Færsluflokkur: Bækur

Bókin okkar

Fyrir tæpum tveimur árum síðan kynntumst við Alma í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ þar sem ég stundaði nám til stúdentsprófs og hún var mér til aðstoðar í nokkra mánuði. Við tengdumst strax mjög vel og eftir stuttan tíma bar Alma það upp við mig hvort við ættum að skrifa bók um upplifun mína af því að alast upp með fötlun. Tilhugsunin var í fyrstu skrítin en ég fann fljótt að hugmyndin heillaði, ég hafði sterka þörf til að opna þá veröld sem fylgir fötlun minni - veröld sem ég er stolt af að tilheyra. Við ákváðum að hefjast handa.

Síðustu tvö ár höfum við farið á stúfana við að leita að upplýsingum og auka skilning okkar á minni barnæsku með hjálp foreldra minna og öðrum nákomnum. Flest man ég sjálf en auðvitað voru eyður sem þurfti að fylla upp í. Alma tók viðtöl við mig fyrstu mánuðina og fyrir ári síðan gátum við markvisst hafist handa við að vinna úr efninu og skrifa bókina okkar.

Um miðjan ágúst sl. fórum við á fund Sölku-útgáfu sem hefur ákveðið að gefa út afrakstur okkar sem enn er þó ekki alveg lokið. Kristján B. Jónasson hefur verið okkur innan handar eftir að við vorum komnar með góðan grunn, fann með okkur útgefanda og hefur nú formlega tekið að sér ritstjórn bókarinnar.

Bókin hefur ekki fengið titil en það er í mótun ásamt ýmsu öðru sem tengist útgáfu hennar. Það er mér erfitt að lýsa þeim þroska sem þetta ferðalag hefur fært mér. Samvinna og vinátta okkar Ölmu hefur verið hnökralaus frá upphafi og uppskera okkar því öflug og mikil fyrir vikið.

Okkur langar til að deila með ykkur því sem eftir er af þessu ferðalagi og gefa ykkur tækifæri til að fylgjast með bókinni okkar líta dagsins ljós. Við höfum lagt nánast allan okkar frítíma í söguna og má því með sanni segja að hugur og hjarta okkar beggja fylgi henni alla leið.

Á eftir förum við með skemmtilegum hópi fólks til Portúgal í þeim tilgangi að sækja Evrópuþingið Young voices sem er ráðstefna nemenda með sérþarfir. Hún er haldin á vegum menntamálaráðuneytisins í Lisbon, Portúgal og fer ég sem fulltrúi Íslands ásamt Söndru Eyjólfsdóttur. Alma mun vera með í för sem vinkona og aðstoðarmanneskja og stefnum við á að halda vel á spöðunum og leggja lokahönd á skrifin okkar að mestu leiti.

Við hlökkum til að deila sem mestu með ykkur í máli og myndum.

Það er nóg framundan - svo farið ekki langt!

Bestu kveðjur,

Freyja


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband