Færsluflokkur: Bloggar

Er búin að flytja mig um set...

... á www.freyjaharalds.blog.is.

Kv. Freyja


Gleðileg jól!

sleep

Hugleyðing

Ég var búin að setja það mér sem markmið að blogga ekkert, að minnsta kosti sem allra minnst um þessa kreppu. Nú er mér þó ofboðið. Nánast öll umræða fólks á milli snýst um hana; á kaffihúsum, í afmælisboðum, í útvarpinu, blöðunum og sjónvarpinu. Líklega einnig á kaffistofum vinnustaða.

Flest umræða er neikvæð enda kannski ekkert skrítið, við smitumst af öðrum. Margir eiga um sárt að binda vegna fátæktar sem hefur versnað og var slæm fyrir, vinnu- og launataps, brjálaðra lánagreiðslna, skerðingar á lífsnauðsynlegri þjónustu til að geta lifað eðlilegu lífi o.fl.. Ástandið snertir alla í þjóðfélaginu, mismikið og alvarlega, en öll finnum við fyrir breytingum.

Ég er búin að reyna að sniðganga þessa umræðu eins og ég kemst upp með. Ég les ekki blöðin, ég horfi ekki á fréttir og legg mig alla fram við að eyða umræðunni um leið og hún fæðist. Nú hugsa flestir að viðhorf mitt sé á þennan hátt vegna þess að ég sleppi svo vel undan kreppunni.

Ég á góða vinkonu sem þarf að hafa sig alla við að halda lífinu gangandi fyrir sig og börnin sín vegna fjárhagserfiðleika, oft búin að þurfa að kyngja stoltinu og breyta aðstæðum til að allt gangi upp. Hún kvartar manna minnst undan kreppunni af öllum sem ég þekki.

Forsenda þess að ég lifi því lífi sem ég geri, geti stundað nám og vinnu, átt félagslíf og áhugamál, farið á fætur á morgnanna og að sofa á kvöldin, klætt mig, farið í sturtu og á salernið, sett mér markmið og náð þeim er sú aðstoð sem ég fæ frá þeim fimm konum (afsakið, stelpum) sem vinna hjá mér. Sú þjónusta kostar fjármagn og býr innra með mér mikill kvíði um skerðingu á henni, eða þjónustu við annað fatlað fólk. Auðvitað látum við það ekki viðgangast - það hefur enginn rétt til að skerða slíkan grundvallarrétt til sómasamlegs lífs.

Í kringum mig er fólk sem á erfitt uppdráttar með fyrirtækin sín, heldur í vonina um að það sleppi.

Grunnskóli yngsta bróðir míns gaf það upp í fréttunum fyrir stuttu að það ætti að skerða kennsluna og skólastarfið.

Auðvitað snertir þetta ástand mig eins og alla aðra, og af miklu fleiri ástæðum en ég tel upp hér.

Í gærmorgun vaknaði ég við þessa setningu frá konu sem var heima ,,Það er ekki orðið búandi á þessu landi hérna, allt að hækka upp úr öllu valdi, bensínið hækkaði um 8 krónur í morgun." Mér langaði til að snúa hausnum í hina áttina og halda áfram að sofa. Kvöldið áður braut ég regluna mína um afneitun fjölmiðla og horfði á fréttirnar, fyrstu fimm fréttirnar fjölluðu um kreppuna. Mér var endanlega misboðið.

Höfum við ekkert annað að tala um? Höldum við virkilega að þetta sé það versta sem geti komið fyrir okkur? Ætli atvinnulausu fólki líði eitthvað betur að vera minnt á aðstöðu sína hvert sem það fer? Ætli fólk sem býr við fátækt eigi auðveldara með að vonast eftir betra lífi þegar það flettir blöðunum og horfir á fréttirnar? Erum við búin að gleyma því að á síðustu tveimur mánuðum hafa látist tvö lítil börn á þessu landi? Ætli fjölskyldur þeirra hafi pláss til að syrgja fjárhag þjóðarinnar, þegar þær eru að syrgja börnin sín, það dýrmætasta og mikilvægasta sem þær áttu? Líklega ekki. Það er hægt að missa meira en peninga.

Ég er svo ótrúlega heppin að vinna með fólki sem hefur breytt áhyggjum í athafnasemi og enn meiri metnað til að láta verkin tala. Fólki sem trúir því að kreppan sé tækifæri til skapa pláss fyrir breytingar til hins betra.

Við höfum að mínu mati fulla ástæðu til að vera sár og hrædd. Við höfum líka ástæðu til að vera reið út í fólk sem við héldum að við gætum treyst fyrir samfélaginu og okkur sjálf fyrir að hafa treyst þeim, amk. samþykkt, með þögninni, gjörðir þeirra. En fyrst og fremst höfum við fulla ástæðu til að horfast í augu við staðreyndir, láta þær ekki stjórna lífi okkar algjörlega og leiða hugan að því sem við getum breytt. Með allri þessari neikvæðni erum við í raun að gera lítið úr okkur sjálfum nema við notum hana til góðs. Ég er ekki að segja að við eigum að láta bjóða okkur hvað  sem er, auðvitað  látum við í okkur heyra og höfum þannig áhrif. Ég er heldur ekki að rengja fjölmiðla fyrir að upplýsa okkur um stöðu mála, þeir sem fagmenn á þessu sviði mættu hins vegar setja sér skýrari mörk og meðhöndla fréttaflutninginn í takt við líðan fólks.

Kreppan fer ekkert því neikvæðari sem við verðum, þvert á móti. Við höfum fulla burði til að vernda fólkið í samfélaginu, halda okkar striki og skapa nýjungar sem stuðla að breytingum til hins betra. Það tekst þó bara með jákvæðum og opnum hugsunarhætti - og enginn stjórnar honum nema við sjálf.

Change has a considerable psychological impact on the human mind. To the fearful it is threatening because it means that things may get worse. To the hopeful it is encouraging because things may get better. To the confident it is inspiring because the challenge exists to make things better. - King Whitney Jr.

 

- Freyja


Skil hann svo vel .....

sleep-learning

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sem betur fer líkur þessu á morgun W00t


Sú sem starði og sú sem spurði

Ég fór í Hagkaup í gær með aðstoðarkonu minni, sem er nú ekki frásögufærandi fyrir fimmaura, nema að við upplifðum mjög sérstakt mómemt. Aðstoðarkona mín var að fá sér salat/pastabakka og ég beið á meðan. Á meðan ég beið kom kona á miðjum aldri sem er að vinna í búðinni upp að mér og starði á mig í smá stund.

Kona: Hvað segirðu gott?

Ég (vandræðaleg): Ég segi bara fínt.

Konan starði, og starði og starði lengur.

Kona: Hvað ert þú gömul?

Ég (að reyna að fá ekki hláturskast): Ég er 22 ára.

Kona: Já, já, 22 ára.

Og hún starði á fæturna á mér, svo búkinn, svo andlitið til skiptis.

Ég vissi ekki hvert ég ætti að horfa - reyndi að horfa á eitthvað allt annað en þessa blessuðu konu.

Aðstoðarkona mín hætti við að fá sér pastabakkann. Ég hef aldrei verið jafn fegin að komast út úr Hagkaup.

...

Fyrr um morguninn hafði ég farið í heimsókn á leikskóla sem ég hef ekki komið á áður. Börnin sem voru í anddyrinu þegar ég kom urðu ein augu þar til að ein stúlkan braut ísinn og spurði: Af hverju ertu svona?

Ég: Vegna þess að beinin í líkama mínum eru ekki jafn sterk og ykkar og þess vegna hafa fæturnir ekki styrk til að standa. Í staðin nota ég svona flottan hjólastól.

Stúlkan (og hin börnin): Jááá, okay!

Málið var dautt!

Hvor ætli hafi farið heim með réttar hugmyndir í höfðinu - sú sem starði, eða sú sem spurði?


Hádegisupplestur hjá Credit info

Í dag heimsóttum ég og Alma fyrirtækið Credit Info og vorum með hádegisupplestur. Það var verulega ánægjuleg stund í góðum hópi. Mikil umræða skapaðist og fengum við margar góðar spurningar varðandi viðhorf, börn, skólagöngu mína o.fl. sem mjög áhugavert var að velta fyrir sér.

Við þökkum kærlega fyrir okkur!

Fyrir þau fyrirtæki sem hafa áhuga á upplestri á Postulín geta haft samband við okkur á netfangið almaogfreyja@forrettindi.is. Við sníðum hvern upplestur og umræður eftir áhugasviði hvers hóps, og tökum greiðslu í samræmi við sanngjarnan taxta rithöfundasambands Íslands, 25.000 krónur hvor.

Þegar á móti blæs og erfiðleikar steðja að er fátt mikilvægara en áminning um hvað skiptir raunverulega máli í lífinu. Vegna fjölda áskorana og mikillar eftirspurnar höfum við ákveðið að halda áfram upplestrum okkar úr bókinni Postulín fyrir jólin.

- Freyja og Alma

 


Verjum velferðina!

  Útifundur á Ingólfstorgi mánudaginn 24. nóvember kl. 16.30

Dagskrá:

Tónlistaratriði

Tómas R. Einarsson og Ragnheiður Gröndal

Gerður A. Árnadóttir

formaður Þroskahjálpar

Árni Stefán Jónsson

varaformaður BSRB

Halldór Sævar Guðbergsson

formaður Öryrkjabandalags

Margrét Margeirsdóttir

formaður Félags eldri borgara í Reykjavík

Fundarstjóri verður Björg Eva Erlendsdóttir

Fjölmennum á fundinn og sýnum að við látum ekki brjóta velferðarþjónustuna niður

Íslendingar! Við höfnum því að ráðist verði að undirstöðum samfélagsins með stórfelldum niðurskurði á velferðarkerfinu. Þegar þrengir að er mikilvægt að ekki sé vegið að almenningi. Við höfnum sérhverri aðför og krefjumst þess að stofnanir samfélagsins verði styrktar á erfiðum tímum.

take-my-hand-27-04-2008

Ég fagna þessu framtaki Þroskahjálpar, Sjálfsbjargar, Félags eldri borgara og BSRB. Í samfélaginu okkar hafa velferðamál oft orðið undir í þeim hraða, einstaklingshyggju og öðru sem hefur stundum blindað okkur. Þrátt fyrir fjármálakreppu hættir fatlað fólk, aldrað fólk og allt fólk yfirleitt ekki að lifa. Margir þurfa aðstoð til þess og þjónustu til að geta tekið þátt í samfélaginu með reisn og gefið af sér og lagt því lið með menntun, vinnu og öðru slíku. Ef sú aðstoð hverfur og þjónustan skerðist enn frekar - ekki er hún nú til fyrirmyndar fyrir, mun þjóðfélagið sitja uppi með enn alvarlegri vanda og mun meiri kostnað.

Til að sporna við því að fólk verði svipt velferð sinni verðum við að standa saman. Ef það er ekki þörf á samstöðu núna, þá hvenær?

Hlakka til að sjá ykkur öll, hvert eitt og einasta Wink


Ragnar Emil

File


Hafið þið áhuga á uppbyggjandi og skemmilegum upplestri fyrir jólin?

_MG_7804

Þegar á móti blæs og erfiðleikar steðja að er fátt mikilvægara en áminning um hvað skiptir raunverulega máli í lífinu.  Vegna fjölda áskorana og mikillar eftirspurnar höfum við Freyja Haraldsdóttir og Alma Guðmundsdóttir  ákveðið að halda áfram upplestrum okkar úr bókinni Postulín fyrir jólin. Frá því síðasta haust höfum við vægast sagt verið önnum kafnar við að halda upplestra út um allt land og heimsótt bæði skóla, vinnustaði og ýmis félagasamtök. Við munum halda uppteknum hætti á komandi mánuðum og bjóðum nú upplestra á hverskyns samkomum, fundum eða aðventukvöldum.

Eins og flestum landsmönnum er orðið kunnugt er saga Freyju einstök. Stuttu eftir fæðingu greindist Freyja með beinstökkva og er eina manneskjan á landinu með sína tegund fötlunar. Þrátt fyrir að nota hjólastól og þurfa aðstoð við flestar athafnir daglegs lífs hefur hún ekki látið hindranir sem á vegi hennar verða stöðva sig í því að láta drauma sína rætast.

,,Þegar ég kynntist Freyju og fékk smám saman innsýn inn í líf hennar sá ég hvað þarna var mögnuð manneskja á ferð. Þrátt fyrir að nota hjólastól og þurfa aðstoð við flestar athafnir daglegs lífs féll fötlun hennar alveg í skuggann af þeirri manneskju sem hún hefur að geyma. Einskær lífsgleði hennar heillaði mig og ég ákvað að spurja Freyju hvort hún væri tilbúin að deila reynslu sinni með alþjóð og skrifa sögu sína." - Alma

Postulín fékk ekki einungis góða dóma í hvívetna heldur fékk Freyja verðskuldaða athygli. Henni voru meðal annars veitt Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalagsins og nokkru síðar valin Kona ársins 2007 af tímaritinu Nýju Lífi.

Bókin Postulín á erindi til allra sem leita hamingjunnar því hún er vitnisburður um einstakling og fjölskyldu sem tekst með einstökum hætti að sigrast á mótlæti. „Ég er manneskja, ekki bara fötlun," segir Freyja og bendir fólki um leið á skylduna að gera ávallt greinarmun á persónum og þáttum sem valda mismunun. Draumur Freyju er samfélag án mismununar. Sjálf gerði það sem hún átti ekki að geta og tókst að sigrast á fordómum allt um kring. Hún þorði að eiga sér drauma og nýta fötlun sína öðrum til góðs.

Gunnar Hersveinn, Morgunblaðið

Þessari bók ætti að fleygja inná hvert einasta heimili í landinu sem fyrst. Það ætti að verða auðvelt því hún hefur stóra vængi. Eins og reyndar Freyja sjálf, sem lýsir veg minn að nýju upphafi og bjartari framtíð.

Edda Heiðrún Backman

Við sníðum hvern upplestur og umræður eftir áhugasviði hvers hóps, og tökum greiðslu í samræmi við sanngjarnan taxta rithöfundasambands Íslands, 25.000 krónur hvor.

Ef þið hafið áhuga á að fá upplestur og eiga notalega samverustund, vinsamlegast sendið þá fyrirspurn á almaogfreyja@forrettindi.is og við svörum um hæl. Verið einnig velkomin á blogg-síðu okkar; http://www.almaogfreyja.blog.is/.

Alma og Freyja


Er skólinn of þröng peysa?

Eftir viðtal við Ólaf Stefánsson, ákveðin verkefni í skólanum síðastliðnu vikur og aðrar misgáfulegar pælingar hefur skólaumhverfið okkar verið mér ofarlega í huga. Ég hef í nokkurn tíma velt fyrir mér þeirri þjónustu sem íslenskt skólakerfi býður okkur upp á og hversu mikið það samræmist lögum og aðalnámskrám skólana.

Eftir dvöl mína á Nýja Sjálandi frá 11-13 ára aldurs fékk ég aðra upplifun af mikilvægi menntunar og hvernig hún fer fram, á hvaða forsendum hún er og hvaða markmiðum stefnt er að. Þessi tvö skólaár hinu megin á hnettinum einkenndust af lífsleikni sem birtist í öllum fögum; ensku, stærðfræði, sögu, náttúrufræði, listum, matreiðslu o.fl.. Fyrst um sinn fannst mér ég ekkert vera í ,,alvöru" skóla. Það var engin heimavinna, engir stafsetningarstílar og engin próf. Við þurftum ekki að reikna 25 stærðfræðidæmi af sömu tegund, leysa innfyllingaverkefni um enskar sagnir, atviksorð og lýsingarorð daginn út og inn eða syngja 100 ára gömul lög, algjörlega úr takt við okkar kynslóð, í söngsamverustundum.

Við vorum alltaf frá 9:00-15:00 í skólanum, alveg sama hvað við vorum gömul. Í stað þess að skrifa upp þurra stíla í stafsetningu skrifuðum við hugleiðingar um fyrir hvað við værum þakklát í lífinu, hvaða fimm hluti við myndum taka með okkur á eyðieyju ef við neyddumst til að fara þangað ein, hvernig við værum ólík og einstök frá öðrum, hvernig við værum lík og við hvað við værum hrædd. Í stað þess að fylla inn innfyllingarverkefni gerðum við scrap-bækur þar sem við teiknuðum, klipptum, límdum og skrifuðum um ýmislegt tengt málfræði, sögu, náttúrufræði eða hverjum sem er - hver gerði sitt með sínu sniði. Í söngsamverustundum voru sungin nútímaleg lög og maóra lög. Í stærðfræði vorum við látin finna  fasteign og gera fjárhagsáætlun fyrir tilbúna fjölskyldu sem okkur var úthlutað.

Vikulega voru  veitt hvatningarverðlaun, fyrir allt frá því að hafa náð betri tökum á ensku yfir í að segja góða brandara. Hver og einn hafði kosti og þeim var flaggað, alveg sama hvort þeir tengdust námsárangri beint eða ekki. Þegar við fengum einkunnir var okkur bannað að opna þær í skólanum - enginn samanburður átti að eiga sér stað. Í stað þess að skipta í hópa eftir getu aðstoðuðu sterkir nemendur þá sem áttu erfiðara með e-ð ákveðið fag - það var virkilega misjafnt milli faga hver var sterkur og hver þurfti aðstoð hvar. Einelti var tæklað með mikilli áræðni, ofbeldi var rætt við okkur eins og ekkert væri og mikið var komið inn á hvernig við ættum að bregðast við ýmsum aðstæðum, eins og innbrotum.

