest segja þetta, þó það hljómi kannski furðulega.

Ég gæti haldið endalaust áfram en hugsa að ég sleppi því. Ég fór út með höfuðið troðfullt af hugsunum og hjartað af tilfinningum sem ég finn of sjaldan fyrir. Ég held að þessi stund hafi haldið mér frá hápunkti á jóla-raunveruleikafirringunni, sem betur fer. Jólin koma hvort sem að ég verð búin senda pakka erlendis eða ekki, eða fara með jólakort í póst.

En af hverju er ég að springa úr þakklæti?

Ég fékk fyrstu jólagjöfina mína í kvöld, líklega eina af þeim bestu. Tónleika til styrktar fyrirlestrum mínum og til heiðurs mínu starfi. Gospelkór Jón Vídalíns hélt semsagt þessa tónleika í FG, glæsilegur hópur af ungu upprennandi söngsnillingum sem komu með jólin til mín. Ekki má gleyma tónlistarfólkinu, Garðasókn og FG sem tók mikinn þátt í tónleikunum. Fólk spyr mig reglulega hvernig ég get staðið í baráttunni upp á hvern einasta dag, yfirstigið hindranir og tekist að afreka það sem ég hef gert. Ég skil ekki af hverju það sér það ekki, það er akkúrat með hjálp kvölda eins og í kvöld. Þar sem að ég finn að það er tekið eftir því jákvæða í lífinu og því sem vel er gert. Þar sem að ég fæ hvatningu og innblástur. Takk fyrir það.

Viðurkenningar síðustu vikna, kvöldið í kvöld, kveðjurnar frá Pétri og Páli, ykkur og hvatning minna nánustu fyllir mig þeim eldmóði sem ég þarf á að halda - sem allir þurfa á að halda til að ná markmiðum sínum. Það eru hins vegar ekki allir svo lánsamir að fá hvatningu og hrós, sumir reyna og reyna en enginn sér það, minnist á afrakstur þeirra og sigra. Sumir gefast því upp, hætta. Orkan hverfur og fólk stendur á tómu batteríi.

En ég er ein af þessum lánsömu, þess vegna er ég að springa úr þakklæti.

Með hjartans kveðju,

Freyja


Athugasemdir

1 identicon

ahhh,,, þú átt þetta líka svo sannarlega skilið Freyja mín, Gleðileg jól til þín og þinnar fjölskyldu. Bið að heilsa Oddnýju frænku þinni og múttu, knús á þig

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 21.12.2007 kl. 15:40

2 identicon

Fallega sagt :) Er að deyja úr spenningi, hitti familíuna á morgun og bara get ekki beðið! Bið að heilsa öllum á nr.3, ég vona að þið eigið gleðileg jól og slakaðu nú soldið á Freyja mín, þér veitir ekki af eftir öll afrek þessa árs ;)

Ástarkveðja, Huld.

Huld frænka (IP-tala skráð) 21.12.2007 kl. 20:00

3 Smámynd: Sigríður Jónsdóttir

Ég er bara að kasta jólakveðju á ykkur kæru bloggvinkonur.

Gleðileg jól og farsælt komandi ár!

 

Kv Sigríður

Sigríður Jónsdóttir, 22.12.2007 kl. 17:06

4 identicon

Gleðileg jól og farsæltkomandi ár

Jón Þór og Margrét Edda

jon (IP-tala skráð) 22.12.2007 kl. 19:21

5 identicon

Það var mér bara meira en heiður að fá að syngja fyrir þig Freyja mín :) Gaman að vita að við gátum hjálpað eitthvað til með báráttu ykkar Ölmu og ég hlakka mikið til að vinda mér í þessa bók :)

Gleðileg jól og farsælt komandi ár

Kveðja, Jökull söngfugl

Jökull (IP-tala skráð) 22.12.2007 kl. 23:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband