Það eru líka kettir í Kína sem hafa ekkert skott
2.10.2007 | 23:53
Þar sem aðstoðarkona mín var veik í dag hljóp Alma í skarðið og fórum við í sameiningu að heimsækja Norðlingaskóla, en í skólanum er ég að gera verkefni með þremur öðrum stelpum um nemendur með sérþarfir.
Ég hef lengi heillast af stefnu skólans og var spennt að fá loksins að kynnast starfseminni betur, verð þó að viðurkenna að ég hafði engar ofurvæntingar. Þegar við komum tók á móti okkur Sif skólastjóri, annað starfsfólk og að sjálfsögðu börnin sem sýndu okkur skólann sinn af áhuga og stolti. Skólinn hefur þá sérstöðu að vera án aðgreiningar (á borði en ekki á blaði), einstaklingsmiðaður og með þá stefnu að útskrifa lífsglaða, sterka og ánægða nemendur að loknu grunnskólanámi. Skólahúsnæðið er ekki upp á sitt besta enda til bráðabirgða en það var svo skrítið að eftir örskamma stund þarna inni féll það í skugga á góðum anda starfsmanna og barna sem þarna voru.
Eftir að hafa farið hringferð um skólann settumst við hópurinn niður með Sif og hún sagði okkur eitt og annað um starfsemi og stefnu Norðlingaskóla. Það var áhugavert að hlusta á sýn hennar, gríðarlegu þekkingu og reynslu af starfinu sem gerir ráð fyrir fjölbreytni og virðingu í garð allra barna.
Við Alma vorum verulega heillaðar og ánægðar að sjá að skóla af þessu tagi er hægt að halda uppi á raunsæjan hátt svo lengi sem starfsfólk hefur óbilandi trú á því sem það er að gera og kjark til að stíga skrefinu lengra. Saga sem lýsir skólastarfinu er hér og margt er til í henni.
Börnin voru auðvitað yfir sig hamingjusöm yfir því að fá Ölmu í skólann og fengu sum eiginhandaráritun. Mjög krúttlegt. Ég fangaði athyglina fyrir það sama og vanalega, þ.e.a.s. að vera svolítið "spes" og átti þetta samtal sér stað:
Nemandi: Af hverju ertu svona lítil?
Ég: Beinin mín eru brothætt og kunna ekki að stækka, ég er svo skrítin.
Nemandinn: Já, já, það eru líka til kettir í Kína með ekkert skott.
Góður!
Takk fyrir allar heimsóknirnar, endilega verið duglegri að kvitta fyrir komuna. Það er svo gaman að sjá hver þið eruð og lesa hvað þið hafið að segja.
Góða nótt
- Freyja
Athugasemdir
Langaði að kvitta fyrir innlitið, kíki alltaf hingað.
Finnst gaman að lesa færslurnar þínar og mikið er ég glöð að þér leist vel á Norðlingaskóla. Hetjan mín á nefnilega að fara þangað eftir ár og mikið svakalega er maður stressaður fyrir hennar hönd.
Knús til ykkar
Áslaug
Áslaug Ósk Hinriksdóttir, 3.10.2007 kl. 12:59
Blessaðar báðar tvær. Ég rakst á síðuna ykkar þegar ég var á blogglestrarrúnti Hlakka til að lesa bókina, hún á örugglega eftir að opna augu manns enn frekar.
Jóna Björg (IP-tala skráð) 3.10.2007 kl. 13:06
haha þessi börn eru bara yndisleg og mér finnst þetta svar nú lýsa því að þeim findist þú nú ekkert svo skrítin þrátt fyrir að vera ekki jafn stór og við flest - rófulaus köttur er enn skrítnari
Dísa Dóra, 3.10.2007 kl. 17:01
Börn eru bara snilld. Gaman að heyra af þessum skóla. Ætla að lesa mér meira til um hann en ég veit að yngri minn mun ekki fara í þann skóla þar sem við búum ekki í því hverfi.
Bergdís Rósantsdóttir, 3.10.2007 kl. 18:04
hahaha :) Góður :)
Bjorg Elva (IP-tala skráð) 3.10.2007 kl. 19:50
Væri svo gaman að sjá ykkur skreppa í skóla út á land....flott hjá ykkur
Einar Bragi Bragason., 4.10.2007 kl. 15:33
Sælar, þessi skóli var einmitt kynntur á ráðstefnu sem ég fór á og þá heillaðist ég af þeirri hugsjón sem þarna ríkir. Bara að allir skólar væru eins og Norðlingaskóli, mikið myndu nú öll börnin okkar græða á því að vera í skóla án aðgreiningar í raun og veru!
Kristbjörg Þórisdóttir, 4.10.2007 kl. 18:35
hahahaha - dásamleg athugasemd hjá barninu. Sýnir og sannar enn og aftur að við eigum að læra miklu meira af börnunum okkar. Hvað opinn huga og fordómaleysi varðar þá eru það börnin sem eru betri fyrirmyndir en við hinir fullorðnu. En annars vildi ég bara senda knús á þig Freyja mín og vona að þú farir vel með þig og hafir það gott.
Knús knús
Særún
Særún (IP-tala skráð) 4.10.2007 kl. 20:13
hæ hæ vildi kvitta undir góðan pistil og tek undir það að börn er skemmtileg og hafa skemmtilegt innsýn í lífið og tilveruna þakka fyrir mig og vona að allt gangi upp hjá þér Freyja mín.kv linda
Linda Linnet Hilmarsdóttir, 7.10.2007 kl. 14:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.