Þetta er einungis brotabrot af því sem breytti viðhorfi mínu gagnvart námi og því sem fram fór í skólunum sem ég sótti úti. Þetta voru að sjálfsögðu ekkert fullkomnir skólar og sumt var sérstakt, eins og að þurfa ávarpa kennara með eftirnafni og standa upp (sem ég dissaði náttúrlega) þega skólastjórinn kom. Ákveðnir hlutir sem framkvæmdir voru með mig í huga fólu í sér aðgreiningu, eins og að sleppa því að hafa mig með í brunaæfingu en taka eðlurnar í búrinu fullu af vatni með út í staðin.

Þetta var samt umhverfi sem viðurkenndi alla að flestu leiti (á auðvitað að gera það af öllu leiti). Síðan ég kom svo heim hefur mér stundum fundist menntun snúast um páfagaukalærdóm, kassalaga verkefni þar sem einungis eitt svar er rétt, heimildaritgerðir sem skoðun okkar skipti ekki máli og próf sem hræddu úr mörgum líftóruna. Í skólastefnu okkar er lögð áhersla á einstaklingsmiðað nám og skóla án aðgreiningar - svo höfum við samræmd próf. Nám á ekki ekki að aðgreina nemendur og á að mæta þörfum hvers og eins. Um leið eiga samt allir nemendur að samræma námsárangur sinn, í sama prófinu, við sömu kröfur, úr sama námsefninu, á sama tíma. Útkoman á því á svo að endurspegla stöðu skólana og árangur nemenda. Allir eru felldir saman í einn.

Hvaða logic er í því?

Sem betur fer eru einstaklingar og skólar að rísa upp - gegn þessari samræmingu á að allir skulu læra eftir sömu aðferð, úr sömu bók, vera á sömu blaðsíðu og læra jafn hratt. Auðvitað hafa aldrei allir tekið þátt í einfeldninni og samræmingunni enda ég haft kennara sem leggja meira upp úr mannrækt, uppbyggingu sjálfsmyndar, að efla gagnrýna hugsun og ýta okkur út í að koma fram og segja skoðanir okkar og hugsanir upphátt. Það eru líka þeir sem hafa haft mest áhrif á mig á minni skólagöngu, ekki grafið undan mér sem mannlegri veru heldur látið mig hafa verkfæri til að búa mig til sjálf.

Ólafur Stefánsson sagði í sínu viðtalið hjá Evu Maríu sl. sunnudagskvöld; ,,Heimurinn á að að samþykkja allar manneskjur, því þær eru allar afleiðingar og orsakir, og ég veit ekki hvað og hvað, og við erum bara í einhverjum sjó og erum að reyna controlera kaósið." Hann sagði líka ,,[...] ég hef óbilandi trú á því að allt sé hægt og mögulegt, fyrir hverja einustu manneskju, ef hún er bara með rétt [...] hugarfar, hættir að fókusa á það sem er akkúrat núna og skoðar alla hugsanlega möguleika, lokar aðeins augunum, sjá fyrir sér hluti, breyta þeim [...]"

Mér dettur ekki í hug að reyna að orða þetta sjálf. Ólafur nefnir að skólinn sé töluvert fastur í kössum sem framleiða einstaklinga í ákveðin verkefni. Hann vill augljóslega breyta því, eins og ég er hjartanlega sammála, og gera þetta þannig að nemendur hafi ótal möguleika til að þróa sig, þroska og blómstra - búa sig til. Eva María súmaði þetta niður í eina setningu, hvort skólinn væri eins og of þröng peysa, sem ég held að sé akkúrat málið.

Mér fannst skólinn á Nýja Sjálandi í fyrstu ekki nógu mikið ,,alvöru." Í dag blasir það öfugt við, fyrir utan skóla lífsins, hlaut ég þarna menntun sem snérist um að hver nemandi var samþykktur, stuðlað var að sterku hugafari og við þar með hvött til að skoða alla hugsanlega möguleika - ekki síst hvað varðaði okkur sjálf. Þannig hljótum við m.a. annars að ná að ,,controlera kaósið."


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband