FG og KFUM

Þó ég ætti að vera farin að sofa ákvað ég að skella hér inn nokkrum línum, ágætt að hreinsa huga fyrir svefninn af siðfræðikenningum vegna prófs á þriðjudaginn - ætla að reyna að dreyma þær ekki í nótt.

Það heyrist ekki mikið í okkur þessar vikurnar, brjálað að gera og ég of andlaus til að koma með heimspekilegar og misgáfulegar pælingar hingað. Er búin að heita sjálfri mér því að skrifa ekki um bííííb þjóðarinnar, nóg er bloggað, rifist í blöðunum og sjónvarpinu og dæst heima í stofu - sem er líklega skiljanlegt.

Ég og Alma fórum í KFUK heimilið með upplestur fyrir hóp kvenna sl. þriðjudagskvöld. Það var mjög notaleg stund og fengum við nokkrar góðar spurningar sem leiddi til áhugaverðra umræðna. Kærar þakkir fyrir okkur.

Á mánudag, miðvikudag og fimmtudag var ég í lífsleikni FG hjá nýnemum og var það verulega gaman. Ég hef farið í FG í 4 eða 5 ár og er það alltaf stemning. Hóparnir stóðu sig vel og komu með fróðleg innlegg. Fannst áhugaverð pæling eins stráksins um hvort fólk væri oft hissa yfir framtakssemi og velgengni hjá fötluðu fólki. Þegar ég hugsa um það er svarið já - fólk virðist ekki oft búast við að einstaklingar með skerðingar komist á framabrautina og ef þeir gera það eru þeir oft orðnir að hetjum. Hann nefndi þetta í tengslum við mín afköst í lífinu, sagðist ekki finnast neitt skrítið við að mér gengi vel. Fannst frábært að heyra þetta, get orðið gríðarleg þreytt á þessu hetjutali þó fólk meini vel.

það er að sjálfsögðu ekki algilt að fólk sé furðulostið yfir velgengni fatlaðs fólks en þetta er þroskuð og áhugaverð pæling að mörgu leiti. Þessi strákur var með flott viðhorf gagnvart þessu eins og þau mörg - það gefur mér von um að viðhorfinu sé viðbjargandi og fólk eins og hann smiti út frá sér, samfélaginu til hagsbóta.

Þetta er líka áminning um hugarheim ungs fólks og hve mikilvægur hann er umhverfinu. Fjölmiðlar nærast á neikvæðum fréttum um unglinga - það fer hrikalega í mig því þó nokkrar hræður taki alvarleg feilspor í lífinu, eins og að starfa amfetamínverksmiðju, eru það fáir af heildinni. Sá stóri hópur mætti fá meiri athygli og hljómgrunn. Ekki veitir af uppbyggjandi fréttum og umfjöllunum í neikvæðniflóði þjóðfélagsins.

Takk fyrir mig!


Hlúðu að þvi sem þér þykir vænt um

Langar einfaldlega að óska ykkur öllum til hamingju með Alþjóðlega geðheilbrigðisdaginn. Slagorð dagsins er ,,Hlúðu að því sem þér þykir vænt um", sem er geðorð tvö af tíu. Mér finnst það ekkert lítið viðeigandi í því ástandi sem þjóðfélagið er að fara í gegnum. Það leggst líklega mishart á einstaklinga og fjölskyldur en hvað sem því líður hlýtur að vera mikilvægast að hugsa um okkar andlega líðan, mikilvægi lífsins og alla þá sem eru í kringum okkur sem okkur þykir vænt um.

Neikvæðnin í fjölmiðlum og umræðunum í kringum okkur er gríðarlega smitandi en þessi dagur minnir okkur á hversu margar leiðir við getum farið til að stjórna hugsunum okkar og látið ekki neikvæðnivírus þjóðfélagsins hafa of mikil áhrif á líðan og líf okkar. Við berum já ábyrgð á okkar eigin hamingju.

gedraekt_segull_isl

Hægt er að fræðast um daginn á http://www.10okt.com/.

Kv. Freyja


Reykhólar

Upplestur 

Við keyrðum í yndislegu veðri í gær á Reyhóla og vorum með tvo upplestra úr bókinni okkar Postulín. Fyrst lásum við upp fyrir nemendur Reykhólaskóla, semsagt fyrir 1. - 10. bekk, sem gekk mjög vel. Seinnipartinn var svo upplestur fyrir almenning. Það mætti skemmtilegur hópur og skapaðist virkilega létt og góð stemning, mikið var um umræður og góðar spurningar.

Við þökkum kærlega fyrir hlýjar og góðar móttökur!

