Framundan

Eins og okkar er von og vísa er margt framundan en á morgun munum við selja og árita bækur fyrir starfsfólk Sjónarhóls og Æfingarstöðvarinnar. Seinnipartinn er svo förinni heitið á Selfoss þar sem við munum árita í Pennanum.

Á laugardaginn ætlum við að selja Postulín á jólamarkaði í Kjós frá 13:00-15:00 og förum svo beint þaðan í upplestur hjá Landsbankanum. Á sunnudaginn förum við einnig í Landsbankann og svo er það bara Akureyri city. Cool

Þar munum við dvelja fram á þriðjudag, vera með upplestur á bókasafninu á mánudagskvöldið og árita fyrr um daginn í Bókval, nánar tiltekið kl. 16:00. Á þriðjudaginn verðum við með upplestur fyrir starfsmenn Bæjarskrifstofunnar þar og bruna svo suður aftur í upplestur í Kjós.

Eins og liggur í augum uppi passa ég ekki inn í innanlands flugvélar sökum mikillar fyrirverðar og munum við því keyra norður. Ég bið ykkur því að leggjast á bæn og biðja veðurguðina að haga sér eins og herramenn *hóst* .... við vitum það, það er desember. Wink

Takk annars fyrir fallegar kveðjur. InLove

Alma og Freyja


Að trúa á lífið

Ég hef oft verið spurð að því hvort ég sé trúuð, sem ég er alveg, en ég trúi fyrst og fremst á lífið sjálft. Það hefur alltaf verið þannig fyrir mig að þegar ég sekk ofan í eigin vonleysi, fæ hræðslutilfinningu yfir komandi framtíð eða efast um sjálfan mig er alltaf eitthvað sem á sér stað og slær mér aftur til meðvitundar, minnir mig á að trúa á það góða í lífinu.

Í bókaútgáfu-ferðalaginu hef ég tekið mínar dívur og ein þeirra var núna síðustu daga. ,,Er ég að ganga of langt?" ,,Mun þetta hafa nokkuð að segja?" en svo þegar óþægindatilfinningin er alveg að gera út af við mig kemur jákvætt augnablik og góður dagur eins og í gær.

Í gær var ég með upplestur fyrir 10. bekkinga úr nokkrum skólum í Aðalbókasafni, Gerðubergi og Borgarleikhúsinu sem var mjög ánægjulegt. Nemendur hlustuðu af athygli og virðingu sem ég hef svosem oft upplifað í fyrirlestrum hjá ungu fólki eins og þeim. Fullorðna fólkið verður alltaf jafn undrandi yfir því - við vanmetum augljóslega ungt fólk sem hefur enn margt barnslegt í sér en er um leið svo miklu þroskaðra en okkur grunar.

Að þeim upplestrum loknum fór ég á Grand Hótel með upplestur þar sem Þroskahjálp var að veita hinn árlega Múrbrjót sem er hvatning fyrir að ryðja braut fólks með þroskahömlun. Kennaraháskólinn(Skólinn minn by the way Wink ) hlaut Múrbrjótinn að þessu sinni fyrir nýhafið Diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun. Ekki eru til margar fyrirmyndir af slíku í heiminum og er þetta því mikið fagnaðarefni og brautryðjandastarf. Ég er ótrúlega stolt af skólanum fyrir að taka svo stórt skref í átt að einu samfélagi fyrir alla.

Þegar framhaldsskólagöngu líkur eru möguleikar þeirra sem teljast þroskahamlaðir ekki margir, hvorki á atvinnumarkaðnum né á menntaveginum. Þó Diplóma-námið sé tilraunaverkefni eins og er, trúi ég ekki öðru en að það festist í sessi, eflist og verði viðurkennt sem viðurkenndari gráða í framtíðinni. Ég vona að aðrir háskólar taki sér þetta til fyrirmyndar, því þetta eykur tækifæri og bjartari framtíð fyrir nemendur með þroskahömlun. Námið brýtur múra fyrir nemendurna út í atvinnulífið, frekari menntun og samfélagið sem þarf á þeim að halda eins öllum öðrum borgurum í landinu.

Beint eftir þennan glæsilega atburð fór ég á athöfn Hvatningaverðlauna Öryrkjabandalags Íslands en þar var ég tilnefnd í flokki einstaklinga. Eins og vanalega var ég alveg græn og vissi ekki mitt rjúkandi ráð þegar ég var útnefnd sem handhafi verðlaunanna í þeim flokki í beinni útsendingu í fréttunum af Ólafi Ragnari Grímssyni.

Eins og áður verð ég orðlaus við svona viðurkenningu. Þetta er að sjálfsögðu mikill heiður, hvatning og innblástur til að hætta að efast um eigin verkefni og halda áfram á sama göngustígnum (hinum endalausa, svo líklega er ekki hægt að ganga of langt) í átt að einu samfélagi fyrir alla. Á þessari stundu var eins og togað væri í hnakkadrambið á mér og sagt; trúðu á lífið.

Takk fyrir mig.

Kv. Freyja

E.S. Viðtal við okkur Ölmu í Sviðsljósinu hjá Ellý má sjá hér og einnig var útvarpsviðtal í morgun á Rás 1 við verðlaunahafa vegna Hvatningarverðlaunanna og má hlusta hér.

OV8X9932

Ég með verðlaunagripinn. Hann sést kannski ekki mjög vel en glæru og appelsínugulu hringirnir tákna samfélagið, þ.e.a.s. pússlin (fólkið) sem skapa pússluspilið (samfélagið). Fólk með fötlun er oft pússlið sem ekki passar vegna stöðu sinnar en stálkubburinn erum við verðlaunahafarnir sem tengjum pússlin sem ,,ekki passa" við þau ,,hefðbundnu" og sköpum þannig eitt samfélag fyrir alla.

 


Gagnrýni

logo 1 

Hæ, hæ

Í Morgunblaðinu í dag, á bls. 15 fær Postulín gagnrýni/umfjöllun sem er ánægjulegt og í senn viðeigandi þar sem í dag er Alþjóðadagur fatlaðs fólks.

Til hamingju með daginn!!

Kv. Freyja&Alma


Myndir segja meira en þúsund orð

Snillingurinn hann Hlynur Hafsteinsson frændi minn tók ljósmyndir í útgáfugleðinni okkar í gær og viljum við deila nokkrum með ykkur. Ef þið viljið sjá fleiri myndir eftir Hlyn endilega smellið hér.

null

Útstilling í glugga fyrir útgáfugleðina í bókabúðina Iðu

 null

Í viðtali hjá Ellý í Sviðsljósinu

null

Að árita fyrir eina af mínum bestu vinkonum með hjálp Ölmu.

null

Aðeins of busy til þess að horfa í linsuna en.... sætar samt og mjög hamingjusamar með yndislegt kvöldið! Wink


Að sjá fræin verða að uppskeru

Í dag förum við í Borgarholtsskóla í upplestur og á morgun. Þá förum einnig í:

  • Áritun í Hagkaup í Smáralind kl. 13:00-14:00
  • Upplestur í Duus-húsinu í Keflavík 15:15
  • Söfnun hjá Mac til styrktar Alþjóðlega alnæmisdeginum seinni partinn.

Annars eru nýjustu fréttir að hljóðbókin er komin út. Hún tafðist örlítið því miður en er nú mætt sem er fyrir öllu.

Ég á að vera læra. Nenni því ekki. Er enn í sæluvímu yfir gærdeginum en þá héldum við Alma útgáfugleði vegna Postulín í Iðu á Lækjargötu. Þrátt fyrir mikið stress fyrr um daginn tókst teitið ótrúlega vel, fengum fullt af frábærum gestum, snilldar píanóleikara og auðvitað sungu Alma, Klara og Steinunn í Nylon nokkur velvalin lög fyrir fólkið.

Þetta var svo óraunveruleg stund.

Fyrir tveimur árum sátum við Alma inn í herbergi hjá mér og ákváðum að skrifa bók en vissum ekkert hvernig, með hverjum og hvenær - við ætluðum bara. Fyrir ári síðan settum við markið á þetta haust en vissum varla ennþá hvernig í ósköpunum við færum að því. Um mitt sumar kom Salka forlag til sögunnar og fóru þá hjólin að snúast fyrir alvöru - dyrnar að þessu hvernig? opnuðust.

Ef við Alma vorum ekki saman vorum við talandi í síman hvor við aðra eða sendandi tölvupósta, ef við vorum ekki að skrifa töluðum við um hvað við ætluðum að skrifa og ef við vorum ekki að tala um það vorum við hugsandi um efnið.

Fólk talaði oft um að það næði engu sambandi við mig og að ég væri svo utan við mig - bókin var einfaldlega lífið og fátt annað komst fyrir í huganum. Á köflum virtist vinnan óendanleg og óyfirstígandi en alltaf vorum við staðfastar, bókin átti að koma út. Hugurinn var fastur í haustinu 2007.

Draumar verða að veruleika, væntingar að árangri og fræ að uppskeru. Það sáum við báðar í gærkvöldi.

Við þökkum Sölku, fjölskyldum okkar, vinum og öðrum góðum gestum kærlega fyrir komuna og hvatningu í gærkvöldi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband