Eru fötluð börn, undrabörn?
20.10.2007 | 21:57
Ég fór á ljósmyndasýningu í Þjóðminjasafninu ásamt aðstoðarkonu minni Þóru, tveimur frænkum og áhugasömum fimm mánaða frænda í gær. Sýning ber því miður heitið Undrabörn og er eftir Mary Ellen Mark. Sýningin samanstendur af ljósmyndum af fötluðum grunnskólanemendum í sérskólum landsins og er ekkert athugavert við það í sjálfu sér.
Við röltum hring um salinn og skoðuðum hverja myndina á fætur annarri, sumar vöktu bros á vör en aðrar óþægilega tilfinningu um að ljósmyndarinn hefði farið út á hálan ís og runnið nokkrum sinnum á rassinn.
Af einhverjum skrítnum ástæðum voru mikið af myndum af börnum og ungmennum í sturtu. Líkami þeirra var misberskjaldaður og á sumum þeirra voru unglingsstelpur myndaðar á vegu sem ég hefði mótmælt harkalega í þeirra sporum. Ég velti því fyrir mér hvernig fötlun þær eru með og hvort þær geti gefið leyfi fyrir birtingu myndanna sjálfar.
Ætli umræddir nemendur hafi verið spurðir eða einungis foreldrar þeirra og starfsfólk skólanna? Ætli nemendur hafi fengið að sjá myndirnar og skera úr um hvað færi á vegg Þjóðminjasafnsins og hvað ekki? Ef þau hafa fengið val, ætli það hafi verið skert eða þvingað? Var skerðing nemenda í sumum tilvikum misnotuð í þessu ferli?
Þessar spurningar flugu í gegnum hugann hvað eftir annað þennan klukkutíma sem ég var þarna!
Eins mikið og ég elska svarthvítar myndir fannst mér þær óviðeigandi í þessari sýningu og setja drunga yfir líf fatlaðra barna og ungmenna. Ég tengi alltaf saman ungt fólk og litadýrð og mér fannst vanta ljómann. Á flestum myndum voru börnin þiggjendur og hjálparþurfi og kennarar/þroskaþjálfar/stuðningsfulltrúar voru nánast undantekningarlaust á svipinn eins og einhver hafi dáið. Mér fannst það líka óviðeigandi, varla er vinnan þeirra svona alvarleg og harmleiksþrungin.
Þessi orð mín mega ekki misskiljast. Að mörgu leiti er frábært að börn/ungmenni með fötlun prýði veggi Þjóðminjasafnsins - þau eru sýnileg. Það var flott að sjá hvernig Mary Ellen Mark náði augnablikum gleði og vanlíðunar og sýndi þannig að allir hafa tilfinningar, hvernig sem þeir eru. Myndirnar voru vel teknar að mörgu leiti og sumar mjög skemmtilegar. Fyrir utan að börn/ungmenni með fötlun eru jafn falleg og önnur börn/ungmenni. Ég efast ekki um að margir foreldrar séu nú stoltir og Mary þakklátir fyrir að opna nokkra glugga inn í líf barna þeirra. En það er bara ekki nóg að opna glugga, það þarf að opna dyr. Dyr sem sýna heildstæðari mynd af þeirri staðreynd að þótt við séum svolítið öðruvísi, lifum við sérstöku-eðlilegu lífi og höfum karakter og persónuleika.
Öllum ber að koma fram við okkur af virðingu og hana skortir upp að vissu marki í þessa sýningu því það gleymist að sýna heildina, reisnina og sjálfstæðið sem í okkur býr sama hve mikil og alvarleg fötlun okkar er. Á þessum myndum fannst mér skerðingin yfirgnæfa manneskjuna og það er ekki það sem við viljum árið 2007, að minnsta kosti ekki ég.
Titill ljósmyndasýningarinnar er furðulegur. Undrabörn. Ég hélt að við fæddumst bara börn. Jú, jú, lífsverkefni okkar sem lifum með fötlun eru kannski þeim mun meira krefjandi en hjá honum Jóni Jóns úti í bæ en okkur ber að leysa þau, það er ekkert annað í boði. Það er okkar líf. Annað sem mér fannst skrítið, það voru unglingar á þessum myndum. Þegar ég var unglingur leit ég ekki á mig sem barn.
En burt séð frá því, hefur mér aldrei fundist ég neitt undur veraldar.
- Freyja
Athugasemdir
Já, það er margt umhugsunarvert varðandi þessa sýningu. En varðandi aðstoðarfólkið þá virkilega gladdi hjartað mitt að sjá 1 mynd þar sem aðstoðarmanneskjan var brosandi út að eyrum því það var svo gaman!!! Því þó þetta sé algjörlega vanmetið starf, illa launað og þar fram eftir götunum þá hlýtur nú stundum að vera gaman í vinnunni! Eða það ætla ég rétt að vona.............
Árný (IP-tala skráð) 20.10.2007 kl. 22:16
Verð greinilega að fara að skoða þessa sýningu.
Þessi pistill er virkilega umhugsunarverður og margt satt í honum. Mér finnst nú pínu skrítið að allar myndir af aðstoðarfólkinu séu ekki af þeim skælbrosandi bara. Sjálf hef ég aðstoðað fatlaða í nokkur ár og bara elska starfið mitt og elska þá einstaklinga sem ég hef verið svo heppin að fá að aðstoða. Hef ekki séð annað en að ég og flestir sem ég hef starfað með séu megnið af tímanum brosandi svo það ætti nú ekki að vera erfitt að ná slíkum myndum. Vissulega koma alvarlegir tímar inn á milli en hinir eru sem betur fer fleiri.
Mér finnst reyndar oft fatlaðir undraverðir sem getað lifað lífinu með slíkri gleði sem yfirleitt einkennir þá þrátt fyrir þá fötlun og erfiðleika sem þeir þurfa oft að glíma við
Dísa Dóra, 21.10.2007 kl. 09:52
Mér persónulega finnst þetta mjög góð sýning og sérstaklega hlutinn þar sem eru sýndar myndir af þeim "stofnunum" sem börnin eru í. Ekki væri "heilbrigðum" börnum boðið að vera í svona skólastofum. Fyrir mér sem móðir fatlaðs barns fannst mér þessi sýning vekja fólk til umhugsunar. Þessi börn eru ekki alltaf brosandi og hamingjusöm. Þau eru "venjuleg". En nafnagiftin á sýningunni finnst mér ekki góð. Afhverju var ekki íslenskað enska nafið extraordinary child. Eða ofurvenjuleg börn. Hefði verið miklu betri þýðing.
Bergdís Rósantsdóttir, 21.10.2007 kl. 10:20
Sunnudagur til sælu fyrir ykkur
Elín Katrín Rúnarsdóttir. , 21.10.2007 kl. 10:28
Mér finnst þetta mjög umhugsunarvert blogg hjá þér Freyja og ég er frekar sammála þér, sérstaklega í sambandi við titilinn á sýningunni. Af hverju undrabörn? Mér finnst ég ekki vera neitt sérstaklega mikið undur. Eða vera neitt æðislega dugleg að geta borðað matinn minn sjálf, þó sumir vilja meina það.... En kannski er ég bara eitthvað að misskilja hlutverk mitt og stöðu
Hafðu það gott !
Kveðja Embla Ágústs
Embla Ágústsdóttir, 21.10.2007 kl. 13:58
Ég er þér hjartanlega sammála!
Ég var alls ekki hrifinn af þessari sýningu og tel þær því miður viðhalda þeim neikvæðu staðalímyndum um fatlað fólk á lofti sem ríkja í samfélaginu í dag
Helgi Þór (IP-tala skráð) 22.10.2007 kl. 11:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.