Alma og Freyja


Frekar ósamkvæm sjálfri mér ... kannski sem betur fer!!

Ég ákvað í byrjun september að ég ætlaði að taka mér frí frá fyrirlestrum, einbeita mér að skólanum o.sfrv., o.sfrv., o.sfrv. Síðan ég tók þá ákvörðun hef ég flutt 12 fyrirlestra, ca. 3-4 á viku og nóg er eftir enn. Semsagt, ekki mjög samkvæm sjálfri mér.

 

Eftirspurnin var töluvert mikil í haust og þá mest fyrir yngri deildir grunnskóla, sem er frekar nýtt fyrir mér. Þetta er þó búið að vera þvílíkt skemmtilegur mánuður þar sem ég hef hitt mikið af skemmtilegu fólki – aðallega börn.

 

Ég hef komið víða við, á ráðstefnum, hjá Hringsjá, Leikskólabrú FG, Ölduselsskóla og Hraunvallaskóla. Þessar heimsóknir hafa allar verið mjög áhugaverðar, ekki síst í grunnskólana. Ég var því miður ekki með myndavél í 6. bekkjum Ölduselsskóla en þeir krakkar stóðu sig frábærlega. Það var í raun einstök stemning í báðum hópunum, mikið af spurningum og frábær hlustun.

 

Í Hraunvallaskóla er einnig stórglæsilegur hópur nemenda en þar talaði ég við alla árganga, frá 1.-9. bekk. Þrátt fyrir stóra hópa tókst þetta vel og sýndu þeir allir mikinn áhuga, hlustuðu af athygli, spurðu mikið og komu með útpældar athugasemdir. Ég er búin að vera hálf orðlaus eftir hvert skipti.

 

Fanney aðstoðarkona mín, áhugaljósmyndari, tók myndirnar hér að neðan. Hægt er að skoða fleiri myndir eftir hana hér.

IMG 5333 DSC00118 DSC00115 IMG 5301

Á morgun förum ég og Alma með upplestur á Reykhóla, verðum bæði með fyrir nemendur Reykhólaskóla en seinnipartinn fyrir almenning, nánar tiltekið kl. 17:00 í skólanum. Segjum ykkur meia frá því síðar.


,,Hvernig koma tárin þegar við meiðum okkur?"

Það er búið að vera á to-do listanum mínum lengi að taka til í tölvunni minni. Ég er með skrilljón möppur, þar sem eru skrilljón merkilegir og ómerkilegir hlutir sem eru að fylla tölvuna mína, og gera það að verkum ég finn aldrei neitt. En að framkvæma þetta hefur tekið mig ca. ár - þetta stígur mér gríðarlega til höfuðs.

En ég byrjaði í kvöld, neyddist til þess þar sem ég er að skipta um tölvu og ætla ekki að færa öll þessi ómerkilegu skrilljón skjöl yfir að óþörfu. Það kom mér á óvart að þetta er bara nokkuð skemmtilegt og ég búin að finna hluti sem ég var löngu búin að gleyma en þykir ótrúlega vænt um. Eitt af því voru gullkorn og spurningahrynur frá yngsta bróður mínum. Ég ætla að deila með ykkur hluta af þeim, þetta hugarflug átti sér stað í huga hans eina kvöldstund fyrir nokkrum árum. Það má kannski geta þess að hann var nýbúin að horfa á þátt um karl sem fór í kynskiptiaðgerð og fá útskýringar frá hinum fullorðnu þegar við átti!

Af hverju vilja sumir karlar breyta sér í konu?

Geta þeir breytt sér svo aftur í karl? 

Ef karlar geta breytt sér í konu, hvers vegna geta þá ekki fatlaðir breytt sér í heilbrigða?

Ef þú myndir breyta þér í karl myndir þú þá verða heilbrigð?  

Af hverju vilt þú ekki verða heilbrigð? 

Hvert förum við þegar við deyjum?  

Freyja, við lifum endalaust, því við förum til guðs og erum englar og lifum á himnum.  

Af hverju eru sumir sem er dánir frægir, dísess, ég skil það ekki, eins og Mozart?  

Ég trúi ekki á guð, bara Jesús. Getur maður fermst þó maður trúi ekki á guð? 

Getur maður fermst tvisvar?

Hvernig koma tárin þegar við meiðum okkur?

Getum við fengið sýkingu í hjartað?

Getum við gleymt að anda?

Hvað gerist ef ég kyngi ekki munnvatni?

Freyja, þegar ég var lítill þá hélt ég að þegar fólk fengi sýkingu inn í sig væri það með sígarettu inn í sér.

Ef ég bara hefði haft svör við þessu öllu saman! Cool

Góða helgi


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband