,,En ég gef þér alveg 30% afslátt.”

hrefna_cm_072_540 

Ég lenti í skrýtnu atviki í dag. Ég fór í sportvöruverslun til að líta á vind- og regnjakka þar sem veðrir gerir fátt annað þessa dagana en að blása og rigna. Þegar ég kom inn í búðina ásamt aðstoðarkonu minni þáði ég fljótlega aðstoð frá starfsmanni til að sýna mér úrvalið.

Þegar hún hafði þrætt alla jakkarekkana eins og þeir lögðu sig láðist mér að spyrja hvaða verð væri á þeim jakka sem mér leist best á. Hún svaraði því og um hæl spurði ég um verðið á öðrum sem mér þótti ágætur. Ég heyrði varla hverju hún ansaði, hún var ekki fyrr búin að sleppa orðinu þegar hún segir ,,En ég gef þér alveg 30% afslátt."

,,Já, það er nú alveg óþarfi" svaraði ég vandræðaleg ,,Ég er bara ekki viss um að mér líki liturinn." Þá heldur hún áfram að sýna mér flíkur sem mér þótti lítt spennandi og segir svo ,,Sko, ég get líka alveg gefið þér þetta á heildsöluverði."

Ég missti andlitið, afþakkaði, fór út jakkalaus og var kvödd með þeim orðum að ég fengi líka afsláttinn þegar ég kæmi aftur. Ég efast um að ég komi aftur. Þetta er hvorki í fyrsta né annað skiptið sem mér er boðin afsláttur og það liggur ljóslifandi fyrir hvers vegna, ég er fötluð. Hugurinn á bak við þetta er án efa fallegur en hins vegar litaður af svo mikilli fáfræði að því er vart lýst með orðum.

Ég geri mig fulla grein fyrir því að margir sem lifa með fötlun eru illa staddir fjárhagslega, en einnig ófatlað fólk sem er ekki boðin afsláttur. Það eru ekki allir með fötlun eins frekar en ófatlað fólk.

Ef ég hefði ekki efni á vindjakka væri ég ekki að skoða þá. Þrátt fyrir að fólk vilji vel er viðmót sem þetta ótrúlega misskilin góðmennska sem hefur ákveðið að ég hafi ekkert á milli handanna og sé óvinnufær.

Stundum þegar ég tala um þetta hneykslast fólk á því að ég skuli ekki vera þakklát. Það skil ég ekki. Hvers vegna ætti ég að vera þakklát einhverjum sem kemur fram við mig eins og ölmusuþega, fyrir það eina að sitja í hjólastól og vera með sýnilega fötlun?

Það er skondið þetta líf!


Athugasemdir

1 identicon

Blessuð.

Já já Freyja fólk er fífl.

Birna (IP-tala skráð) 27.9.2007 kl. 08:14

2 Smámynd: Heiða  Þórðar

Nákvæmlega Freyja! Góð ábending og umhugsunarverð.

Heiða Þórðar, 27.9.2007 kl. 14:19

3 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Sæl Freyja, flott hjá þér að benda á þetta. Endilega nota þennan vettvang til að fræða fólk aðeins. Svo veit ég að bókin ykkar verður bestseller og á eftir að ryðja múra eins og ég hef áður sagt að þú sért að gera og munir gera! Fólk áttar sig ekki á þessu hvað það er röng hugsun að eiga alltaf að vera einhver afsláttarmanneskja, flokkaður í annan hóp. Það ætti frekar að beina sjónum að því að skoða smánarlega framfærslu þeirra sem eru ekki á atvinnumarkaðnum vegna skerðingar. Og svo er það önnur saga af hverju atvinnumarkaðurinn er svona þröngt sniðinn og rúmar ekki fleiri en hann gerir! Það eru margir múrar að ryðja. Freyja þú ættir að fara í framboð!

Kristbjörg Þórisdóttir, 29.9.2007 kl. 15:07

4 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Eins og þú segir sjálf er þetta ekki illa meint af greyið fólkinu en ég skil þig vel....

Einar Bragi Bragason., 2.10.2007 kl. 00:44

5 Smámynd: Björk Vilhelmsdóttir

Sælar Stöllur. Langaði að benda ykkur á pistil eftir mig um sama málefni, afslátt til öryrkja, sem ég skirfaði 25. sept. og vakti töluverða athygli. Ég er greinilega á sama máli og þið.

Þá er gaman að fylgjast með ykkur úr fjarlægð. Þið eruð greinilega gott team. Í sem fæstum orðum: Þið eruð frábærar! - eins og þið eruð!

Björk Vilhelmsdóttir, 5.10.2007 kl. 09:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband